Bóndadagsborgarar á ostavöfflum

p1140107

Á bóndadaginn voru þessir hamborgarar í matinn. Borgararnir sjálfir eru einfaldir og þægilegir. Svo er hægt að leika sér með meðlætið og áleggið eins og manni sýnist. Ég er hrifin af stefnunni ,,því meira því betra” þegar kemur að hamborgarasamsetningum. Mínir heimagerðu borgarar eru yfirleitt með a.m.k tveimur gerðum af sósum og c.a 5 tegundum af grænmeti og osti. Þetta var engin undantekning.

Hamborgarar
500 g hakk
1 tsk sætt sinnep
1 tsk sterkt sinnep
2 msk bráðið smjör
Svartur pipar

Hrærið öllu saman og mótið borgara. Ég hafði þá 5. Steikið á pönnu eða bakið í ofni. Við viljum hafa okkar borgara meðalsteikta og þar af leiðandi smá rauða í miðjunni. Við notuðum þessar æðislegu vöfflur sem brauð.

Eggja- og ostavöfflur 3-4 stykki
3 eggjahvítur
1 egg
50 g ostur
1 tsk husk
Smá xanthan gum (má sleppa en deigið verður þægilegra)

Setjið öll hráefni í matvinnsluvél og maukið vel. Bakið í vöfflujárni við meðalhita. Passið að smyrja járnið vel. Ég bakaði vöfflurnar þar til þær urðu stökkar. Eins og sést líta þær nokkurn vegin út eins og hefðbundnar vöfflur, bragðið er auðvitað öðruvísi út af ostinum og það er hægt að leika sér með bragðið með því að nota mismunandi bragðsterkan ost. Okkur fannst þær æðislegar sem hamborgara,,brauð”.

p1140103

Annað álegg á borgarana var í þetta skipti, steiktur camembert (NAMM), hamborgarasósa, bernaisesósa, salat og steiktir sveppir.

Bökuð epli með gráðosti

Besta matarupplifun (svo ég sé nú háfleyg) sem ég man eftir var á Ítalíu árið 2013. Á veitingastað lengst úti í sveit í La Marche héraði á Ítalíu. Við vorum þar í málaskóla í mánuð og einn af aðstandendum skólans, Pierpaolo, spurði hvort við vildum prófa að fara út að borða á þessum stað. Hann sagði þetta væri besti veitingastaðurinn á svæðinu. Við vissum að hann væri ekkert að djóka með það og tókum því boðinu um að hann myndi keyra okkur og nokkra aðra á staðinn.

Einn af fyrstu réttunum, ég man ekki hvað þeir voru margir, voru bakaðar perur með gorgonzola osti. Ógleymanlega gott. Ég hef oft hugsað um þann rétt síðan, en ekki reynt að herma eftir honum fyrr en nú.

Núna um áramótin vorum við með hreindýra innralæri í matinn, eins og sést á síðustu færslu, og eins og þið líklega vitið passar gráðostur rosalega vel með villibráð. Svona ef maður borðar gráðost á annað borð, eins og sem betur fer allir sem voru með mér í mat. Það var s.s. komið að því að nota réttinn sem innblástur. Það var til fullt af eplum svo ég ákvað að nota þau í staðinn fyrir perur, enda nokkuð viss um það yrði gott þó það yrði ekki eins. Ég ákvað líka að nota bara gráðost en ekki gorgonzola, bara því gráðosturinn var til.

IMG_8507

Seinna mun ég prófa bæði perur og gorgonzola, einungis fyrir forvitnissakir því þetta var geðveikt.

Bökuð epli með gráðosti

3 stór jónagóld epli

Tæplega einn gráðostur eða eftir smekk, ég vildi mikinn gráðost

Skvetta af mjólk og rjóma, líklega um 1-2 dl af blöndu, þið getið líka notað bara rjóma eða bara mjólk

Skrælið eplin og skerið. Venjulega borða ég alltaf hýðið af eplum en mér fannst það ekki passa í svona rétt. Setjið eplin í eldfast mót og dreifið muldum gráðosti yfir og hellið svo mjólkinni og rjómanum í formið. Bakið við 180°C þar til eplin eru mjúk og farin að taka lit. Gott er að hræra í forminu einu sinni til tvisvar svo eplin þorni ekki efst, vökvinn er ekki það mikill að það flæði yfir.

Rækjuofnréttur með mangó og ostasósu

P1130738
Oft verða uppskriftir til hjá mér af því mig langar í eitthvað ákveðið hráefni. Ekki ákveðinn rétt. Um daginn hugsaði ég ,,mig langar í rækjur”. Málið var að mig langaði líka í lasagna. Ekki kjöt samt. Þetta hljómaði ekki vænlegt til árangurs, sérstaklega því mig langaði ekkert í tómata. En mig langaði í mangó og maís og kúrbít. Og ost. Þessi blanda hljómaði ekki sérlega vel. En ég ákvað samt að taka þetta bara allt saman til og sjá hvað myndi gerast.

Þetta yrði aldrei verra en vont og ég ætti þá alltaf súkkulaði til að bjarga málunum. Það kom ekki til þess að ég þyrfti að borða súkkulaði í kvöldmat, þó ég hafi nú örugglega fengið mér það í eftirrétt.

Maturinn varð nefnilega góður þrátt fyrir undarlega samsetningu. Rækjur og ostur er góð blanda, líka rækjur og ávextir og ávexir og ostur. Sem er það sem þessi réttur inniheldur. Bara smá lagskipt eins og lasagna. Eða eitthvað í þá átt.

