Eplasmjör

Ég kynntist eplasmjöri, eða apple butter, í fyrsta skipti þegar ég bjó í Georgíu í Suðurríkjunum. Það var skemmtilega öðruvísi en aðrar sultur sem ég hef kynnst, kryddað og gott. Á meðan mér fannst það ágætt þá tók fjölskyldan mín alvarlegu ástfóstri við það svo ég hef verið að gera eplasmjör í nokkur ár og deila út á meðal fjölskyldumeðlima þegar farið er að ganga á birgðirnar hjá þeim. Ég vona að þið njótið þessarar uppskriftar jafn mikið og við höfum gert!

Ég er að birta þessa uppskrift núna í október 2020 því að hún Sigurbjörg var að biðja mig um hana. Ég byrjaði að skrifa hana niður í maí 2015 en setti aldrei inn myndir af einhverri ástæðu og uppskriftin beið bara eftir að ég mundi klára hana. Þetta er æðisleg uppskrift, ég skil ekkert í mér að hafa ekki birt hana strax. Ég bjó hana upprunalega til sem samsuðu úr mörgum uppskriftum og aðlagaði hana að því að vera gerð á hellu en í Suðurríkjunum voru flestar uppskriftirnar fyrir slow cooker. Ég átti ekki slíkan og á enn ekki svo að ég geri mitt eplasmjör alltaf á hellu. Að auki vil ég taka fram að ég veit myndirnar eru ekki þær allra bestu, ég biðst forláts.

Eplasmjör

~2 kg Jónagold epli
6 dl vatn
1 1/4 dl edik

Skerðu eplin í grófa bita með hýði og fræjum og settu í pott með vökvunum. Eplin skaltu sjóða þangað til þau maukast auðveldlega, ég sauð þau í uþb. klukkutíma. Næst þarftu að kremja þau í gegnum sigti til að þú endir uppi með eplamauk. Þetta er frekar tímafrekt og þreytandi, taktu þér bara pásur eða fáðu einhvern með þér í þetta. Ég fékk hjálparkokk til að hjálpa mér síðustu mínúturnar. Þær eru erfiðastar því þú vilt nefnilega fá því sem næst allt eplakjötið, svo að maukið verði ekki bara lapþunnt eins og í byrjun.
Á móti hverjum 2 hlutum af eplamauki fer 1 hlutur af sykri. Uppskriftin er miðuð út frá því að þú sitjir uppi með uþb. 2 lítra af eplamauki. Ég mundi ekki setja mikið meira af eplamaukinu en það án þess að auka aðeins við kryddin í leiðinni.

~2 l eplamauk
~1 l sykur
2 teskeiðar kanill
1/2 teskeið negull
smá múskat
smá salt
börkur og safi úr hálfri sítrónu

Hræra öllu saman í góðum potti og láta suðuna koma upp. Hrærðu reglulega og leyfðu eplasmjörinu að sjóða í uþb. 2 tíma. Prófaðu þykktina með því að setja örlítið af eplasmjöri í botninn á lítilli skál og inn í ísskáp í smá stund. Þegar þér líkar þykktin þá seturu smjörið í krukkur. Ég er svo hégómafull með sulturnar mínar að ég setti smá rauðan matarlit út í hana undir lokin, eins og amma mín gerði alltaf með rabbabarasultuna sína. Ég fékk síðast 6 krukkur af eplasmjöri út úr þessu. Smjörið er gott á allt sem sultur eru góðar á, vöfflur, pönnukökur, hjónabandsælur, í mútur, með ostum, á ristað brauð osfrv. osfrv. Njótið í tíma og ótíma!

Vinsælast 2015

Gleðilegan gamlársdag öll sömul, takk fyrir lesturinn á liðnu ári. Ein af fyrstu uppskriftum næsta árs verður líklega hreindýrakjöt sem verður eldað í kvöld. Þið getið beðið spennt.

