Gæsaborgarar

P1130870
Ég ætlaði nú ekki að tíma að nota heila gæs til að búa til hamborgara. En forvitnin tók yfirhöndina, líka praktíkin því mig vantaði frystipláss.

Villibráð er enn frekar mikil tilraunaeldamennska hjá mér. Ég kann ekki mikið á hana og veit ekki enn 100% hvað mér finnst best að gera. Allar gæsir sem voru veiddar í haust voru því frystar heilar. Það tekur talsvert frystipláss. Næst verður það ekki gert. Eins góðar og heilsteiktar gæsir eru þá er svo rosalega lítið kjöt sem fer til spillis ef læri, vængir og bringur eru teknar. Fyrir utan að það er betra að mínu mati að elda þetta í sitt hvoru lagi. Læri, leggir og vængir eru rosa góðir hægeldaðir, bringur aftur á móti betri lítið eldaðar eða grafnar.

Ég heyrði af gæsaborgurum frá vini okkar. Google gat ekki veitt mikinn innblástur svo ég ákvað að gera bara eins og ég geri venjulega hamborgara. Eins og mér finnst þeir bestir. Þ.e nánast ekki neitt. Mér finnst ostur besta bindiefnið í hamborgurum, ef maður vill hafa bindiefni á annað borð. Gæsakjöt er magurt svo það kemur bara feitur ostur til greina. Ég var með Búra ef ég man rétt og afgang af dönskum feitum brauðost, eitthvað hátt í 40% fitu.

Það fylgdi hakkavél hrærivélinni minni og ég notaði hana auðvitað til að hakka kjötið. Það er eflaust hægt að nota matvinnsluvél en það kemur örugglega öðruvísi út. Svo er trixið að blanda ekki of mikið svo borgararnir verði ekki of þéttir í sér. Þeir urðu sumir frekar þéttir hjá mér. Ástæðan var sú að osturinn var í of miklum klumpum og ég var að reyna að blanda þetta mátulega. Það gekk ekki nógu vel svo lærið af mínum mistökum. Passið að osturinn sé nægilega laus í sundur áður en þið hrærið hann saman við hakkið. OG hrærið ostinum og hakkinu varlega saman, borgararnir eru betri ef þeir eru ekki mjög þéttir.

Gæsaborgarar

1 kg gæsahakk
300 g rifinn feitur ostur

Blandið varlega saman og mótið hamborgara eftir ykkar stærðarsmekk. Það urður 9 borgarar úr þessu hjá mér. Ekkert sérlega stórir en okkur fannst það mátulegt. Maður borðar þá bara fleiri. Ég grillaði borgarana svo í ofni á plötu, c.a 4 mínútur á hvorri hlið. Ég tók einn út og skar til að skoða hvort hann væri tilbúinn, ég mæli með að gera það ef þið eruð ekki viss.

P1130865

Þið takið eftir að ég krydda borgarana ekki neitt. Kjötið er bragðmikið og svo gefur osturinn bragð. Ég ákvað að láta það duga og svo myndum við hafa það bragð sem okkur langaði af meðlætinu.

Við vorum svo með gróf hamborgarabrauð, sultaðan rauðlauk, sinnepssósu, tómata og klettasalat á borgurunum sjálfum. Með voru sætkartöflufranskar og bláberjasultu. Þetta var veislumatur á miðvikudegi.

P1130869

Leave a comment