Djúpsteikingarpartý

Djúpsteikingarpartý?

Ef þið borðið djúpsteiktan mat á annað borð. Þá get ég ekki annað en mælt með þessu.

Himneskt.

Ég mæli líka með að allir í partýinu séu átvögl og ekki matvandir. Opinn hugur og hugmyndaflug er svo punkturinn yfir i-ið. Við djúpsteiktum 13 rétti.  Já 13. Það tók c.a 4 klst.

Ég tók bara myndir á símann og þær eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem slóu í gegn.

Flest sem við gerðum var einfalt og fljótlegt. Annað var hvorki sérlega einfalt né sérlega fljótlegt. En ég þetta var allt þess virði. Hvers bita, hver kaloría…….

Það borgar sig oftast, nánast alltaf að setja það sem maður djúpsteikir í eitthvað deig áður en það fer í pottinn. Við vorum með sætt deig fyrir eftirrétti, bjórdeig og svo egg og panko rasp. Bjórdeigið var bara 50/50 bjór og hveiti, hrært saman. Sæta deigið var deigið sem við notuðum hér.

Fyrst langar mig að segja ykkur frá djúpsteiktum eggjum og beikoni. Ég get lofað því að þetta verður gert aftur. Jafnvel oft. Þetta leit svo hræðilega út á mynd að ég átti mjög erfitt með að ákveða hvort ég ætti að hafa hana, en ok, hér er hún:

20170211_192825

Trúið mér, þetta er geggjað.

Sjóðið egg
Vefið þau með beikoni
Veltið upp úr hveiti
Dýfið í bjórdeig
Djúpsteikið við 170°C þar til deigið er farið að gyllast
Borðið strax, chili mayones eða bara venjulegt mayones passar mjög vel með.

Þetta var réttur nr. 2. Á þessum tímapunkti vorum við að spá í að sleppa öllu öðru og borða bara egg, þau voru geðveikt. En það var svo margt spennandi framundan svo það varð úr að við myndum fá okkur fleiri egg ef það yrði pláss eftir allt hitt. Sem það var svo alls ekki.

Næsta sem mig langar að segja frá er djúpsteiktur lax. Þegar við ákváðum að vera með djúpsteiktan lax leitaði ég á netinu að innblástri. Það varð fljótt ljóst að þetta er afar óalgengt og ef ég sagði fólki frá þessari hugmynd fékk ég mjög oft neikvæð viðbrögð.

En fólk. Djúpsteiktur lax kom verulega á óvart. Hann var fullkominn. Við vorum með steikur sem við skárum í bita. Mér fannst það henta betur því sneiðarnar eru yfirleitt þykkari en flök.

Lax í bitum, kryddið eftir smekk. Við notuðum fiskikrydd frá Santa Maria
Veltið upp úr hveiti
Svo pískuðu eggi
Svo panko raspi
Endurtakið

Djúpsteikið við 170°C þar til raspurinn hefur tekið smá lit. Alls alls alls ekki lengi 2-4 mín eftir stærð bitana. Okkar voru litlir.

Þriðji rétturinn sem ég ætla að segja ykkur frá er djúpsteikt nautalund. Já ójá. Sko, það er akkúrat ekkert út á þessa lund að setja. En við vorum öll sammála um að djúpsteiking gerði minnst fyrir lundina af öllu því sem við borðuðum. Hún var fullkomin, en við myndum almennt ekkert hafa fyrir því að djúpsteikja nautalund, nema við værum að halda djúpsteikingarpartý. Þar sem ég geri ráð fyrir að einhverjum langi samt að prófa þá var þetta gert svona:

Skerið nautalund í bita, c.a 3*4 cm á breidd og lengd. S.s. ekki stóra bita.
Saltið og piprið.
Veltið úr hveiti
Bjórdeigi
Panko rasp
Djúpsteikið í c.a 4 mín
Hvílið í smástund
Bernais sósa!!!
20170211_201701
Við vorum með þýska nautalund úr Bónus. Ég hafði heyrt að hún væri góð og hún er það. Hræbilleg líka. Mæli 100% með henni. Við notuðum auðvitað ekki heila lund, þær eru c.a ,5 kg. Ég sagaði hana í sundur og lét hluta þiðna. Restin er svo bara í frysti þar til næst.
Rúsínan í pylsuendanum. Rjóminn af rjómanum. Punkturinn yfir i-ið. Það besta.

Djúpsteiktur ís í smákökudeigi.

20170211_220900

Ég fékk þessa hugmyndi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tilefninu. Núna langar mig alltaf að eiga svona dásemd tilbúna í frysti og steikja einn og einn. Það er alveg hægt ef maður notar bara minni pott. Ég gæti alveg átt eftir að framkvæma það, þetta verður sko gert aftur. Þetta er svo mikið minn smekkur.

Í raun er þetta einfalt, en tekur smá tíma í undirbúning. Fyrst þarf að búa til smákökudeig og kæla það vel, helst í sólarhring. Ég notaði þetta deig, það hentaði mjög vel, ég vissi það og tók enga sénsa, en ég held samt að flest stíft smákökudeig henti vel.

