Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Saltað bláberjaostakökukonfekt með myndum og tvær aðrar hugmyndir

p1140095Jólin, jólin.

Ég er á fullu að búa til konfektjólagjafir ársins. Í ár eru alla vega þrjár nýjar sortir sem ég hef ekki gert áður. Tvær af þeim eru að vísu svo einfaldar að ég var ekkert að hafa fyrir því að skrifa þær uppskriftir fyrir bloggið og taka myndir. Áður en ég segi frá bláberjauppskriftinni skal ég þó segja ykkur frá hinum því þær eru einfaldar og fljótlegar.

Það má reyndar deila um hversu fljótlegar þær eru, það fer eftir þolinmæðisstuðli hvers og eins.

Ég fékk gefins slatta af núggati frá vinnufélaga sem ekki notar núggat og það var tilvalið að nota það í konfekt. Ég einfaldlega mýkti það aðeins í örbylgjuofni svo það var auðvelt að hræra í því, ekki þannig það væri fljótandi samt. Bætti svo út í það salthnetum, döðlum og trönuberjum og kældi þar til það var auðvelt að móta kúlur. Ég kældi svo eða frysti kúlurnar og hjúpaði með súkkulaði. Einfalt og fljótlegt, þ.e fyrir utan að búa til kúlur, kæla þær og hjúpa. Það er mikilvægt að kúlurnar séu nógu kaldar áður en maður reynir að hjúpa því annars bráðnar núggatið út í hjúpinn og allt verður subbulegt og ómögulegt.

Hitt var uppskrift sem ég sá í einhverju blaði um daginn. Súkkulaði fyllt með sítrónusmjöri (lemon curd). Það er eins einfalt og það hljómar. Bræða súkkulaði, setja í mót, kæla, fylla með sítrónusmjöri og loka með meira súkkulaði. Ég á mjög léleg konfektmót svo aðalveseið hjá mér var að ná molunum óbrotnum úr mótunum. Það gekk ekki alltaf svo ég var að fylla í sárin eftirá með bræddu súkkulaði. Þessir molar eru s.s.  langt frá því fallegir.

En uppskriftastjarna dagsins. Saltað bláberjaostakökukonfekt!

Þessir molar eru líka langt því frá fallegir og geta örugglega ekki verið það nema þið eigið góð konfektmót. Ég mæli með því að steypa þá í mót ef þið eigið góð og djúp mót, þetta er örugglega mun viðráðanlegra þannig.

Þó molarnir séu útlitslega mislukkaðir að mínu mati þá eru þeir svo góðir að ég ákvað að ég gæti ekki haldið uppskriftinni fyrir mig.

Mig langaði að blanda saman í kúlu bláberjum, tyrkis pebber og súkkulaði. Helst í einhverju ljósu degi svo berin og piparinn myndi njóta sín. Ég var að hugsa um smákökudeig en fannst það ekki nógu skemmtileg tilhugsun, og komst einhvernvegin ekki að neinni niðurstöðu. Og hvað gerir maður þá? Ég alla vega tala alltaf við Heiðu sambloggara og kjánabangsa, það er sama hvaða furðulegheit ég er með í huga og vantar aðstoð við, hún kemur alltaf með frábæra hugmynd sem yfirleitt leysir málið. Hún ætti að opna einhverja þjónustu, viðskiptahugmynd Heiða….

Alla vega. Heiða sagði, hvað með ostaköku? Þar með var það komið. Snillingur þessi elska.

200 g rjómaostur við stofuhita
150-200 g flórsykur
c.a 3/4 dl tyrkis pebber, mældur fyrir mölun
1- 1/2 dl frosin bláber, ég hef ekki prófað fersk og veit ekki hvað gerist.
Dökkur súkkulaðihjúpur. Ég prófaði fyrst að nota suðusúkkulaði en það var of afgerandi á bragðið fannst mér, svo persónulega mæli ég með hjúpsúkkulaðinu.

Þeytið saman rjómaost og flórsykur, myljið brjóstsykurinn og blandið saman við. Svo bláberjunum. Blandið berjunum varlega saman við svo deigið verði ekki blátt. Þ.e þau eiga ekki að springa. Frystið þar til deigið er viðráðanlegt til kúlugerðar. Það tók nokkra klukkutíma hjá mér. Ég hugsa það sé jafnvel gott að geyma það yfir nótt. Mótið kúlur og frystið aftur þar til þær eru orðnar vel stífar. Ég mæli með að frysta kúlurnar á fleiri en einum bakka/disk/plötu, þær bráðna mjög hratt og ég var í miklum vandræðum með sumar. Þess vegna lítur þetta svona út. Þegar kúlurnar eru frosnar eru þær hjúpaðar með hjúpsúkkulaði. Ég hjúpaði sumar tvisvar því fyllingin var að ,,kíkja út”.

