Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Hrásalat eða eitthvað svoleiðis

20161006_164257Þessi uppskrift er voða mikið slump. Ég rétt mundi að skrifa niður hlutföllin af sósunum. Þið verðið svo að finna sjálf hversu mikið grænmeti þið viljið hafa. Ef þið viljið hafa salatið blautt skerið þið aðeins minna grænmeti. Eða bætið við sósu og öfugt ef þið viljið ekki hafa það blautt.

Ég tengi hrásalat, það sem maður kaupir út í búð ber það nafn, við hvítkál og mayones. Þetta salat inniheldur bæði svo það minnti mig á hrásalat. Það er samt ekkert líkt svoleiðis salati eins, alla vega ekki eins og það sem ég hef keypt. Reyndar kaupi ég aldrei hrásalat því mér finnst það vont, það er önnur saga. Mér finnst heimagert hrásalat samt gott. Nóg um það.

Hrásalat eða eitthvað svoleiðis
Jöfn hlutföll af mayonesi og ab mjólk, c.a 2 msk hvort.
1 msk chili pesto
Nokkrir cm, kúrbítur og gúrka
Rauðkál (ferskt)
Hvítkál

Hrærið saman sósunum. Skerið grænmetið smátt, þá meina ég mjög smátt. Nema þið fílið að hafa grænmetið gróft skorið. Ég geri það ekki svo ég lagði mig sérstaklega fram við að skera það smátt.

Þetta salat var meðlæti með ofnbökuðum lax og passaði mjög vel. Það var mjög bleik máltíð. Salatið passar örugglega vel með öllu kjöti og fisk.

Chili pestóið keypti ég í Bónus, það lítur svona út. Það má nota einhverja aðra chili sósu og þá tómatsósu á móti eða bara rautt pestó ef maður vill ekki chilibragð.

20161006_164313

Fylltar paprikur og nóg af osti

Þetta er líklega nýjasta uppgötvunin okkar í eldhúsinu. Við vissum svo sem að fylltar paprikur væru góðar. Og að ostur væri góður. En þetta hafði nú samt ekki oft verið í matinn, jafnvel aldrei.

Punturinn er að fylltar paprikur eru góðar. Rosalega góðar. Galdurinn er að elda þær ekki of stutt. Hafið þær frekar lengur við lægri hita. Svo er gott að skella grillinu á undir lokinn ef maður vill fá stökkan topp. Ég er hrifin af því. Við borðum fylltar paprikur ýmis sem meðlæti eða sem aðalrétt, það fer bara eftir því hversu svöng við erum. Ég myndi samt ekki setja kjöt í paprikurnar ef ég ætlaði að hafa þær sem meðlæti. En það er minn smekkur.

p1140083

Fylltar paprikur

2 paprikur skornar í tvennt og fræhreinsaðar
Ostur í bitum, við vorum með nýja villijurtaostinn frá MS (hrikalega góður) og einhvern danskan mygluost úr Melabúðinni. Líka hrikalega góður. Þið notið þá osta sem þið viljið. Haloumi er hrikalega góður í svona
Blaðlaukur/vorlaukur
Pylsur/eldstafir (eldstafir eru kryddaðar litlar pylsur sem fást alls staðar núna)
Tómatar
Góð olía

Dreifið olíu yfir paprikurnar. Raðið ostbitum, tómötum og pylsum í helmingana. Setjið meiri ost yfir og loks blaðlaukssneiðar eða vorlauk. Bakið í c.a hálftíma við 180°C. Gott er að kveikja á grillinu síðustu 5-10 mínúturnar.

p1140086

Kalkúnahakkréttur

P1140058Ég er í sumarfríi og er súperlöt að elda. Ég er búin að baka rosalega mikið, eiginlega allt of mikið svona ef maður hugsar um hvað er hollt fyrir mig. Þó kökurnar séu að vísu oftast eitthvað ,,Sigurbjargaðar” þ.e. hollustaðar aðeins.

