Við erum tveggja ára!

is

Við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli kjánabangsar, við eigum afmæli í dag! Vei!

Þetta var kannski full langt gengið, væmið og asnalegt. Okkur er alveg sama, það er gaman að eiga afmæli.

Og þegar maður á afmæli þá fær maður sér ís! Alla vega stundum. Ég fær mér reyndar mun oftar ís en þegar ég á afmæli, stundum í morgunmat jafnvel, sem ætti ekki að koma ykkur lesendum á óvart.

Við Heiða erum búnar að blogga um mat í tvö ár og erum ekkert orðnar leiðar á því. Okkur finnst skemmtilegast þegar við fáum athugasemdir við uppskriftirnar okkar, sjáum að þeim er deilt og aðrir njóta þess sem við erum að föndra.

Á síðasta afmælisdegi gáfum við ykkur frekar flókna en verulega skemmtilega og safaríka uppskrift af djúpsteiktu smákökudeigi. Afmælisuppskriftin í ár er talsvert einfaldari en ekkert síðri, vanilluís með tyrkis peber og súkkulaði.  Við kjánabangsar elskum ís, súkkulaði, tyrkis peber og afmæli. Það er búið að vera mikið að gerast hjá okkur upp á síðkastið og því hefur ekki gefist mikill tími til uppskriftaþróunar og þess vegna var þessi uppskrift svo fullkomin í afmælisblogg.

Grunnuppskriftin er frá mömmu minni. Ég var mjög hissa þegar ég uppgötvaði að engin ísuppskrift á blogginu byggir á þeirri uppskrift, sem ég hef þó notað umtalsvert. Þessi grunnuppskrift er alltaf notuð á jólunum heima á Selfossi og þar er ekki slegist um ísinn. Einfaldlega vegna þess að það er alltaf passað að gera óhóflegt magn svo við þurfum þess ekki, því við gætum tekið upp á einhverju slíku ef það liti út fyrir að einhver gæti ekki troðið sig út af ís (fengi s.s. bara skammt fyrir eðlilegt fólk).

Tykis pepperís með súkkulaðibitum 

7 eggjarauður
7 msk flórsykur
1/2 líter kaffirjómi
1- tsk vanilludropar
100 g tyrkis peber
70-100 g súkkulaði að smekk, mér finnst gott að nota hjúpsúkkulaði í ís, það verður aldrei mjög hart í frystinum og mér finnst það skemmtilegra.

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan er létt og ljós. Um það bil svona:

P1130531

Brjótið brjóstsykurinn, ekki of smátt því þá blandast hann ísnum um of. Við viljum að þetta séu bitar í ísnum en ekki mulningur sem saltar alla blönduna. Mér finnst ekki gott að nota matvinnsluvél í svona, þá verður brjóstsykurinn allt of fínmulinn. Ég set hann í poka og ber hann með glerkrukku.

P1130539

Saxið súkkulaðið.

P1130540

Hrærið rjómanum saman við eggjablönduna og setjið í ísvél. Þegar ísinn er alveg að verða til bætið þið brjóstsykrinum og súkkulaðinu út í. Ef þið eigið ekki ísvél eru nokkrir hlutir í stöðunni, en ég mæli með að gera annað hvort:

  1. Nota venjulegan rjóma og stífþeyta hann. Það breytir ísnum, hann verður þyngri sem er ekkert verra, ég er bara fyrir léttari ís sjálf. Hrærið stífþeyttum rjóma saman við eggin og bætið svo súkkulaði og brjóstsykri saman við. Frystið. Gott er að hræra í ísnum endrum og eins og taka hann úr frysti nokkru áður en það á að borða hann svo hann mýkist.
  2. Nota kaffirjóma en hræra reglulega í ísnum þegar hann er að stífna. Ekki setja súkkulaðið og brjóstsykurinn út í fyrr en blandan er orðin nokkuð stíf.

Ísinn er geðveikur einn og sér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að heit súkkulaðisósa geri allan ís betri alltaf. Þannig að ég borðaði auðvitað svoleiðis með. Það náðist bara ekki á mynd því við vorum verulega gráðug í ísinn. Þess vegna er líka fótósjoppað kertið á fyrstu myndinni. Græðgin tók öll völd.

Gleðilegt kjánabangsaafmæli, takk fyrir lesturinn og haldið áfram að lesa og vera skemmtileg!

2 thoughts on “Við erum tveggja ára!

Leave a comment