Djúpsteikingarpartý

Djúpsteikingarpartý?

Ef þið borðið djúpsteiktan mat á annað borð. Þá get ég ekki annað en mælt með þessu.

Himneskt.

Ég mæli líka með að allir í partýinu séu átvögl og ekki matvandir. Opinn hugur og hugmyndaflug er svo punkturinn yfir i-ið. Við djúpsteiktum 13 rétti.  Já 13. Það tók c.a 4 klst.

Ég tók bara myndir á símann og þær eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem slóu í gegn.

Flest sem við gerðum var einfalt og fljótlegt. Annað var hvorki sérlega einfalt né sérlega fljótlegt. En ég þetta var allt þess virði. Hvers bita, hver kaloría…….

Það borgar sig oftast, nánast alltaf að setja það sem maður djúpsteikir í eitthvað deig áður en það fer í pottinn. Við vorum með sætt deig fyrir eftirrétti, bjórdeig og svo egg og panko rasp. Bjórdeigið var bara 50/50 bjór og hveiti, hrært saman. Sæta deigið var deigið sem við notuðum hér.

Fyrst langar mig að segja ykkur frá djúpsteiktum eggjum og beikoni. Ég get lofað því að þetta verður gert aftur. Jafnvel oft. Þetta leit svo hræðilega út á mynd að ég átti mjög erfitt með að ákveða hvort ég ætti að hafa hana, en ok, hér er hún:

20170211_192825

Trúið mér, þetta er geggjað.

Sjóðið egg
Vefið þau með beikoni
Veltið upp úr hveiti
Dýfið í bjórdeig
Djúpsteikið við 170°C þar til deigið er farið að gyllast
Borðið strax, chili mayones eða bara venjulegt mayones passar mjög vel með.

Þetta var réttur nr. 2. Á þessum tímapunkti vorum við að spá í að sleppa öllu öðru og borða bara egg, þau voru geðveikt. En það var svo margt spennandi framundan svo það varð úr að við myndum fá okkur fleiri egg ef það yrði pláss eftir allt hitt. Sem það var svo alls ekki.

Næsta sem mig langar að segja frá er djúpsteiktur lax. Þegar við ákváðum að vera með djúpsteiktan lax leitaði ég á netinu að innblástri. Það varð fljótt ljóst að þetta er afar óalgengt og ef ég sagði fólki frá þessari hugmynd fékk ég mjög oft neikvæð viðbrögð.

En fólk. Djúpsteiktur lax kom verulega á óvart. Hann var fullkominn. Við vorum með steikur sem við skárum í bita. Mér fannst það henta betur því sneiðarnar eru yfirleitt þykkari en flök.

Lax í bitum, kryddið eftir smekk. Við notuðum fiskikrydd frá Santa Maria
Veltið upp úr hveiti
Svo pískuðu eggi
Svo panko raspi
Endurtakið

Djúpsteikið við 170°C þar til raspurinn hefur tekið smá lit. Alls alls alls ekki lengi 2-4 mín eftir stærð bitana. Okkar voru litlir.

Þriðji rétturinn sem ég ætla að segja ykkur frá er djúpsteikt nautalund. Já ójá. Sko, það er akkúrat ekkert út á þessa lund að setja. En við vorum öll sammála um að djúpsteiking gerði minnst fyrir lundina af öllu því sem við borðuðum. Hún var fullkomin, en við myndum almennt ekkert hafa fyrir því að djúpsteikja nautalund, nema við værum að halda djúpsteikingarpartý. Þar sem ég geri ráð fyrir að einhverjum langi samt að prófa þá var þetta gert svona:

Skerið nautalund í bita, c.a 3*4 cm á breidd og lengd. S.s. ekki stóra bita.
Saltið og piprið.
Veltið úr hveiti
Bjórdeigi
Panko rasp
Djúpsteikið í c.a 4 mín
Hvílið í smástund
Bernais sósa!!!
20170211_201701
Við vorum með þýska nautalund úr Bónus. Ég hafði heyrt að hún væri góð og hún er það. Hræbilleg líka. Mæli 100% með henni. Við notuðum auðvitað ekki heila lund, þær eru c.a ,5 kg. Ég sagaði hana í sundur og lét hluta þiðna. Restin er svo bara í frysti þar til næst.
Rúsínan í pylsuendanum. Rjóminn af rjómanum. Punkturinn yfir i-ið. Það besta.

Djúpsteiktur ís í smákökudeigi.

20170211_220900

Ég fékk þessa hugmyndi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tilefninu. Núna langar mig alltaf að eiga svona dásemd tilbúna í frysti og steikja einn og einn. Það er alveg hægt ef maður notar bara minni pott. Ég gæti alveg átt eftir að framkvæma það, þetta verður sko gert aftur. Þetta er svo mikið minn smekkur.