Rækjuofnréttur með mangó og ostasósu

150 g kotasæla
50 g rjómaostur
3 hvítlauksrif
1/2 kúrbítur skorinn með ostaskera
1 dl maískorn
Nokkrir sveppir, skornir gróft
steinselja
chili explotion
1 tsk sabal olek
150 g rækjur
1 dl mangó
rifinn ostur

Maukið saman kotasælu, rjómaost, hvítlauk, chili explotion og sambal olek. Raðið kúrbítssneiðunum í eldfast mót. Blandið maískornunum og sveppunum saman við ostasósuna. Hellið yfir kúrbítinn. Dreifið rækjum, manó og steinselju yfir. Rífið svo ost og dreifið yfir rækjur og mangó.

Bakið í c.a  20 mínútur við 180°C eða þar til osturinn er gullinn og allt heitt í gegn.

Lax með hvítlauksosti

Einu sinni enn. Ég. Elska. Lax.

Lax, lax, lax og aftur lax.

Namm.

P1130732

Ok ég er hætt. Ég nenni eiginlega ekki að skrifa neitt um þennan lax. Lax er bara góður. Punktur. Þessi er með hvítlauksosti og sweet chilisósu. Gjörið svo vel.

Lax fyrir 2, magn eftir smekk og hungri
Hellið sweet chili sósu yfir laxinn, svona 2-3 msk.
Dreifið skornum hvítlauksosti yfr, ekkert vera að spara hann.
Bakið við 180°C í 15-20 mínútur.

Í þetta skipti var meðlætið steikt spínat og bakaðar nípur.

P1130729

Heiti afmælisrétturinn 2015 – Heitur réttur með pylsum og mjög miklum ost

Ég átti afmæli á mánudaginn. Ég veit ég hef sagt það áður en ég segi það bara aftur, ég elska að halda upp á afmælið mitt. Veitingar hafa mikið með það að gera. Fullt hægt að tilraunast og það er allt borðað. Alla vega hingað til. Hér má sjá mynd af veisluborðinu, þetta var allt hreinsað þó það væri tvennt af hverju. Duglegir gestir. Svo vil ég líka benda á hvað eldhúsborðið er fallegt. Pabbi smíðaði það og spónlagði.

Já þetta var mont. En áfram með smjörið.

P1130643

Heiti rétturinn sem ég gerði fyrir afmælið mitt á síðasta ári er ein af allra vinsælustu uppskriftunum á blogginu og skal engan undra því rétturinn er mjög góður. Það hefði því auðvitað legið best við að gera bara sama réttinn fyrir afmælið mitt núna. Óþarfi að finna upp hjólið er það ekki?

Það á ekki við í matar og bakstursmálum, þá finnst mér allt í lagi að leita langt yfir skammt og finna upp hjól og alls konar.

Ég veit svo sem ekki hvort ég er að finna upp neitt hjól hér. En ég studdist ekki við neina aðra uppskrift þegar ég setti þessa saman, öll líkindi eru því mér óafvitandi.

Hugsunin var að gera góðan heitan rétt og sleppa brauðinu, alveg eins og síðast. Samt átti hann ekki að vera eins og síðast. Og mig langaði að nota mikinn ost, mjög mikinn ost, svo þetta væri eiginlega ostaréttur. Þetta tókst. Og svo má bæta því við að rétturinn er fljótlegri en hinn þar sem það þarf ekki að steikja grænmetið. Bara allt saman í ofn og tilbúið.

Talandi um að finna upp hjól. Ég gerði svakalega afmælistertu sem ég ætlaði klárlega að gefa uppskriftina af. Hún var alveg eins og ég hafði hugsað mér hana. Alveg nákvæmlega meira að segja. Eins á bragðið, eins áferð og allt bara eins og ég vildi. En ég hafði ekki hugsað út í að þessi samsetning myndi leiða til þess að tertan yrði eins og grjót. Ekki grjóthörð heldur svakalega þung í maga og einungis á færi svakalegra eftirréttamaga að innbyrða meira en örsneið af henni. Niðurstaðan er því sú að ég ætla að gera hana aftur en með léttari botnum og smakka. Gefa ykkur svo báðar uppskriftirnar, já?

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Hún neitaði meira að segja að myndast vel þessi elska. Þið sjáið hana betur síðar.

En nú er það heiti afmælisrétturinn, osta og pylsuréttur, heitur klúbbaréttur, hvað sem við eigum að kalla þetta. Lykilorðin eru samt einfalt, fljótlegt og mjööööög gott. Og mikill ostur, það er alltaf gott í minni bók, ég man alla vega ekki eftir að hafa hugsað eða sagt: ,,Ég vildi það væri ekki svona mikill ostur.”

Heiti afmælisrétturinn 2015

2 bakkar sveppir
1 blaðlaukur, skorinn
3 grískar ostapylsur
4 beikonpylsur
Eða einhverjar aðrar pylsur en þetta eru þær sem ég notaði.
150g rjómaostur+ 1/2 dl mjólk brætt saman
1 egg
1 mexíkóostur, skorinn í bita
1 hvítlauksostur, skorinn í bita
Eða tveir aðrir ostar í svipaðri stærð.
Rifinn ostur eftir smekk, bara hafa nóg af honum. Ég var með cheddar og brauðost

Grænmetið skorið og sett í 2 eldföst mót. Ég keypti að vísu skorna sveppi, það er mjög handhægt. Dreifið því næst pylsunum yfir. Bræðið saman rjómaost og mjólk og hrærið egginu saman við. Hellið blöndunni yfir grænmetið og pylsurnar og dreifið svo mexíkó og hvítlauksosti yfir og rífið að lokum nóg af ost og jafnið yfir réttinn. Bakið við 200°C í c.a hálftíma, þar til allur ostur er bráðnaður og fallega gylltur. Annað formið sem ég var með er stórt og hitt frekar lítið þannig þetta passar líklega í tvö meðalstór form.

P1130635

P1130638

P1130639