Eplasmjör

Ég kynntist eplasmjöri, eða apple butter, í fyrsta skipti þegar ég bjó í Georgíu í Suðurríkjunum. Það var skemmtilega öðruvísi en aðrar sultur sem ég hef kynnst, kryddað og gott. Á meðan mér fannst það ágætt þá tók fjölskyldan mín alvarlegu ástfóstri við það svo ég hef verið að gera eplasmjör í nokkur ár og deila út á meðal fjölskyldumeðlima þegar farið er að ganga á birgðirnar hjá þeim. Ég vona að þið njótið þessarar uppskriftar jafn mikið og við höfum gert!

Ég er að birta þessa uppskrift núna í október 2020 því að hún Sigurbjörg var að biðja mig um hana. Ég byrjaði að skrifa hana niður í maí 2015 en setti aldrei inn myndir af einhverri ástæðu og uppskriftin beið bara eftir að ég mundi klára hana. Þetta er æðisleg uppskrift, ég skil ekkert í mér að hafa ekki birt hana strax. Ég bjó hana upprunalega til sem samsuðu úr mörgum uppskriftum og aðlagaði hana að því að vera gerð á hellu en í Suðurríkjunum voru flestar uppskriftirnar fyrir slow cooker. Ég átti ekki slíkan og á enn ekki svo að ég geri mitt eplasmjör alltaf á hellu. Að auki vil ég taka fram að ég veit myndirnar eru ekki þær allra bestu, ég biðst forláts.

Eplasmjör

~2 kg Jónagold epli
6 dl vatn
1 1/4 dl edik

Skerðu eplin í grófa bita með hýði og fræjum og settu í pott með vökvunum. Eplin skaltu sjóða þangað til þau maukast auðveldlega, ég sauð þau í uþb. klukkutíma. Næst þarftu að kremja þau í gegnum sigti til að þú endir uppi með eplamauk. Þetta er frekar tímafrekt og þreytandi, taktu þér bara pásur eða fáðu einhvern með þér í þetta. Ég fékk hjálparkokk til að hjálpa mér síðustu mínúturnar. Þær eru erfiðastar því þú vilt nefnilega fá því sem næst allt eplakjötið, svo að maukið verði ekki bara lapþunnt eins og í byrjun.
Á móti hverjum 2 hlutum af eplamauki fer 1 hlutur af sykri. Uppskriftin er miðuð út frá því að þú sitjir uppi með uþb. 2 lítra af eplamauki. Ég mundi ekki setja mikið meira af eplamaukinu en það án þess að auka aðeins við kryddin í leiðinni.

~2 l eplamauk
~1 l sykur
2 teskeiðar kanill
1/2 teskeið negull
smá múskat
smá salt
börkur og safi úr hálfri sítrónu

Hræra öllu saman í góðum potti og láta suðuna koma upp. Hrærðu reglulega og leyfðu eplasmjörinu að sjóða í uþb. 2 tíma. Prófaðu þykktina með því að setja örlítið af eplasmjöri í botninn á lítilli skál og inn í ísskáp í smá stund. Þegar þér líkar þykktin þá seturu smjörið í krukkur. Ég er svo hégómafull með sulturnar mínar að ég setti smá rauðan matarlit út í hana undir lokin, eins og amma mín gerði alltaf með rabbabarasultuna sína. Ég fékk síðast 6 krukkur af eplasmjöri út úr þessu. Smjörið er gott á allt sem sultur eru góðar á, vöfflur, pönnukökur, hjónabandsælur, í mútur, með ostum, á ristað brauð osfrv. osfrv. Njótið í tíma og ótíma!

Kjúklingur með kanil, eplum og sítrónu

WP_20150405_027Þetta var páskamaturinn í ár. Kjúklingur með kanil, eplum, lauk og fleiru. Allt saman verulega gott. Galdurinn er samt sítrónusafinn og börkurinn. Ég var búin að fikta mikið í kryddmagninu og það vantaði alltaf eitthvað. Þar til sítrónan fór út í, þá small þetta allt saman og varð æðislega gott.

Auðvitað má nota aðra hluta af kjúkling en þetta eru mínir uppáhalds í svona mat. Við vorum fjögur í mat þegar þetta var eldað og ég hugsa að næstum helmingurinn hafi verið eftir. Kannski ekki alveg en nálægt því, þannig ég myndi segja að þessi uppskrift væri fyrir alla vega sex. Við skulum samt hafa í huga að þetta var hádegismaturinn á páskadag og það var búið að hesthúsa talsverðu magni af súkkulaði og planið var að innbyrða meira bæði í eftirrétt og svo kaffi síðar um daginn!