Í raun er þetta einfalt, en tekur smá tíma í undirbúning. Fyrst þarf að búa til smákökudeig og kæla það vel, helst í sólarhring. Ég notaði þetta deig, það hentaði mjög vel, ég vissi það og tók enga sénsa, en ég held samt að flest stíft smákökudeig henti vel.

Svo þarf að búa til ísskúlur. Ég var með vanillu mjúkís, bjó til kúlur með ísskeið og lét þær standa á bakka í frysti, ísinn verður harðari þannig.

Ég lét ískúlurnar vera í frysti í sólarhring, það þarf ekki svo langan tíma, en a.m.k nokkra klukkutíma. Svo tók ég smákökudeigið úr ísskápnum, skipti í jafn marga hluta og ískúlur. Flatti hvern hluta út. Tók eina ískúlu í einu úr frysti, það er mikilvægt því þær bráðna um leið og þá fer allt í klessu. Setti kúluna á deigið og vafði því utan um. Reyndi að hafa hvergi göt. Velti kúlunum í höndunum eins og ég væri að búa til snjóbolta. Ekki lengi svo ekkert bráðni.

Setti allt í frysti aftur. Í smá tíma, klukkutími er líklega nóg. Dýfði í sæta djúpsteikingardeigið og frysti aftur.

Djúpsteikti við 170°C í c.a mínútu. Ég velti fyrir mér að setja aðra umferð af djúpsteikingardeigi, þá hefði ég getað haft þetta aðeins lengur í pottinum og smákökudeigið hefði bakast aðeins meira. Þess þurfti ekki, en það er pæling. Svona var deigið hálfbakað og ísinn enn ís, flæddi ekki út um allt. Geðsjúkt. Hrikalega gott. Hefði ekki getað verið betra nema með heitri súkkulaðisósu.

20170211_220910

Bóndadagsborgarar á ostavöfflum

p1140107

Á bóndadaginn voru þessir hamborgarar í matinn. Borgararnir sjálfir eru einfaldir og þægilegir. Svo er hægt að leika sér með meðlætið og áleggið eins og manni sýnist. Ég er hrifin af stefnunni ,,því meira því betra” þegar kemur að hamborgarasamsetningum. Mínir heimagerðu borgarar eru yfirleitt með a.m.k tveimur gerðum af sósum og c.a 5 tegundum af grænmeti og osti. Þetta var engin undantekning.

Hamborgarar
500 g hakk
1 tsk sætt sinnep
1 tsk sterkt sinnep
2 msk bráðið smjör
Svartur pipar

Hrærið öllu saman og mótið borgara. Ég hafði þá 5. Steikið á pönnu eða bakið í ofni. Við viljum hafa okkar borgara meðalsteikta og þar af leiðandi smá rauða í miðjunni. Við notuðum þessar æðislegu vöfflur sem brauð.

Eggja- og ostavöfflur 3-4 stykki
3 eggjahvítur
1 egg
50 g ostur
1 tsk husk
Smá xanthan gum (má sleppa en deigið verður þægilegra)

Setjið öll hráefni í matvinnsluvél og maukið vel. Bakið í vöfflujárni við meðalhita. Passið að smyrja járnið vel. Ég bakaði vöfflurnar þar til þær urðu stökkar. Eins og sést líta þær nokkurn vegin út eins og hefðbundnar vöfflur, bragðið er auðvitað öðruvísi út af ostinum og það er hægt að leika sér með bragðið með því að nota mismunandi bragðsterkan ost. Okkur fannst þær æðislegar sem hamborgara,,brauð”.

p1140103

Annað álegg á borgarana var í þetta skipti, steiktur camembert (NAMM), hamborgarasósa, bernaisesósa, salat og steiktir sveppir.

Rifið hreindýrakjöt

p1140063

Nú fer ég að verða búin að prófa að rífa allt kjöt. Eða svona það algengasta. Því hreindýrakjöt er svo algengt…… Það er alla vega mjög mikið til af því á mínu heimili og mann langar ekki alltaf að gera það sama við það.

Ég elska rifið kjöt svona almennt og átti þessa klumpsteik eftir sem ég hugsaði að væri fín í svona. Hún virtist frekar gróf og þannig kjöt er fínt í langeldun. Ég vildi ekki nota bbq krydd því þá yrði þetta alveg eins og rifið naut eða lamb. Ég vildi heldur að villibráðarbragðið kæmi eitthvað í gegn.

