Bóndadagsborgarar á ostavöfflum

p1140107

Á bóndadaginn voru þessir hamborgarar í matinn. Borgararnir sjálfir eru einfaldir og þægilegir. Svo er hægt að leika sér með meðlætið og áleggið eins og manni sýnist. Ég er hrifin af stefnunni ,,því meira því betra” þegar kemur að hamborgarasamsetningum. Mínir heimagerðu borgarar eru yfirleitt með a.m.k tveimur gerðum af sósum og c.a 5 tegundum af grænmeti og osti. Þetta var engin undantekning.

Hamborgarar
500 g hakk
1 tsk sætt sinnep
1 tsk sterkt sinnep
2 msk bráðið smjör
Svartur pipar

Hrærið öllu saman og mótið borgara. Ég hafði þá 5. Steikið á pönnu eða bakið í ofni. Við viljum hafa okkar borgara meðalsteikta og þar af leiðandi smá rauða í miðjunni. Við notuðum þessar æðislegu vöfflur sem brauð.

Eggja- og ostavöfflur 3-4 stykki
3 eggjahvítur
1 egg
50 g ostur
1 tsk husk
Smá xanthan gum (má sleppa en deigið verður þægilegra)

Setjið öll hráefni í matvinnsluvél og maukið vel. Bakið í vöfflujárni við meðalhita. Passið að smyrja járnið vel. Ég bakaði vöfflurnar þar til þær urðu stökkar. Eins og sést líta þær nokkurn vegin út eins og hefðbundnar vöfflur, bragðið er auðvitað öðruvísi út af ostinum og það er hægt að leika sér með bragðið með því að nota mismunandi bragðsterkan ost. Okkur fannst þær æðislegar sem hamborgara,,brauð”.

p1140103

Annað álegg á borgarana var í þetta skipti, steiktur camembert (NAMM), hamborgarasósa, bernaisesósa, salat og steiktir sveppir.

Hrásalat eða eitthvað svoleiðis

20161006_164257Þessi uppskrift er voða mikið slump. Ég rétt mundi að skrifa niður hlutföllin af sósunum. Þið verðið svo að finna sjálf hversu mikið grænmeti þið viljið hafa. Ef þið viljið hafa salatið blautt skerið þið aðeins minna grænmeti. Eða bætið við sósu og öfugt ef þið viljið ekki hafa það blautt.

Ég tengi hrásalat, það sem maður kaupir út í búð ber það nafn, við hvítkál og mayones. Þetta salat inniheldur bæði svo það minnti mig á hrásalat. Það er samt ekkert líkt svoleiðis salati eins, alla vega ekki eins og það sem ég hef keypt. Reyndar kaupi ég aldrei hrásalat því mér finnst það vont, það er önnur saga. Mér finnst heimagert hrásalat samt gott. Nóg um það.

Hrásalat eða eitthvað svoleiðis
Jöfn hlutföll af mayonesi og ab mjólk, c.a 2 msk hvort.
1 msk chili pesto
Nokkrir cm, kúrbítur og gúrka
Rauðkál (ferskt)
Hvítkál

Hrærið saman sósunum. Skerið grænmetið smátt, þá meina ég mjög smátt. Nema þið fílið að hafa grænmetið gróft skorið. Ég geri það ekki svo ég lagði mig sérstaklega fram við að skera það smátt.

Þetta salat var meðlæti með ofnbökuðum lax og passaði mjög vel. Það var mjög bleik máltíð. Salatið passar örugglega vel með öllu kjöti og fisk.

Chili pestóið keypti ég í Bónus, það lítur svona út. Það má nota einhverja aðra chili sósu og þá tómatsósu á móti eða bara rautt pestó ef maður vill ekki chilibragð.

20161006_164313

Fylltar paprikur og nóg af osti

Þetta er líklega nýjasta uppgötvunin okkar í eldhúsinu. Við vissum svo sem að fylltar paprikur væru góðar. Og að ostur væri góður. En þetta hafði nú samt ekki oft verið í matinn, jafnvel aldrei.

Punturinn er að fylltar paprikur eru góðar. Rosalega góðar. Galdurinn er að elda þær ekki of stutt. Hafið þær frekar lengur við lægri hita. Svo er gott að skella grillinu á undir lokinn ef maður vill fá stökkan topp. Ég er hrifin af því. Við borðum fylltar paprikur ýmis sem meðlæti eða sem aðalrétt, það fer bara eftir því hversu svöng við erum. Ég myndi samt ekki setja kjöt í paprikurnar ef ég ætlaði að hafa þær sem meðlæti. En það er minn smekkur.

p1140083

Fylltar paprikur

2 paprikur skornar í tvennt og fræhreinsaðar
Ostur í bitum, við vorum með nýja villijurtaostinn frá MS (hrikalega góður) og einhvern danskan mygluost úr Melabúðinni. Líka hrikalega góður. Þið notið þá osta sem þið viljið. Haloumi er hrikalega góður í svona
Blaðlaukur/vorlaukur
Pylsur/eldstafir (eldstafir eru kryddaðar litlar pylsur sem fást alls staðar núna)
Tómatar
Góð olía

