Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Rifsberjasmákökur með hvítu súkkulaði

20160826_171849

Þessi uppskrift er búin að vera frekar lengi á leiðinni hér inn. Einfaldlega því ég hef haft alveg rosalega mikið að gera upp á síðkastið og hef alls ekki nennt að blogga. Stundum er þetta bara þannig. En lífið er mjög skemmtilegt núna líka þó ég hafi ekki haft bloggtíma, þá kvartar maður ekki!

Þessar kökur urðu til út frá því að mamma var að tína rifsber og spurði hvort ég vildi ekki fá ber án stilka, þ.e til að gera eitthvað annað úr en sultu. Ég var löt og nennti því ekki. En fékk nú ber samt. Og auðvitað langaði mig til að prófa að gera einhverjar tilraunir þar sem hún spurði. Þá kviknar áhuginn alltaf.

Ég prófaði nokkrar rifsberjauppskriftir. Í stuttu máli komst ég að því að ef það eru hindber í uppskriftinni þá virtist virka að nota rifsber. Skemmtilegt.

Hvítt súkkulaði og ber er eitthvað sem ég sé oft í alls konar uppskriftum. Hafrar eru líka góðir í smákökum og einhverntíman hafði ég gert bláberjahafrasmákökur með hvítu súkkulaði. Þannig að ég ákvað að gera það sama nema með rifsberjum. Og nota allt aðra uppskrift.

Ég bakaði þær heima hjá mömmu og ætlaði svo að setja á bloggið. Síðan eru liðnar nokkrar vikur og ekkert hefur gerst. Þá sendi mamma skilaboð og sagðist vilja fá uppskriftina. Svo hér er hún:

20160826_171857

Rifsberjasmákökur með hvítu súkkulaði

230 g smjör við stofuhita
3/4 bolli púðursykur
1/ 2 bolli sykur
1 egg
2 tsk vanilludropar
1 3/4 bolli hveiti
1 tsk matarsódi
1/ 2 tsk lyftiduft
1/4 tsk kanill
1 1/2 bolli haframjöl
200 g saxað hvítt súkkulaði
1 1/2-2 bollar rifsber, mín voru ófrosin en það er líklega auðveldara að vinna með þau frosin. Maður þarf nefnilega að hræra mjög varlega svo það líti ekki út fyrir að hafa verið framið morð á bökunarplötunni. Ef þið skiljið myndlíkinguna

20160826_130935

Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið við eggi og vanilludropum og þeytið aðeins áfram. Síðan öllum þurrefnum. Saxið súkkulaði eftir stærðarsmekk. Ég var með hrikalega fínt hvítt súkkulaði frá Green& blacks, því það var ekkert annað hvítt súkkulaði til í búðinni þegar mig vantaði það! Blandið svo rifsberjunum varlega saman við. Baka við 175°C í 10-15 mínútur.

Súkkulaði og döðlusmákökur

20160802_223447Þetta er afrakstur af tilraunastarfsemi sem kom til þegar mig vantaði snarl í hollari kanntinum. Til að borða hvenær sem er. Ég þarf alltaf að eiga eitthvað svoleiðis. Eins og hefur komið fram. c.a 100 sinnum á þessu bloggi. Núna á ég mjög góðar haframuffins, ég er nýbúin með þessar smákökur og ég held þær verði gerðar fljótlega aftur. Þær uppfylla allar mínar kröfur þegar kemur að þessu bráðnauðsynlega snarli.

100 ml niðurskornar döðlur
100 ml kakó
200 ml haframjöl
50 ml sukrin
1/2 tsk lyftiduft
vanilludropar
1 dl súkkulaðidropar
2 msk kasjúsmjör

Sjóðið döðlur í smá vatni, hellið vatninu af og setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt öðrum hráefnum nema súkkulaðinu. Maukið vel og vandlega. Ég byrja sjálf á að setja bara döðlurnar og mauka þær, það er því mín vél ræður ekki almennilega við að blanda öllum hráefnunum í einu. Þegar allt er blandað hrærið þið súkkulaðidropunum út í. Hver kaka er rúmlega matskeið af deigi.

Bakið við 180 í 15-20 mín. Kökurnar eru mjúkar þegar þær koma úr ofninum svo látið þær kólna almennilega áður en þið gangið frá þeim. Ég geymi þær í kæli svo þær verði stífari. Ég prófaði ekki að frysta þær en ég er viss um að það er gott.

20160802_223701

Ég var að átta mig á því að ég skrifaði ekki niður hvað þetta eru margar kökur. Mig minnir þær hafi verið 12-16.