Það mistókst. Þrátt fyrir að ég notaði ekki nein bbqsósuleg krydd. En kjötið varð samt mjög gott. Svo þetta verður alls ekki flokkað sem misheppnuð tilraun.

Myndirnar líta nánast nákvæmlega eins út og þegar ég setti síðast inn uppskrift af rifnu kjöti. Meðlætið var líka nánast það sama. Bragðið var það ekki, það er víst það sem skiptir máli.

Athugið að taka ykkur góðan tíma í eldamennskuna. Ég eldaði kjötið í 5 tíma og það var mátulegt.

Rifið hreindýrakjöt
800 g hreindýraklumpur
1 tsk marjoam
1 tsk salvía
1/2 tsk fennel
1 laukur
1/2 dl rauðvínsedik
50 g smjör
1 dl vatn + meira eftir þörfum
2 dl bláber
50 g smjör

Blandið öllum kryddum saman og dreifið yfir kjötið. Setjið í eldfast mót ásamt vatni, bláberjum og ediki. Skerið smjörið í bita og dreifið yfir kjötið. Lokið forminu, eða setjið álpappír yfir. Bakið við 160°C í 5 tíma. Athugið kjötið reglulega og bætið við vatni ef þörf er á. Ef lokið á forminu er ekki mjög þétt þarf að fylgjast betur með kjötinu svo það verði ekki þurrt. Þegar kjötið er tilbúið er það rifið, mér finnst best að gera það með tveimur göfflum, þ.e stinga þeim í kjötið og tosa í sitt hvora áttina. Minnsta mál.

p1140060

Kjötið er gott með öllu sem rifið kjöt er almennt gott með. Brauði, sósum og meðlæti. Við vorum með brauð, góðan ost og salat.

Tætt svínakjöt með rabbabarabbq sósu

Það greip um sig einhverskonar áttryllingur þegar maturinn var tilbúinn. Það er búið að vera á dagskránni lengi að gera tætt svínakjöt, við erum miklir aðdáendur og þetta er nú ekki flókið, þó tímafrekt sé. Svo er ég að troða rabbabara í allt og úr því varð:

P1140020

Og fólk, þetta er geggjað. Við vorum farin að tala um jólin og áramótin og morgunmat og að borða ekkert annað. Líklega fer það nú ekki svo, en það lýsir stemmningunni ágætlega.

Eldunin tekur 5 tíma. Ég myndi ekki gera ráð fyrir styttri, ekki fara að hækka hitan á ofninum til að stytta ykkur leið, ég hugsa það borgi sig ekki. En kosturinn við þetta er að þið þurfið bara að setja kjötið í ofn og fara svo og gera eitthvað annað, það þarf lítið að pæla í þessu á meðan. A.m.k ekki ef þið eruð með jafn mátulega stórt eldfast mót og ég. Sósan flóði yfir kjötið allan tíman svo ég þurfti ekki að spá í að ausa henni yfir. Það er það eina sem þið þurfið að hugsa um þessa fimm tíma. Og svo meðlæti ef þið ætlið ekki að borða kjötið eintómt.

Rabbabari passar alveg rosalega vel í þessari uppskrift. Hann gaf smá súrt bragð með sætu sósunni. Geggjað.

Ég nota svínabóg, það er ódýrt og mjög gott kjöt. Stundum kaupum við heilan bóg og skerum í smærri stykki til að frysta. Þetta var svoleiðis stykki sem var 1 kg með fitunni. Ég eldaði fituna með í klukkutíma og skar hana svo af. Þá var komin alveg nóg fita í sósuna fyrir okkar smekk. En ástæðan var líka að ég á ekki nógu góða hnífa til að ráða við þessa fitu hráa og ég hreinlega nennti ekki að berjast við hana óeldaða. Ég mæli samt með að vera ekki með alveg fitulaust kjöt, nema það sé ykkar smekku auðvitað.

Í uppskriftinni er liquid smoke. Ég veit það fæst ekki alls staðar en núorðið held ég þetta fáist í flestum Hagkaupsverslunum og Kosti. Ef þið fáið ekki liquid smoke getið þið sleppt honum alveg þó sósan verði pottþétt öðruvísi. Ég hef ekki prófað en ef ég ætlaði að bjarga mér án smoke myndi ég prófa að setja bragðsterka bbq sósu, eða worchestershire sósu og papriku. Reykt paprika gæti líka hjálpað til. Annars mæli ég mest með því að kaupa liquid smoke, þetta er frábært hráefni.

