Kjánabangsarnir eins árs!

P1120082Í dag er ár síðan við Heiða og Sigurbjörg ákváðum að láta draum rætast sem hafði blundað í okkur báðum lengi. Við stofnuðum þetta matarblogg. Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ár og við höfum fengið mikla útrás fyrir matartjáningarþörfina. Vinnufélagar hafa þurft að þola mun minna matartal og að sama skapi hafa margir fengið að njóta afganga af alls konar tilraunum.

Okkur finnst alltaf jafn gaman þegar við fáum athugasemdir eða heyrum af því að fólk sé að nota uppskriftirnar okkar, það gleður okkur rosalega. Takk, takk, takk fyrir lesturinn og endilega haldið áfram að fylgjast með.

Svo er auðvitað afmælisuppskrift. Djúpsteikt smákökudeig.

Nú fá einhverjir sjokk og ætla að hætta að lesa. Ekki hætta að lesa. Þetta er æði. Þetta er rosalega gott. Við myndum aldrei gefa ykkur uppskrift af einhverju ógeðslegu á afmælinu okkar.

Hugsið ykkur volgt, hálfbakað smákökudeig með stökkum hjúp…… Selt? Auðvitað.

Þetta er svolítið maus, þið þurfið að búa til tvö deig og svo djúpsteikingardeig. En þetta er ó svo þess virði, trúið okkur og treystið,
þið munuð ekki sjá eftir þessu! Það er ekki nauðsynlegt að eiga djúpsteikingarpott en auðvitað er það þægilegt í svona vinnu. Ekki láta djúpsteikingarpottsleysi aftra ykkur.

Nú skulum við byrja. Það er alveg nóg að gera eina tegund af deigi en við notuðum tvær mjög ólíkar uppskriftir. Þið bara gerið svo eins og ykkur sýnist eða notið allt annað deig. Það má svo prófa að baka þessi deig í ofni líka ef þið eruð í stuði fyrir það.

 Ljóst smákökudeig

100 g smjör
120 g sykur
110 g púðursykur
1 egg
175 g hveiti
2 tsk vanilludropar
1 dl súkkulaðidropar eða eftir smekk

Þeytið saman smjör og sykur. Bætið eggi út í og þeytið vel. Bætið öllum öðrum hráefnum saman við og hrærið. Bætið súkkulaðinu út í síðast. Búið til kúlur úr deiginu og setjið inn í ísskáp í smá stund þar til þær eru sæmilega stífar.

P1120065

Dökkt smákökudeig

100 g  púðursykur
50 g  hvítur sykur
2 msk hnetumjör kúfaðar
100 g smjör
1 1/2 dl hveiti
1 dl kakó
1/2 tsk matarsódi
1 tsk vanillusykur
150 g súkkulaði, saxað eða dropar
4 dl bran flakes eða kornflakes
1/2 dl mjólk eða eftir þörfum

Þeytið saman smjöri, sykri og hnetusmjöri. Bætið þurrefnum saman við og hrærið. Bætið svo kornfleksi og súkkulaði út í. Ef deigið er mjög þurrt skulu þið bæta smá mjólk út í þar til auðvelt er að gera úr því kúlur. Búið til litlar kúlur og kælið meðan þið búið til djúpsteikingardeigið.

P1120063

Nú búið þið til djúpsteikingardeigið. Þið skuluð alls alls ekki sleppa því að gera það deig og setja kúlurnar beint út í pottinn. Það var prófað að trúið okkur, það virkar ekki! Þá bráðna deigkúlurnar bara, fara í klessu og út um allt. Olían verður ógeðsleg og þetta verður allt verulega subbó. Þannig að veltið kúlunum upp úr djúpsteikingardeigi og ekkert svindl!

Djúpsteikingardeig
1 dl hveiti
2 msk sykur
1/2 tsk salt
1/2 – 1 dl mjólk
1 egg

Hrærið öllu saman en passið á að byrja bara á 1/2 dl af mjólk. Deigið á að vera eins og þykkt pönnukökudeig. Ekki eins þykkt og vöffludeig en ekki eins þunnt og pönnukökudeig. Það verður að húða deigkúlurnar þegar þær eru látnar út í. Ef deigið er of þunnt fara kúlurnar í klessu við steikinguna.

Meðan þið gerið þetta hitið þið olíu annað hvort í djúpsteikingarpotti eða venjulegum potti. Passið að olían verði nógu heit annars virkar þetta ekki. Við höfðum pottinn á 190°C sem var mesti hiti. Ef þið eruð með venjulegan pott er gott að nota sömu þumalputtareglu og með kleinur. Ef olían freyðir þegar tannstöngli er dýft í hana þá er hún nógu heit.

Setjið nokkrar kúlur út í djúpsteikingardeigið og látið það hjúpa kúlurnar. Setjið kúlurnar út í olíuna og djúpsteikið þar til þær eru orðnar gullnar að lit. Það tekur nokkrar mínútur c.a 2-4 kannski en þið verðið mest að fara eftir litnum. Steikið frekar lengur en of stutt. Ef þið steikið of stutt fara þær í klessu við að vera teknar upp úr. Við gerðum nokkrar tilraunir með að velta kúlunum upp úr kornfleksi og haframjöli áður en þær fóru í pottinn. Það var bæði rosalega gott. Haframjölið kom skemmtilega á óvart. Endilega prófið ykkur áfram með svoleiðis, hnetur passa örugglega vel líka. En ekki súkkulaði, það bráðnar eins og fram hefur komið. Hér er ein mynd sem sýni (úr fókus og allt) hvernig þetta á ekki að líta út:

P1120071

En svona á þetta að líta út:

P1120078

P1120079

Látið kúlurnar kólna aðeins áður en þið borðið þær, bara til að brenna ykkur ekki því þær eru nú heitar að innan. Við náðum ekki að smakka þær kaldar…… Þær hurfu bara, en sumar náðu að verða bara rétt volgar og það er líka rosalega gott. Það er pottþétt æðislegt að bera þær fram glænýjar með ís. Nammi! Gleðilegt kjánabangsaafmæli!

P1120093

2 thoughts on “Kjánabangsarnir eins árs!

Leave a comment