Á meðan þið bíðið getið þið litið yfir hvað var vinsælast á blogginu árið 2015. Mér sýnist þetta skilaboð til okkar Heiðu um að gera fleiri heita rétti og jafnvel fleiri útgáfur af naan brauði:

Í fimmta sæti er hveiti- og sykurlausa rabbabarabakan

P1130310

Fjórða mest lesna uppskriftin er besta rabbabarapæið

P1110057

Nýjasta uppskriftin er í þriðja sæti. Heiti afmælisrétturinn 2015

P1130639

Naan brauðið er í öðru sæti. Þetta er líka elsta uppskriftin á listanum. Það er greinilegt að mjög margir kunna að meta hana.

wpid-20140121_232241.jpg

Í efsta sæti er svo heitur réttur með öllu. Við sjáum reglulega það sem ég kalla ,,lestrarsprengjur” þegar þeirri uppskrift er deilt vítt og breytt.

P1120255

Mér finnst alltaf gaman að skoða þessa lista. Oft verð ég nefnilega gríðarlega hissa á því hvað verður vinsælt og hvað ekki. Þó heiti rétturinn sé t.d æðislegur og í uppáhaldi hefði ég aldrei búist við svona miklum vinsældum. Svo eru aðrar uppskriftir í uppáhaldi hjá okkur Heiðu sem okkur finnst eiga skilið athygli. Ég ætla að bæta tveimur svoleiðis við þennan lista svona til gamans.

Það fyrsta sem mér dettur í hug er ein fyrsta uppskriftin á blogginu. Súkkulaði hnetusmjörsostakaka. Byggð á Cheesecakefactory köku og hrikalega mikið vesen. En þess virði trúið mér.

P1050879

Smjörkjúklingurinn hennar Heiðu. Líka smá vesen og tími sem fer í þá uppskrift en maður uppsker eins og maður sáir.

2015-05-10 21.57.22

Allt-of-mikið-brownies

2015-05-10 22.41.19

Nafnið segir eiginlega allt sem segja þarf. Þessar brownies eru allt of mikið. Þetta er miklu meira aðferð en uppskrift og ég mæli með að fólk noti bara hverja þá brownie uppskrift sem að fólki finnst best, hérna getið þið fundið mína uppáhalds. Hvort sem að þú bakar þær frá grunni eða notar bara mix úr kassa þá mæli ég með því að þú prófir þetta ef að þú ert í stuði til að ganga langt út yfir öll mörk, sykurlega séð.

2015-05-09 22.37.02

Allt-of-mikið-brownies
fyrir fleiri en þú heldur

1 uppskrift brownies
200 g hvítt súkkulaði
6 mars stykki skorin langsum í hálft

2015-05-09 21.11.17

Gerðu brownie deigið og hrærðu hvíta súkkulaðinu, brytjuðu, saman við. Settu aðeins minna en helminginn af brownie deiginu í botninn á eldföstu móti með bökunarpappír. Mitt mót var 20×20 cm og það passaði mjög vel. Raðaðu svo mars stykkjunum temmilega þétt ofan á og hyldu þau síðan með restinni af deiginu. Ég notaði sleifina til að skammta deiginu í hlutum yfir til að dreifa betur úr því, þetta er voðalega einfalt samt. Bakaðu súkkulaðibragðbættu sykurbombuna svo á 180°C í 30-40 mínútur. Taktu kökuna svo út úr ofninum og leyfðu henni að kólna. Ef að þú getur ekki stillt þig þá endaru með súkkulaðiklessu. Bragðgóða súkkulaðiklessu en ekki þá fallegustu. Kakan er sérstaklega góð eftir að hafa staðið í ísskáp og það er lang best að skera hana kalda.

2015-05-10 22.40.42

Ein í viðbót í lokin því að ég hreinlega get ekki stillt mig!

2015-05-10 22.43.30

Smjörkjúklingurinn hennar Heiðu

2015-05-10 21.57.38

Butter chicken, murgh makhani eða smjörkjúklingur er ótrúlega góður indverskur réttur. Eins og með marga indverska rétti tekur oft smá stund að gera þá alveg frá grunni en það er algjörlega þess virði! Ef ég hefði tíma mundi ég henda í þennan allavega einu sinni í mánuði, kannski ég fari bara að búa til tíma.
Ég skuldaði einum frábærum eitthvað gott í kvöldmatinn eftir að hann skipti um dekk á hjólinu mínu á meðan ég var í vinnunni, keyrandi út um allan bæ að leita að handpumpu og ég veit ekki hvað og hvað. Held að ég eigi ekki eftir í vandræðum með að fá hann til að laga hjólið mitt í framtíðinni.

