Hnetusmjörsbollaís (B&J)

Ég er mikil vinkona Benna og Jenna (já ég kalla þá það) og kaupi stundum svoleiðis ís. Það er ekki beinlínis ókeypis samt og mér finnst gaman að búa til ís. Benni og Jenni eru ekkert feimnir við að gefa uppskriftirnar sínar og maður getur fundið einhverjar þeirra á netinu, þeir hafa líka gefið út bók sem ég þarf að eignast en það er önnur saga.

Uppáhaldsísinn minn er peanutbutter cup. Ég e l s k a hann….. mikið, gæti alveg lifað á honum, a.m.k í einhvern tíma. Hnetusmjör og súkkulaði í ís, það er fátt sem ég myndi velja frekar en það. Það var líka lítið mál að finna uppskriftina frá þeim. Það eina sem mér finnst að B&J ís er að hann er aðeins of sætur fyrir minn smekk. Ég minnkaði því sykurinn. Þið eruð væntanlega búin að átta ykkur á því að ég á ekki þessa uppskrift en ég er búin að Sigurbjarga hana aðeins og þýða hana og staðfæra fyrir ykkur! Ég vona að það gleðji.

Hnetusmjörsís Benna og Jenna

2 egg
1/2 bolli sykur
2 bollar kaffirjómi
1 bolli mjólk
1/3 bolli hnetusmjör
8 reeses peanutbuttercups

Þeytið eggin þar til þau freyða. Bætið sykrinum út í og þeytið þar til hann hefur blandast vel saman við. Setjið í blandara og bætið hnetusmjörinu saman við. Ég nota bara það hnetusmjör sem ég á hvort sem það er gróft eða fínt. Upprunalega uppskriftin segir fínt. Blandið þar til engir kekkir eru eftir. Setjið í ísvél ef þið eigið svoleiðis (ísvél á að vera staðalbúnaður á hverju heimili að mínu mati, eins og ísskápur og eldavél).

P1110044

Ef þið eigið ekki ísvél frystið þið ísinn í boxi og takið hann reglulega út og hrærið í honum (ég ítreka að þið munið ekki sjá eftir að fá ykkur ísvél 😉 ). Þegar ísinn er að verða tilbúinn, hvort sem það er í ísvélinni eða frystinum bætið þið hnetusmjörsbollunum út í. Þið saxið þá eftir ykkar stærðarsmekk, mér finnst gott að hafa þá misstóra.

P1110047

Það sem ég breytti frá upprunalegu uppskriftinni er að ég nota kaffirjóma í staðinn fyrir rjóma. Mér finnst kaffirjómi bara alltaf betri þegar ég er að gera ís, a.m.k eftir að ég eignaðist ísvél. Ég minnkaði líka sykurinn um 50 ml. Ef þið viljið ís sem er enn líkari þeim upprunalega skulu þið hafa þetta í huga.

P1110050

Þessi mynd hefur verið notuð áður já. Þetta er rabbabarapæið og ísinn passar bara mjög vel með því.

P1110063

Ananasís fyrir óþolinmóða

Ég er óþolinmóð, það hefur örugglega komið fram hér áður. Af einhverjum undarlegum ástæðum hef ég þó tekið ástfóstri við hægeldun og finnst svoleiðis matur æðislegur. En þetta blogg er ekki um það, heldur um ís.

WP_20140519_02020140519234231

Heiða sagði um daginn að henni fyndist stundum að eftirréttir án súkkulaðir væru hálf tilgangslausir. Ég er fullkomlega sammála henni enda algjör súkkulaðigrís. Þetta er samt eftirréttaruppskrift nr. 2 í röðinni þar sem súkkulaði er ekki grunninnihaldsefni. Hins vegar skreytti ég með súkkulaði eins og sjá má. Ég stóðst ekki mátið, súkkulaði gerir allt betra.

Eftir ég eignaðist ísvél þarf ég almennt að bíða mun styttra eftir að ísinn verði tilbúinn. Ég get fengið þá flugu í höfuðið að búa til ís og hann er tilbúinn á innan við klukkutíma.

Þessi ís er enn skemmilegri, hann er nefnilega tilbúinn á innan við fimm mínútum!

Þetta er svo sem ekkert nýtt undir sólinni frekar en annað í matreiðsluheiminum. Góð vísa er aldrei of oft kveðinn sagði einhver klár og svona gerir maður ís á fimm mínútum, í þetta sinn ananasís en þið getið notað hvaða ávexti sem er:

1 dl frosinn ananas, það er mikilvægt að hann sé frosinn
1/2-1 dl vökvi, ég mæli með mjólk, rjómi skemmir líka aldrei neitt
3-5 klakar
Nokkrir dropar vanillustevía og smá sukrin ef ykkur finnst þetta ekki nógu sætt
1/4 tsk xanthan gum

Allt sett saman í litla matvinnsluvél, ég nota litla hnífinn við töfrasprotann minn, og unnið þar til þetta breytist í ís.