Svo þarf að búa til ísskúlur. Ég var með vanillu mjúkís, bjó til kúlur með ísskeið og lét þær standa á bakka í frysti, ísinn verður harðari þannig.

Ég lét ískúlurnar vera í frysti í sólarhring, það þarf ekki svo langan tíma, en a.m.k nokkra klukkutíma. Svo tók ég smákökudeigið úr ísskápnum, skipti í jafn marga hluta og ískúlur. Flatti hvern hluta út. Tók eina ískúlu í einu úr frysti, það er mikilvægt því þær bráðna um leið og þá fer allt í klessu. Setti kúluna á deigið og vafði því utan um. Reyndi að hafa hvergi göt. Velti kúlunum í höndunum eins og ég væri að búa til snjóbolta. Ekki lengi svo ekkert bráðni.

Setti allt í frysti aftur. Í smá tíma, klukkutími er líklega nóg. Dýfði í sæta djúpsteikingardeigið og frysti aftur.

Djúpsteikti við 170°C í c.a mínútu. Ég velti fyrir mér að setja aðra umferð af djúpsteikingardeigi, þá hefði ég getað haft þetta aðeins lengur í pottinum og smákökudeigið hefði bakast aðeins meira. Þess þurfti ekki, en það er pæling. Svona var deigið hálfbakað og ísinn enn ís, flæddi ekki út um allt. Geðsjúkt. Hrikalega gott. Hefði ekki getað verið betra nema með heitri súkkulaðisósu.

20170211_220910

Bóndadagsborgarar á ostavöfflum

p1140107

Á bóndadaginn voru þessir hamborgarar í matinn. Borgararnir sjálfir eru einfaldir og þægilegir. Svo er hægt að leika sér með meðlætið og áleggið eins og manni sýnist. Ég er hrifin af stefnunni ,,því meira því betra” þegar kemur að hamborgarasamsetningum. Mínir heimagerðu borgarar eru yfirleitt með a.m.k tveimur gerðum af sósum og c.a 5 tegundum af grænmeti og osti. Þetta var engin undantekning.

Hamborgarar
500 g hakk
1 tsk sætt sinnep
1 tsk sterkt sinnep
2 msk bráðið smjör
Svartur pipar

Hrærið öllu saman og mótið borgara. Ég hafði þá 5. Steikið á pönnu eða bakið í ofni. Við viljum hafa okkar borgara meðalsteikta og þar af leiðandi smá rauða í miðjunni. Við notuðum þessar æðislegu vöfflur sem brauð.

Eggja- og ostavöfflur 3-4 stykki
3 eggjahvítur
1 egg
50 g ostur
1 tsk husk
Smá xanthan gum (má sleppa en deigið verður þægilegra)

Setjið öll hráefni í matvinnsluvél og maukið vel. Bakið í vöfflujárni við meðalhita. Passið að smyrja járnið vel. Ég bakaði vöfflurnar þar til þær urðu stökkar. Eins og sést líta þær nokkurn vegin út eins og hefðbundnar vöfflur, bragðið er auðvitað öðruvísi út af ostinum og það er hægt að leika sér með bragðið með því að nota mismunandi bragðsterkan ost. Okkur fannst þær æðislegar sem hamborgara,,brauð”.

p1140103

Annað álegg á borgarana var í þetta skipti, steiktur camembert (NAMM), hamborgarasósa, bernaisesósa, salat og steiktir sveppir.

Rommkúluís

p1140108Mamma ætti að fá fálkaorðuna fyrir að láta sér detta í hug að gera rommkúluís núna um jólin.

Svo góður er þessi ís. Ég hef ekki hætt að hugsa um hann síðan á jóladag og á bóndadaginn bjó ég hann til. Með piparmyntusúkkulaðisósu því bóndinn elskar hana. Ég vissi að hann væri líka hrifinn af rommkúluísnum, sem betur fer, mig vantaði sárlega tilefni til að gera hann.

Ég held þetta verði uppáhalds ísinn minn héðan í frá og það þurfi að gera hann við öll hátíðleg tilefni. Fyrst hugsaði ég að ég myndi bara vilja búa til rommkúluís héðan í frá, en sumt á maður bara að borða á hátíðum, svo það haldist hátíðlegt. Kannski ég haldi þessum ís þar. Kannski. Það þarf varla að taka fram að þessi ís er bara fyrir ykkur ef þið fílið rommkúlur. Sem ég geri augljóslega.

Rommkúluís
Grunnuppskrift að ís sjá hér. Ég notaði rjóma í þetta skiptið en ekki kaffirjóma. Og auðvitað ekki tyrkis pebber eða súkkulaði heldur bara:
Fullt af rommkúlum, heill stór pakki í eina uppskrift. Saxaðar, hver kúla í c.a 3-4 bita. Nú eða eftir smekk.

Hrærið rommkúlunum út í ísinn áður en hann fer í frysti eða er borinn fram. Fer eftir því hvort þið notið ísvél eða ekki. Alls ekki spara rommkúlurnar, alls alls ekki.