Afmæliskakan 2016

p1140082

Ég átti stórafmæli um daginn. Það hefði verið minn stíll að halda svaðalegt kökuboð. En það er líka minn stíll að halda stórt partý. Þar sem afmælið var stórt varð partýið líka að vera stórt. Það var því haldið í sal úti í bæ.

Þess vegna voru veitingarnar líka öðruvísi en ég er vön að hafa. T.d voru ekki 17 sortir af kökum. Ég ætlaði ekki einu sinni að baka tertu sjálf. Var bara með brownies. En svo vaknaði ég partýmorgunin og langaði rosalega að baka köku. Svo ég fór að baka köku kl 9 um morguninn því ég bara varð.

Mig hafði langaði að prófa að baka súkkulaðiköku með rommbragði í nokkurn tíma og ég nýtti þetta tækifæri.

Kakan lítur út eins og krakkakaka út af smartísperlunum. Ég hélt líka að hún yrði mjög ókrakkavæn og ekki fyrir fólk sem ekki fílar áfengi í kökum. En svo varð mun minna rommbragð en ég átti von á. Og hún hentaði bara öllum. Þið getið meira að segja alveg sleppt þessum rommdropum og notað bara vanilludropa. Hún verður alveg jafn góð og einhverjum mun finnast hún betri.

En vá, karamellukremið. Það er geggjað. Þið verðið að prófa að gera þetta krem. Það er pottþétt frábært á allar súkkulaðikökur. Ég er frekar stolt af þessu kremi því ég studdist ekki við neina uppskrift, bullaði bara eitthvað og úr varð þetta hrikalega góða krem. Innihaldsefnin í því eru kannski frekar mörg, það er af því ég var að tína alls konar til sem ég átti og vildi klára. Næstum tómur poki karamellukurl, hálf tóm krukka karamellusósa, þið þekkið þetta.

Afmæliskakan 2016 – súkkulaðikaka með karamellukremi og rommi

150 g sykur
1/2bolli sýróp
100 g smjör
2 egg
1 1/2 bolli hveiti
3/4 bolli kakó
1 tsk lyftiduft
1 bolli mjólk,  sjóðandi
1/2 bolli vatn, sjóðandi
2 tsk rommdropar
1/2 bolli olía

Þeytið saman sykur og smjör. Bætið eggjunum saman við og þeytið áfram. Síðan sýrópi og loks þurrefnum og blandið vel. Sjóðið vatnið og mjólkina og hellið út í ásamt rommdropum og olíu. Skiptið í 2 c.a 24 cm form og bakið við 180°C í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur út hreinn. Látið kökuna kólna alveg.

Karamellukrem
1/4 bolli karamellukurl
100 g smjör
1/4 bolli karamellusósa
4 eggjarauður
2 eggjahvítur

Bræðið saman smjör og karamellukurl við vægan hita. Ég notaði auðvitað örbyglgjuofn. Látið blönduna kólna og hrærið karamellusósu út í. Stífþeytið eggjahvítur. Þegar blandan er orðin næstum köld, mesta lagi fingurvolg er eggjarauðum þeytt saman við karamelluna. Svo er eggjahvítunum hrært varlega saman við. Smyrjið á milli kökubotnanna. Þið sjáið á þessari mynd hvað þetta er mikið og fallegt krem.

p1140075

Rommsúkkulaðikrem

100 g dökkt súkkulaði
120 ml rjómi
2 msk sýróp
Rommdropar eftir smekk. Eða aðrir bragðdropar

Hitið rjóma að suðu og hellið yfir saxað súkkulaðið. Látið standa í smástund og hrærið svo saman, súkkulaðið ætti að bráðna alveg. Bætið sýrópi og bragðdropum út í. Hellið yfir kökuna.

Rifsberjasmákökur með hvítu súkkulaði

20160826_171849

Þessi uppskrift er búin að vera frekar lengi á leiðinni hér inn. Einfaldlega því ég hef haft alveg rosalega mikið að gera upp á síðkastið og hef alls ekki nennt að blogga. Stundum er þetta bara þannig. En lífið er mjög skemmtilegt núna líka þó ég hafi ekki haft bloggtíma, þá kvartar maður ekki!