En ég kom mér þó í að elda þetta kalkúnahakk sem ég fann í frystinum. Síðan ég veit ekki hvenær. Mjög gott, einfalt og fljótlegt. Frekar sumarfrís og letivænt.

Kalkúnahakkréttur 

1 haus spergilkál
1 lítill blaðlaukur
1 pakki kalkúnahakk
1-2 tsk ítalskt krydd
1 tsk fennelkrydd

Ostasósa
1 dl kotasæla
1/2 dl rjómaostur
ítalskt krydd
Smá skvetta mjólk

Rifinn ostur

Mýkið blaðlauk og spergilkál á pönnu í smá olíu. Ég notaði allan spergilkálshausinn, líka stilkinn og skar eftir okkar stærðar smekk. Látið í grænmetið í eldfast mót. Steikið hakkið á pönnunni. Ég kryddaði hakkið með fennel og ítölsku kryddi sem inniheldur m.a hvítlauk, salt og sólþurrkaða tómata. Þið getið notað alls konar ítalskt krydd, þau eru í grunninn svipuð. Það er fennelinn sem skiptir aðalmáli hér. Hann er punkturinn yfir i -ið. Setjið hakkið í mótið yfir grænmetið. Maukið hráefnin í sósuna saman í matvinnsluvél. Þetta er ekkert rosalega mikil sósa, en hún dugði fannst mér. Einhverjir gætu viljað meiri sósu og þá er um að gera að tvöfalda þá uppskrift. Hellið sósunni yfir hakkið og rífið ost yfir. Notið ost sem ykkur finnst góður og magn eftir smekk. Bakið þar til osturinn fer að brúnast.

 

Döðluterta með karamellusósu – Sigurbjargarútgáfa

P1140028

Ég hugsa að flestir kannist við döðlutertu með karamellusósu. Þær eru frekar öruggt bakkelsi, mjög einfaldar og nánast allir elska þær.

Mig langaði í döðlutertu með karamellusósu en mig langaði ekki í hefðbundna. Mig langaði í svoleiðis köku sem ég mætti borða í morgunmat. Því eins og þið vitið vil ég helst af öllu allar kökur séu æðislegar á bragðið og nógu hollar til að borða í morgunmat.

Og þar sem ég er að segja ykkur frá uppskriftinni þá er alveg ljóst að hún heppnaðist mjög vel. Eiginlega allt of vel því hún hvarf mjög fljótt. Ég myndi hiklaust baka þessa köku fyrir afmæli eða kaffiboð, það mun enginn vita að hún sé eitthvað hollari en aðrar döðlutertur.

P1140021

Kakan

1/2 bolli döðlur – tvískipt
1/4 bolli súkkulaði
1 dl hveiti
1 dl eplasósa
1 egg
1 /2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
Láta 1/4 bolla af döðlum liggja í smá vatni yfir nótt. Eða sjóðið þær í smástund í smá vatni og látið kólna. Hrærið þar til döðlurnar verða að mauki eða maukið í matvinnsluvél. Blandið restinni af hráefnum saman við og hrærið þar til allt er blandað, ekki hræra of mikið. Bakið í 20 mínútur við 200°C í 18-20 cm formi.

Karamellusósa

1/4 bolli ferskar döðlur, eða þurrkaðar sem hafa legið í vatni eða verið soðnar.
1 msk kasjúsmjör, eða möndlusmjör. Ég þori ekki að ábyrgjast hvernig annað hnetusmjör kæmi út.
Karamellubragðefni ef þið viljið, karamelludropar eða karamellustevía. Ég var með karamellu torani sýróp. Mér finnst betra að vera með eitthvað auka karamellubragð, en það er smekksatriði.

Maukið allt saman í blandara/matvinnsluvél þar til allt er slétt og fínt. Hellið yfir kökuna þegar hún er orðin köld. Nema þið ætlið að borða hana heita.

P1140025