3 bakkar kjúklingabitar (2 leggir og 1 læri)
2 stór epli
3 laukar
1 1/2 kjúklingateningur
1 dl rjómi
3 dl mjólk
1 1/2 msk kanill
3/4-1 dl hlynsýróp
1/2 tsk negull
1/4 tsk múskat
Safi og börkur af 1 sítrónu
3 dl valhnetur, smjör og smá salt

Leggið kjúklingabitana í eldfast mót eða steikarpott með loki. Skerið eplin og laukana gróft og setjið í mótið. Leysið kjúklingateningana upp í vökvanum og bætið kryddunum út í. Hellið í mótið og hrærið aðeins. Bakið við 180°C þar til kjúklingurinn er tilbúinn og losnar auðveldlega af beinunum. Tíminn fer eftir því hvernig ofninn ykkar og mótin eru. Það tók rúmlega klukkutíma hjá mér enda var þetta mjög stór skammtur. Þegar fer að líða að því að rétturinn sé tilbúinn bætið þið sítrónusafanum og berkinum út í og hrærið. Ristið valhneturnar á pönnu ásamt smjöri og smá salti. Saxið gróft, það má líka gera það fyrir ristun. Dreifið svo yfir kjúklinginn þegar hann er tilbúinn. Við bárum réttinn fram með sætum kartöflum, salati og kryddsultum. Hrísgrjón passa líka mjög vel.

Hálfgamaldags eplakaka

P1120958

Við stöndum í gríðarlegum framkvæmdum heima hjá okkur núna. Það er verið að skipta um eldhús og ég get ekki beðið eftir að það klárist. Bæði vegna þess að þetta er talsvert rask og svo auðvitað vegna þess að þetta er draumaeldhúsið hannað eftir okkar höfði!

Við erum búin að fá mikla hjálp frá fjölskyldu og vinum og auðvitað reynum við að hugsa sem best um þá sem eru að hjálpa okkur. Ég passa t.d. að það sé alltaf til kaffi og að sjálfsögðu kökur. Ég var að spá í hvers konar kaka væri hentug í svona framkvæmdum. Eitthvað sem öllum finnst gott, einfalt því aðstaðan var orðin léleg og ekki með kremi því ég hugsaði að það kæmi ekki skemmtilega út með steinrykinu! Niðurstaðan var eplakaka.

Hugsunin var að gera eplaköku í gamaldagsstíl, með eplabitum og kanil sem maður getur annað hvort skorið í bita eins og skúffuköku eða í sneiðar og borið fram með rjóma. Ég er nokkuð viss um að hnetusmjör og eplamús uppfylla ekki skilgreininguna á gamaldags köku en þess vegna er hún líka bara hálfgamaldags. Ég er ánægð með niðurstöðuna, hún er aðeins klesst og blaut (það kom ekki að sök í steinrykinu) og hvarf ofan í alla. Svo gat ég hrært í hana þrátt fyrir að íbúðin væri í hálfgerðri rúst.

Hálfgamaldags eplakaka

25 g smjör
25 g hnetusmjör
50 g eplamús
100 g sykur/erytrhol með stevíu
100 g hveiti
2 tsk kanill (jafnvel meira, smakkið til)
1 egg
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk lyftiduft
1/2 dl mjólk
Niðurskorin epli, c.a 200-300 g eftir smekk (1-2)

Bræðið smjörið og hnetusmjörið saman og hrærið egginu, vanillunni og eplamús saman við. Hrærið þurrefnunum saman og bætið mjólkinni að lokum út í. Blandið vel. Skerið eplin frekar smátt og blandið saman við deigið. Bakið við 180°C í 20-30 mínútur. Fer eftir stærð forms, ég var með lítið skúffukökuform, c.a 20*20 og það tók um það bil hálftíma.

Ef þið eigið ekki eplamús eða hnetusmjör eða fílið ekki þau hráefni hugsa ég það virki að skipta þeim út fyrir venjulegt smjör. Ég hef ekki prófað en ég er nokkuð viss. P1120962

Sigurbjargarsæla – Klessukaka með smjörsteiktum eplum og hnetusmjörsjógúrtkremi

P1120250

Stundum reyni ég að finna einhver skemmtileg nöfn á uppskriftir í staðinn fyrir að hafa þau of augljós og venjuleg. Ég er ekkert voðalega mikið skáld, þið fyrirgefið það.

