Fljótlegt naan brauð

image

Ég elska indverskan mat og þetta er ein fljótlegasta naan uppskrift sem að ég veit um og það þýðir að það er hægt að fá heimatilbúið naan með matnum þó að það sé miðvikudagur og enginn hafi sett deig af stað um morguninn. Það tekur enga stund að henda í svona og á meðan maður lætur deigið hvílast setur maður hrísgrjónin á, skutlar kjúklingnum í karrí og þá er allt að verða til á svipuðum tíma. Þessi uppskrift gerir ráð fyrir að maður eigi hrærivél, ég efast samt ekki um að það sé hægt að gera þetta í höndunum en þá er ég hrædd um að þetta verði bara naan brauð.

2014-01-21 23.23.10

Fljótlegt naan brauð

6 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
2 dl jógúrt
2 tsk matarolía
3-4 dl volgt vatn

Hrærðu öllum þurrefnunum saman í skálinni á hrærivélinni þinni. Bættu jógúrtinni, olíunni og einum dl af vatni út í og hrærðu áfram. Byrjaðu að bæta restinni af vatninu út í þangað til að deigið byrjar að haldast saman án þess þó að verða mjög blautt. Þú vilt ekki að það klístrist mikið því að þá geturu ekki flatt það út í kökur. Ég hef sjálf sett aðeins of mikið af vatni, þá bætir maður bara matskeið af hveiti út í þangað til að deigið jafnar sig. Þegar þér sýnist deigið vera passlega blautt þá leyfiru hrærivélinni að hnoða það áfram í 2-3 mínútur, kippir því upp úr skálinni og klípur það í sirka átta kúlur sem þú setur til hliðar (með klút yfir auðvitað) þangað til að þú ætlar að steikja brauðið.
Hitaðu pönnuna þína á hæsta hita. Þegar hún er orðin vel heit þá rúllaru út fyrstu kúlunni þinni. Búðu til þunna köku úr henni og skelltu henni á pönnuna. Fylgstu vel með brauðinu, þegar að það er enn ljóst en með nokkrum gerðarlegum svörtum blettum þá ætti hliðin að vera tilbúin, snúðu þá brauðinu og fylgstu með að hin hliðin verði í stíl. Settu brauðið á disk og breiddu hreint handklæði yfir til að halda því mjúku og heitu. Það er mjög gott að pensla brauðin með bræddu smjöri og hvítlauk eða dreifa kóríander yfir á meðan að þau eru heit.

2014-01-21 23.22.52

4 thoughts on “Fljótlegt naan brauð

Leave a comment