Smjörkjúklingurinn hennar Heiðu
fyrir 3-4

Kryddjógúrt:
700 g úrbeinuð kjúklingalæri, skorin í bita
1-1 1/2 bolli grískt jógúrt
1 1/2 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
Lime safi úr hálfu lime
2-3 hvítlauksgeirar
1-2 cm engifer

Best er að byrja á að búa til mauk úr hvítlauknum og engiferinu. Notið þá aðferð sem að ykkur finnst best, ég notaði hvítlaukspressu og saxaði svo yfir engiferið aftur. Ég mundi ekki mæla með því nema að ykkur finnist kósý að fá engifer í augun. Margir segja að það sé gott að merja þau í mortéli eða jafnvel með töfrasprota. Ég mundi sinna hvítlauknum og engiferinu fyrir sósuna í leiðinni því þá ertu bara búinn með þau leiðindi. Mælið út hin innihaldsefnin, blandið öllu saman í skál og veltið kjúklingnum vel upp úr. Ef að þið leggið kjúklinginn í kryddjógúrtina fyrir fram skulið þið láta hann inn í ísskáp. Ef að þið ætlið bara að láta hann liggja á meðan að þið gerið sósuna þá skulið þið bara láta hann standa úti á borði. Þessi kryddjógúrt er svo góð að ég er nokkuð viss um að hún verði mikið notuð á grillið í sumar!

?

Sósan:
2 msk smjör
1 laukur
2-3 hvítlauksgeirar
1-2 cm engifer
4 kardimommur
2 saxaðir tómatar
1 kanilstöng
1 tsk paprika
1/4 tsk chiliflögur
1 tsk cuminduft
1 msk garam masala
2 msk tómatkraftur
2 msk möndlumjöl
3 dl rjómi
Vatn eftir þörfum
Salt eftir smekk

?

Best er að byrja á engiferinu og hvítlauknum eins og ég minntist á áðan. Saxið líka laukinn og tómatana. Bræðið smjörið í potti og setjið kardimommurnar út í það. Steikið svo laukinn, engiferið, og hvítlaukinn upp úr því, ekki gleyma að salta laukinn. Á meðan laukurinn er að steikjast skaltu byrja að bæta kryddunum út í, kanilstönginni, chiliflögunum osfrv…öllum nema garam masala. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur skaltu setja tómatana út í og halda áfram að steikja í uþb. 10 mín á vægum hita og bæta síðan tómatkraftinum út í. Eftir það er gott að veiða kardimommurnar og kanilstöngina upp úr og mauka grænmetið með töfrasprota. Þá er kominn tími á að steikja kjúklinginn.

?

Ég steikti hann á pönnu við háan hita, ég nokkrum skömmtum til að hann brúnaðist en soðnaði ekki bara. Þegar ég var búin með hvern skammt henti ég honum bara ofan í kryddblönduna. Þegar ég var búin að steikja allan kjúklinginn skolaði ég af pönnunni og töfrasprotanum með smá vatni og setti út í pottinn. Ef það er einhver afgangur af kryddjógúrtinni þá má það fara út í pottinn líka. Hækkaðu undir pottinum og bættu rjómanum út í og hræra garam masala og möndlumjölinu saman við. Þegar suðan er kominn upp þá skaltu lækka aftur og hræra af og til. Rétturinn er síðan tilbúinn þegar þú ert búinn að sjóða sósuna niður þangað til hún er orðin hæfilega þykk.

2015-05-10 21.57.22

Við bárum matinn fram með hrísgrjónum og hvítlauksbrauði. Naan brauð hefði verið alveg fullkomið með!

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar kæru vinir. Við tókum saman nokkrar sumarlega uppskriftir sem þið getið prófað í dag eða síðar til að fagna sumrinu.

Þessi verður svo borðuð í kaffiboði sem ég fer í á eftir. Uppskriftin er hér.

solv

 

Allskonar borgarar finnst mér sumarlegir. Við erum með uppskriftir af alls konar borgurum og buffum. T.d bjórborgurum úr lambakjöti og grænmetisborgurum út sætum kartöflum. Nammi!

P1110336

 

Ef þið ætlið að grilla er þessi sósa æðisleg, reykt grillsósa

P1110134

 

Hvað er svo sumarlegra en ís? T.d. einfaldur döðlu og súkkulaðiís???

P1120141

 

Eplakökur eru svo æðislegar með ís og þessi er frábær.

2014-02-27 18.28.56