Þetta er önnur afmælisuppskrift, kaka öllu leyti að mínum smekk og mér finnst hún æðisleg. Þess vegna heitir hún Sigurbjargarsæla, en ekki hvað.

Ég hef ákveðið að nota orðið klessukaka en ekki kladdkaka. Klessukaka er að mér skilst íslenska orðið yfir þessar kökur og mér finnst það mjög lýsandi. Þetta er bara klessa, það getur verið vandasamt að koma þessum kökum yfir á disk án þess að allt fari alvarlega í klessu. En það sleppur nú alltaf ef þið notið smelluform. Ég mæli ekki með að reyna að taka klessuköku úr forminu ef hún er ekki bökuð í smelluformi.

Hugmyndin að þessari köku kom út frá sólarsælunni. Þar notaði ég grískt jógúrt og lítinn sykur í þessa æðislegu köku. Mér finnst rjómaostakrem rosalega góð en mig langaði í eitthvað aðeins léttara. Gríska jógúrtið er mjög hentugt í svoleiðis og hnetusmjörið stífar það nóg til að kremið verður nógu þykkt. Þetta gengur a.m.k með gríska jógúrtið frá MS. Mig minnir að eitthvað annað íslenskt grískt jógúrt sem ég keypti hafi verið þynnra. Þið spáið a.m.k í að það þarf að vera nógu þykkt til að leka ekki út um allt.

Þetta er annars allt mjög einfalt. Ég notaði klessukökuna mína sem grunn, nema bætti við 1/8 bolla af kakó í viðbót. Svo eru smjörsteikt epli og kremið sem tekur enga stunda að hræra. Baksturinn og undirbúningurinn tekur s.s. enga stund en það þarf að bíða eftir að kakan og eplin kólni, best er því að byrja daginn áður.

Sigurbjargarsæla

1 uppskrift klessukaka plús 1/8 bolli kakó
1-2 meðalstór epli að ykkar smekk. Mér finnst jonagold alltaf best í bakstri.
25 g smjör
2 msk sykur
Látið klessukökuna kólna alveg.

Skerið eplin í báta. Bræðið smjör og sykur saman á pönnu. Steikið eplin þar til þau verða gyllt og mjúk. Kælið alveg. Þegar eplin eru orðin köld og kakan líka skuluð þið hræra í eplunum svo allt smjör og allur sykur sitji nú örugglega fastur við þau. Raðið eplunum svo fallega á kökuna, Það er ekki skilyrði að það sé fallega gert, enda fer krem yfir!

P1120249

Hnetusmjörsjógúrtkrem

1/2 dós grísk jógúrt (ég miða við stærðina frá MS)
Tæplega dl fínt hnetusmjör (ég nota eiginlega alltaf gróft en hér mæli ég með fínu því þetta er krem og það er skemmtilegra)
1/4 bolli flórsykur.

Þeytið allt saman og kælið kremið svo aðeins svo það stífni. Smyrjið yfir kökuna og hún er tilbúin.

Kakan er æðisleg ein og sér eða með rjóma. Hún geymist mjög vel í kæli.

P1120292

Eplagums

Image

Hún mamma mín gerir svona eplagums alveg þokkalega oft og mér finnst það alltaf jafn gott. Hún fékk uppskriftina hjá Hjördísi, föðursystur minni, þannig að þessi uppskrift getur auðveldlega talist til vinsælli uppskriftanna í fjölskyldunni. Maður er ekki bara fljótur að hnoða í deigið og skera nokkur epli í bita heldur er líka alveg tilvalið að henda þessu í ofninn þegar að maður tekur gratínið eða lambalærið út og leyfa þessu að bakast á meðan maturinn er borðaður. Þetta er nefnilega lang best heitt (volgt, ekki brenna ykkur) úr ofninum með ís.

Image

Eplagums

4-5 epli
100 g súkkulaði
1 bolli haframjöl
1 bolli hveiti
1 bolli sykur (má minnka)
125 g smjörlíki (má minnka)
Kanill

Image

Aðferð

Eplin og súkkulaðið eru skorin í bita og sett í eldfast mót. Haframjölið, hveitið, sykurinn og smjörið er hnoðað saman í deig og kanil stráð yfir. Gumsið er svo bakað í 45-50 mínútur á 150°C. Þetta er mjög gott með rjóma en algjörlega lang best borið heitt fram með vanilluís.

Image