Tætt svínakjöt með rabbabarabbq sósu

1 kg svínabógur
1 lítill laukur
2 cm engifer
1 tsk liquid smoke
2 msk púðursykur
500 ml eplasafi
2 msk tómatkraftur
2 tsk salt
1 tsk pipar
150 g rabbabari

Skerið lauk og engifer smátt. Mýkið í olíu í potti. Bætið smoke, sykri, safa, krafti og kryddum saman við og sjóðið í c.a hálftíma. Ég lét kjötið standa í sósunni yfir nótt. En þess þarf ekki. Hellið sósunni yfir kjötið og lokið mótinu, ég var með eldfast mót með loki, álpappír dugar örugglega. Bakið við 160°C í 5 tíma. Setjið rabbabaran í mótið þegar kjötið fer í ofninn. Ef sósan flæðir ekki yfir skulu þið ausa kjötið á c.a klukkutíma fresti og snúa því.

P1140013

P1140015

Eftir fimm tíma ætti kjötið að losna mjög auðveldlega í sundur. Takið tvo gaffla og tosið kjötið í sundur. Berið það svo fram með því sem ykkur langar. Margir vilja örugglega hamborgarabrauð. Við erum ekki fyrir brauð og notuðum bakaðar sætar kartöflur sem voru smurðar með hunangi fyrir bakstur.

P1140017

Ég smurði svo kartöflurnar með mayonesi. Svo kom klettasalat (röðin skipti máli). Svo kjöt, næst blár höfðingi (vel þroskaður) og að lokum sultaður laukur. Himneskt, ekkert annað!

P1140018

 

Hreindýraskankar undir afrískum áhrifum

P1130966Það sem ég var búin að hlakka til að elda þessa hreindýraskanka. Ég alveg iðaði í skinninu. Er vandræðalegt að vera svona spenntur fyrir því að elda eitthvað? Ég get sagt ykkur að það er ekki eins vandræðalegt og að eiga háalvarlegar samræður um mismunandi tegundur af sinnepi og bbq sósu í Hagkaup á laugardagskvöldi. Hver gerir það? *hóst* Kannski einhver sem á 6 tegundir af sinnepi?

Hér er hins vegar ekkert sinnep og þessi uppskrift tekur langan tíma í eldun, en eldar sig í raun sjálf. Passið að hafa bara nógan tíma, helst byrja daginn áður og láta réttinn malla lengi lengi. Þetta voru líklega um 5 tímar hjá mér. Hreindýraskankar þurfa greinilega lengri tíma en lambaskankar, það er örugglega gott að nota sömu uppskrift og lambaskanka og þá komist þið upp með styttri tíma. Ég giska á 2-3 tíma miðað við mína reynslu af lambaskönkum, en með þeim fyrirvara að akkúrat þessa uppskrift hef ég bara prófað með hreindýrakjöti.

Það sem ég vissi að ég vildi þegar ég byrjaði að elda var að skankarnir ættu að verða alveg lausir frá beinunum og það ættu að vera döðlur og apríkósur í réttinum. Og helst ferskt kóríander. Þetta endaði svona og var algjört nammi.

Myndirnar tókust ekki nógu vel. Hér er ein ljót og eiginlega ekki í fókus sem sýnir samt c.a hvernig kjötið leit út.

P1130969

Hreindýraskankar undir afrískum áhrifum

2 hreindýraskankar, þetta eru stórir skankar, ég giska á að sambærilegt magn lambaskanka séu c.a 4 skankar.
1 saxaður laukur
2-4 skornar gulrætur, eftir stæð
1 tsk kóríanderfræ
1 tsk kúminfræ
2 hvítlauksif
500 ml villisoð, sterkt
150 g sellerírót
1 mandarína
1 dl saxaðar döðlur
1 dl saxaðar apríkósur
1 msk rauðvínsedik
1/2 dl portvín/rauðvín eða meira rauðvínsedik

Brúnið skankanana í potti upp úr smjöri. Takið úr pottinum og geymið. Saxið lauk, gulrætur, sellerírót og hvítlauk. Steikið ásamt kryddum þar til laukurinn er orðinn glær. Setjið kjötið aftur út í pottinn og hellið villisoði yfir. Ég notaði oskar kraft, c.a 1 1/2 msk út í 500 ml vatn. Bætið víni og ediki út í. Sjóðið í 3-4 tíma við lágan hita. Skerið mandarínuna í tvennt (má líka vera appelsína) kreistið safan úr og rífið kjötið innan úr og setjið út í. Setjið börkinn líka út í, bara í heilu lagi, takið hann svo úr þegar þið berið réttinn fram. Þegar 1-2 tímar eru eftir af suðu skulu þið saxa apríkósur og döðlur og bæta út í pottinn.

Berið fram með t.d. kús kús, fersku salati, fersku kóríander (punkturinn yfir -ið ef þið fílið kóríander), fetaosti og lime bátum.