Piparmyntusósan var ofur einföld. Einfaldlega pipp með piparmyntu (heitir víst pralín með piparmyntu núna) og smá rjómi brætt saman.

p1140110

Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Saltað bláberjaostakökukonfekt með myndum og tvær aðrar hugmyndir

p1140095Jólin, jólin.

Ég er á fullu að búa til konfektjólagjafir ársins. Í ár eru alla vega þrjár nýjar sortir sem ég hef ekki gert áður. Tvær af þeim eru að vísu svo einfaldar að ég var ekkert að hafa fyrir því að skrifa þær uppskriftir fyrir bloggið og taka myndir. Áður en ég segi frá bláberjauppskriftinni skal ég þó segja ykkur frá hinum því þær eru einfaldar og fljótlegar.

Það má reyndar deila um hversu fljótlegar þær eru, það fer eftir þolinmæðisstuðli hvers og eins.

Ég fékk gefins slatta af núggati frá vinnufélaga sem ekki notar núggat og það var tilvalið að nota það í konfekt. Ég einfaldlega mýkti það aðeins í örbylgjuofni svo það var auðvelt að hræra í því, ekki þannig það væri fljótandi samt. Bætti svo út í það salthnetum, döðlum og trönuberjum og kældi þar til það var auðvelt að móta kúlur. Ég kældi svo eða frysti kúlurnar og hjúpaði með súkkulaði. Einfalt og fljótlegt, þ.e fyrir utan að búa til kúlur, kæla þær og hjúpa. Það er mikilvægt að kúlurnar séu nógu kaldar áður en maður reynir að hjúpa því annars bráðnar núggatið út í hjúpinn og allt verður subbulegt og ómögulegt.

Hitt var uppskrift sem ég sá í einhverju blaði um daginn. Súkkulaði fyllt með sítrónusmjöri (lemon curd). Það er eins einfalt og það hljómar. Bræða súkkulaði, setja í mót, kæla, fylla með sítrónusmjöri og loka með meira súkkulaði. Ég á mjög léleg konfektmót svo aðalveseið hjá mér var að ná molunum óbrotnum úr mótunum. Það gekk ekki alltaf svo ég var að fylla í sárin eftirá með bræddu súkkulaði. Þessir molar eru s.s.  langt frá því fallegir.

En uppskriftastjarna dagsins. Saltað bláberjaostakökukonfekt!

Þessir molar eru líka langt því frá fallegir og geta örugglega ekki verið það nema þið eigið góð konfektmót. Ég mæli með því að steypa þá í mót ef þið eigið góð og djúp mót, þetta er örugglega mun viðráðanlegra þannig.

Þó molarnir séu útlitslega mislukkaðir að mínu mati þá eru þeir svo góðir að ég ákvað að ég gæti ekki haldið uppskriftinni fyrir mig.

Mig langaði að blanda saman í kúlu bláberjum, tyrkis pebber og súkkulaði. Helst í einhverju ljósu degi svo berin og piparinn myndi njóta sín. Ég var að hugsa um smákökudeig en fannst það ekki nógu skemmtileg tilhugsun, og komst einhvernvegin ekki að neinni niðurstöðu. Og hvað gerir maður þá? Ég alla vega tala alltaf við Heiðu sambloggara og kjánabangsa, það er sama hvaða furðulegheit ég er með í huga og vantar aðstoð við, hún kemur alltaf með frábæra hugmynd sem yfirleitt leysir málið. Hún ætti að opna einhverja þjónustu, viðskiptahugmynd Heiða….

Alla vega. Heiða sagði, hvað með ostaköku? Þar með var það komið. Snillingur þessi elska.

200 g rjómaostur við stofuhita
150-200 g flórsykur
c.a 3/4 dl tyrkis pebber, mældur fyrir mölun
1- 1/2 dl frosin bláber, ég hef ekki prófað fersk og veit ekki hvað gerist.
Dökkur súkkulaðihjúpur. Ég prófaði fyrst að nota suðusúkkulaði en það var of afgerandi á bragðið fannst mér, svo persónulega mæli ég með hjúpsúkkulaðinu.

Þeytið saman rjómaost og flórsykur, myljið brjóstsykurinn og blandið saman við. Svo bláberjunum. Blandið berjunum varlega saman við svo deigið verði ekki blátt. Þ.e þau eiga ekki að springa. Frystið þar til deigið er viðráðanlegt til kúlugerðar. Það tók nokkra klukkutíma hjá mér. Ég hugsa það sé jafnvel gott að geyma það yfir nótt. Mótið kúlur og frystið aftur þar til þær eru orðnar vel stífar. Ég mæli með að frysta kúlurnar á fleiri en einum bakka/disk/plötu, þær bráðna mjög hratt og ég var í miklum vandræðum með sumar. Þess vegna lítur þetta svona út. Þegar kúlurnar eru frosnar eru þær hjúpaðar með hjúpsúkkulaði. Ég hjúpaði sumar tvisvar því fyllingin var að ,,kíkja út”.