Þessar kökur urðu til út frá því að mamma var að tína rifsber og spurði hvort ég vildi ekki fá ber án stilka, þ.e til að gera eitthvað annað úr en sultu. Ég var löt og nennti því ekki. En fékk nú ber samt. Og auðvitað langaði mig til að prófa að gera einhverjar tilraunir þar sem hún spurði. Þá kviknar áhuginn alltaf.

Ég prófaði nokkrar rifsberjauppskriftir. Í stuttu máli komst ég að því að ef það eru hindber í uppskriftinni þá virtist virka að nota rifsber. Skemmtilegt.

Hvítt súkkulaði og ber er eitthvað sem ég sé oft í alls konar uppskriftum. Hafrar eru líka góðir í smákökum og einhverntíman hafði ég gert bláberjahafrasmákökur með hvítu súkkulaði. Þannig að ég ákvað að gera það sama nema með rifsberjum. Og nota allt aðra uppskrift.

Ég bakaði þær heima hjá mömmu og ætlaði svo að setja á bloggið. Síðan eru liðnar nokkrar vikur og ekkert hefur gerst. Þá sendi mamma skilaboð og sagðist vilja fá uppskriftina. Svo hér er hún:

20160826_171857

Rifsberjasmákökur með hvítu súkkulaði

230 g smjör við stofuhita
3/4 bolli púðursykur
1/ 2 bolli sykur
1 egg
2 tsk vanilludropar
1 3/4 bolli hveiti
1 tsk matarsódi
1/ 2 tsk lyftiduft
1/4 tsk kanill
1 1/2 bolli haframjöl
200 g saxað hvítt súkkulaði
1 1/2-2 bollar rifsber, mín voru ófrosin en það er líklega auðveldara að vinna með þau frosin. Maður þarf nefnilega að hræra mjög varlega svo það líti ekki út fyrir að hafa verið framið morð á bökunarplötunni. Ef þið skiljið myndlíkinguna

20160826_130935

Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið við eggi og vanilludropum og þeytið aðeins áfram. Síðan öllum þurrefnum. Saxið súkkulaði eftir stærðarsmekk. Ég var með hrikalega fínt hvítt súkkulaði frá Green& blacks, því það var ekkert annað hvítt súkkulaði til í búðinni þegar mig vantaði það! Blandið svo rifsberjunum varlega saman við. Baka við 175°C í 10-15 mínútur.

Döðluterta með karamellusósu – Sigurbjargarútgáfa

P1140028

Ég hugsa að flestir kannist við döðlutertu með karamellusósu. Þær eru frekar öruggt bakkelsi, mjög einfaldar og nánast allir elska þær.

Mig langaði í döðlutertu með karamellusósu en mig langaði ekki í hefðbundna. Mig langaði í svoleiðis köku sem ég mætti borða í morgunmat. Því eins og þið vitið vil ég helst af öllu allar kökur séu æðislegar á bragðið og nógu hollar til að borða í morgunmat.

Og þar sem ég er að segja ykkur frá uppskriftinni þá er alveg ljóst að hún heppnaðist mjög vel. Eiginlega allt of vel því hún hvarf mjög fljótt. Ég myndi hiklaust baka þessa köku fyrir afmæli eða kaffiboð, það mun enginn vita að hún sé eitthvað hollari en aðrar döðlutertur.

P1140021

Kakan

1/2 bolli döðlur – tvískipt
1/4 bolli súkkulaði
1 dl hveiti
1 dl eplasósa
1 egg
1 /2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
Láta 1/4 bolla af döðlum liggja í smá vatni yfir nótt. Eða sjóðið þær í smástund í smá vatni og látið kólna. Hrærið þar til döðlurnar verða að mauki eða maukið í matvinnsluvél. Blandið restinni af hráefnum saman við og hrærið þar til allt er blandað, ekki hræra of mikið. Bakið í 20 mínútur við 200°C í 18-20 cm formi.

Karamellusósa

1/4 bolli ferskar döðlur, eða þurrkaðar sem hafa legið í vatni eða verið soðnar.
1 msk kasjúsmjör, eða möndlusmjör. Ég þori ekki að ábyrgjast hvernig annað hnetusmjör kæmi út.
Karamellubragðefni ef þið viljið, karamelludropar eða karamellustevía. Ég var með karamellu torani sýróp. Mér finnst betra að vera með eitthvað auka karamellubragð, en það er smekksatriði.

Maukið allt saman í blandara/matvinnsluvél þar til allt er slétt og fínt. Hellið yfir kökuna þegar hún er orðin köld. Nema þið ætlið að borða hana heita.

P1140025