Dreifið olíu yfir paprikurnar. Raðið ostbitum, tómötum og pylsum í helmingana. Setjið meiri ost yfir og loks blaðlaukssneiðar eða vorlauk. Bakið í c.a hálftíma við 180°C. Gott er að kveikja á grillinu síðustu 5-10 mínúturnar.

p1140086

Hreindýrainnralæri með úllalasósu og hvítlauksmayonesi

Þetta er nú bara blogg um samsetningu á máltíð. En stundum þarf maður líka hugmyndir af svoleiðis. Sjáið þessa fegurð:

P1130995

Þetta er s.s. hreindýrainnralæri marinerað í úllalasósu. Borið fram með restinni af sósunni, heimagerðu hvítlauksmayonesi, bökuðum sætum kartöflum og sellerírót, sultuðum rauðlauk og fersku salati. Við vorum bara 4 fullorðin og 2 börn sem borðuðu lítið. Við kláruðum rúmlega kíló af beinlausu kjöti og eiginlega allt meðlætið. Svo gott var það. Og já við vorum ekki í svelti fram að mat heldur. Þetta var bara rosalegt.

Hreindýrainnralærið var eldað samkvæmt uppskrift sem ég hef áður gefið ykkur en ég lét kjarnhitan ná 60°C því það er helst til rautt ef hann er bara 50°C.

Úllalasósa er frábær sósa með öllum mat sem er upphaflega frá Úlfari Finnbjörnssyni. Ég smakkaði hana fyrst á svartfugl ef ég man rétt og ég hef líka notað hana á lax. Frábær sósa, uppskriftin af henni er t.d. hér.  Ekki vera hrædd þó það séu svona mörg innihaldsefni, maður setur þetta bara allt í matvinnsluvél og ekkert vesen.

Rótargrænmetið var bara skorið í ,,frönskustærð” og bakað í ofni með ólívuolíu þar til það var mjúkt.

Rauðlaukurinn var skv. þessari uppskrift. Ég gæti lifað á þessu hugsa ég í hvert skipti sem ég borða svona rauðlauk.

Ég get því miður ekki gefið ykkur uppskriftina af hvítlauksmayonesinu. Það var rosalega gott en málið er að ég ætlaði að prófa að byggja á uppskrift sem ég á, sem ég og gerði. Nema mér fannst niðurstaðan ógeðsleg og ég endaði með að hella því. Þannig ég slumpaði saman í aðra og hafði ekki trú á það myndi takast, svo ég skrifaði ekki niður innihaldsefnin. Svo heppnaðist það svona vel. Ég lofa að skrifa hana niður næst! Þangað til vitið þið að hvítlauksmayones er geggjað með hreindýrakjöti.

Aulaheld ostasósa

P1130990

Ég hef verið dugleg að elda eftir eigin uppskriftum og annarra upp á síðkastið. Það hafa því orðið til fáar nýjar uppskriftir

Ég er búin að slátra einhverjum lítrum af rabbabaragraut. Samt hefur mér aldrei dottið í hug að blogga hann, líklega vegna þess að ég geri aldrei það sama. Ef ég verð ekki komin með ógeð mun ég skrifa næstu uppskriftina niður.

Leti hefur líka einkennt matseldina og þess vegna hefu það sem ekki hefur verið eldað eftir uppskrift verið þess eðlis að það er ekkert að segja frá. Ekki mjög spennandi að segja frá salati með soðnu eggi t.d.

Mér fannst þessi máltíð sem ég er að fara að segja ykkur frá meira að segja mjög óbloggvæn. Þar til ég byrjaði að borða og fattaði að þessi sósa væri æðisleg og passaði með öllu sem mér gat dottið í hug. Eða svona nánast.

Ég var í letikasti og þurfti líka að klára mat úr ísskápnum svo ég ætlaði bara að borða hrátt grænmeti með sósu. Af því ég nennti ekki að elda grænmetið. Er þetta einhverskonar letihámark? Alla vega þá var sósan svo góð að þetta var hálfgerð veislumáltíð að mínu mati.

P1130987

Ég skar niður papriku, sveppi ólívur og eitthvað fleira og hellti svo sósunni bara yfir. Uppskriftin er rosalega einföld. Þess vegna ákvað ég að nefna uppskriftina þetta. Það er auðvitað hægt að klúðra þessu eins og flestu öðru í heiminum en það er mun líklegra að allt gangi vel.

Uppskriftin er fyrir einn. Þið margfaldið eftir þörfum

Aulaheld sósa

1-2 msk kotasæla

1- 2 msk tex mex smurostur

1-2 msk mjólk

Ítalskt krydd eftir smekk, t.d oregano og basil

Mýkið smurostinn í örbylgjuofni eða potti. Setjið í matvinnsluvél ásamt öðrum hráefnum og blandið þar til allt er slétt og fínt. Hitið að smekk, varlega því það er frekar auðvelt að brenna svona sósur. Hellið yfir það sem ykkur dettur í hug. Pasta er örugglega frábært og nánast allt kjöt og fiskur.

P1130988