Eplasmjör

Ég kynntist eplasmjöri, eða apple butter, í fyrsta skipti þegar ég bjó í Georgíu í Suðurríkjunum. Það var skemmtilega öðruvísi en aðrar sultur sem ég hef kynnst, kryddað og gott. Á meðan mér fannst það ágætt þá tók fjölskyldan mín alvarlegu ástfóstri við það svo ég hef verið að gera eplasmjör í nokkur ár og deila út á meðal fjölskyldumeðlima þegar farið er að ganga á birgðirnar hjá þeim. Ég vona að þið njótið þessarar uppskriftar jafn mikið og við höfum gert!

Ég er að birta þessa uppskrift núna í október 2020 því að hún Sigurbjörg var að biðja mig um hana. Ég byrjaði að skrifa hana niður í maí 2015 en setti aldrei inn myndir af einhverri ástæðu og uppskriftin beið bara eftir að ég mundi klára hana. Þetta er æðisleg uppskrift, ég skil ekkert í mér að hafa ekki birt hana strax. Ég bjó hana upprunalega til sem samsuðu úr mörgum uppskriftum og aðlagaði hana að því að vera gerð á hellu en í Suðurríkjunum voru flestar uppskriftirnar fyrir slow cooker. Ég átti ekki slíkan og á enn ekki svo að ég geri mitt eplasmjör alltaf á hellu. Að auki vil ég taka fram að ég veit myndirnar eru ekki þær allra bestu, ég biðst forláts.

Eplasmjör

~2 kg Jónagold epli
6 dl vatn
1 1/4 dl edik

Skerðu eplin í grófa bita með hýði og fræjum og settu í pott með vökvunum. Eplin skaltu sjóða þangað til þau maukast auðveldlega, ég sauð þau í uþb. klukkutíma. Næst þarftu að kremja þau í gegnum sigti til að þú endir uppi með eplamauk. Þetta er frekar tímafrekt og þreytandi, taktu þér bara pásur eða fáðu einhvern með þér í þetta. Ég fékk hjálparkokk til að hjálpa mér síðustu mínúturnar. Þær eru erfiðastar því þú vilt nefnilega fá því sem næst allt eplakjötið, svo að maukið verði ekki bara lapþunnt eins og í byrjun.
Á móti hverjum 2 hlutum af eplamauki fer 1 hlutur af sykri. Uppskriftin er miðuð út frá því að þú sitjir uppi með uþb. 2 lítra af eplamauki. Ég mundi ekki setja mikið meira af eplamaukinu en það án þess að auka aðeins við kryddin í leiðinni.

~2 l eplamauk
~1 l sykur
2 teskeiðar kanill
1/2 teskeið negull
smá múskat
smá salt
börkur og safi úr hálfri sítrónu

Hræra öllu saman í góðum potti og láta suðuna koma upp. Hrærðu reglulega og leyfðu eplasmjörinu að sjóða í uþb. 2 tíma. Prófaðu þykktina með því að setja örlítið af eplasmjöri í botninn á lítilli skál og inn í ísskáp í smá stund. Þegar þér líkar þykktin þá seturu smjörið í krukkur. Ég er svo hégómafull með sulturnar mínar að ég setti smá rauðan matarlit út í hana undir lokin, eins og amma mín gerði alltaf með rabbabarasultuna sína. Ég fékk síðast 6 krukkur af eplasmjöri út úr þessu. Smjörið er gott á allt sem sultur eru góðar á, vöfflur, pönnukökur, hjónabandsælur, í mútur, með ostum, á ristað brauð osfrv. osfrv. Njótið í tíma og ótíma!