Döðlusmákökur með súkkulaðibitum og matarsnapchat

Ég fékk mér snapchat í fyrsta skipti um daginn. Það kom mjög fljótt í ljós að mig langaði að taka myndir af um það bil öllu sem ég borðaði og ég þurfti virkilega að hemja mig til að taka ekki myndir af öllum mat og senda snöpp hægri vinstri. Ég tók reyndar talsvert af matarmyndum en sendi til mismunandi aðila svo enginn fengi of mörg matarsnöpp. Svo hugsaði ég þetta aðeins lengra, það hlytu nú að vera fleiri svona ofur mataráhugamenn þarna úti heldur en bara ég? Svo ég ákvað að stofna matarsnapp. Þar ætla ég að setja myndir og myndbönd af því sem ég er að borða, mat sem ég sé, það sem ég er að drekka, áhugaverðum sósum sem ég sé úti í búð og bara öllu sem tengist mat.

Þetta verður ekkert um mitt persónulega líf fyrir utan matinn. Þannig ef þið hafið áhuga á að sjá myndir af mismunandi tegundum af súkkulaði, smákökum, kaffi, kjöti, fisk og bbqsósuhillunni í Hagkaup þá endilega addið mér á snapchat! Ég lofa að vera skemmtileg fyir mataáhugafólk.

Þið finnið mig undir: matarbjorg. 

En þá er það uppskrift dagsins. 20160715_211155

Ég bakaði smákökur bara því mig langaði til þess. Um daginn gerði ég tilraun með smákökubakstur þar sem innihaldsefnið var að mestu maukaðar döðlur. Mér fannst þær ekki alveg nógu vel heppnaðar og þurfti að gera aðra tilraun. Ég sleppti hveiti, bætti við döðlum, sleppti líka öllum sykri eða strásætu. Ég er ánægð með niðurstöðuna.

Döðlusmákökur með súkkulaðibitum

2 dl ferskar döðlur, eða þurrkaðar sem hafa staðið í vatni þar til þær eu mjúkar, ef vatnið er sjóðandi tekur það styttri tíma
1 dl mjólk/undanrenna, einhver mjólk
1 tsk matarsódi
2 1/2 dl haframjöl
1 tsk vanilludropar
50 g súkkulaði, skorið eftir stæðarsmekk
1 msk brætt smjör
1 msk kartöflumjöl

Maukið saman döðlur og mjólk þar til blandan er orðin nokkuð slétt og kekkjalaus. Þetta verður aldrei alveg kekkjalaust í minni matvinnsluvél en það kemur ekki að sök. Blandið restinni af hráefnunum saman við fyrir utan súkkulaðið þar til deigið er vel blandað. Bætið súkkulaðinu út í. Mótið 12-14 smákökur og bakið við 180°C í 12-14 mínútur.

Kökurnar eru ekki sérstaklega sætar, þó döðlurnar og súkkulaðið gefi auðvitað sætu. Mér finnst þær mjög góðar en einhverjum gæti þótt vanta smá meiri sætu, þá er tilvalið að bæta við eins og 1-2 msk sýrópi eða hunangi. Já eða meira súkkulaði, það skaðar aldrei.

Hafra og rjómaostakökur með hnetumjöli

Ég lifi á rabbabara þessa dagana. Samt hef ég ekki enn gert neitt nýtt til að gefa ykkur uppskrift af. Mest er ég að borða rabbabaragraut í ýmsum útgáfum. Einan og sér eða út á grjónagraut eða með skyri eða bara hvernig sem mér dettur í hug, og mér dettur alls konar í hug.

En þetta er ekki rabbabarauppskrift heldur smákökur sem eru lengi búna að vera á leiðinni inn á bloggið. Þær eru einfaldar og rosalega góðar.

P1130963

Ég held áfram að leika mér með hnetumjöl. Þetta eru mjög góðar og mjúkar smákökur með góðu hnetubagði. Ekki spara súkkulaðið!

1 1/2 dl hnetumjöl
1 1/2 dl haframjöl
50 g rjómaostur
1/2 dl mjólk
1 tsk lyftiduft
smá salt
1/2 dl púðursykur/sukrin gold plús stevíudropar
Súkkulaði eftir smekk, lúka eða svo af söxuðu súkkulaði

Hrærið öllu saman nema súkkulaði og haframjöli. Bætið því út í. Bakið í 12-15 mín við 180°C miðað við 11 kökur.

P1130962