FOT52B0

Ætli enskumælandi myndu ekki kalla þetta ,,soft serve”. Það er svona vélarísáferð á þessu, ef þið nennið að bíða og langar í stífari ís þá setjið þið hann í frysti í smá stund.

WP_20140519_016

Ég veit að stevía, sukrin og xanthan gum er ekki eitthvað sem er til í eldhússkápunum hjá ykkur öllum. En engar áhyggjur, þið notið bara vanilludropa og sykur í staðinn og sleppið guminu. Áferðin verður öðruvísi við að sleppa xanthan gum, það er bindiefni og þegar maður notar það í svona ísgerð verður ísinn loftmeiri og ísbúðalegri. Bragðið verður hins vegar ekkert öðruvísi. Ef þið eigið próteinduft gæti það gert svipað gagn.

Ég hef ekki borðað þennan í morgunmat, merkilegt nokk. Ég merki hann samt sem morgunmat því hann uppfyllir mína morgunverðarhollustustaðla og þið fáið fleiri morgunverðaruppskriftir ef þið skoðið morgunmatarflokkinn hér til vinstri.

Nutellaís

Sjáið þetta:

P1090917

Eru fleiri farnir að slefa?

Ég er búin að toppa mig! Sagði ég hógværðin uppmáluð þegar ég smakkaði þennan ís. Ég er að hugsa um að draga ekkert úr gortinu og fullyrða að þetta er sjúklega góður ís og þið bara verðið að prófa hann. Að því gefnu að ykkur finnist nutella gott (ég trúi ekki að það sé til fólk sem ekki finnst nutella eða annað heslihnetusúkkulaðismjör gott). Ef það er eitthvað annað súkkulaðismjör eða súkkulaðiheslihnetusmjör sem ykkur finnst betra en nutella er líklega hægt að nota það í staðinn en ég ábyrgist ekki niðurstöðuna.

Nutellaís

1 krukka nutella (400g krukka)
2-3 dl mjólk eftir bragðsmekk
1 egg
50 g saxað súkkulaði, ég nota 70%

Hrærið nutella, mjólk og eggi saman með handþeytara eða öðruvísi þar til allt er vel blandað saman. Bætið súkkulaði út í og setjið blönduna í ísvél. Ef þið eigið ekki ísvél hellið þá blöndunni í form og setjið í frysti. Hrærið í blöndunni á klukkutíma/tveggja tíma fresti þar til ísinn er orðinn eins harður og þið viljið hafa hann. Eða hrærið ekkert í honum og takið hann úr frysti hálftíma/klukkutíma áður en þið ætlið að borða hann (þá mun samt súkkulaðið allt fara í botninn á forminu).

P1090919

Snikkersís

Gleðileg jól og farsælt komandi ár! Takk fyrir allan lesturinn á árinu! Við erum búnar að vera í smá bloggfríi um jólin og það verður líklega eitthvað rólegt fram í janúar. Hér er þó ein uppskrift að ís sem er tilvalinn í áramótaveisluna.

Ég á varla orð til að lýsa því hvað þessi ís er góður. Ef ykkur finnst snikkers gott þá muni þið elska þennan ís. Ég held ég láti uppskriftina bara tala fyrir sig, þið bara verðið að prófa!

P1090582

Snikkersís

Ísinn

250 ml rjómi

250 ml mjólk

250 ml hnetusmjör

Smá salt, en bara ef þið eruð með ósaltað hnetusmjör

1 dl sykur

½ tsk vanilludropar

60 g súkkulaði, smátt saxað

120-180 ml ristaðar jarðhnetur, saxaðar niður í stærð að ykkar smekk

Sósan

120 ml sykur

Smá vatn

50 g smjör

3 msk rjómi

Setjið öll hráefni í ísinn nema súkkulaði og hnetur saman í matvinnsluvél/blandara og blandið þar til allt er kekkjalaust. Setjið blönduna í kæli og látið kólna vel, þess vegna yfir nótt, en þess þarf ekki ég nennti því t.d. ekki. Ef þið eigið ísvél setjið blönduna vélina og látið hana vinna. Ef þið eigið ekki ísvél setjið þið blönduna í box og í frysti þar til hún er orðin það þykk að súkkulaði og hnetur falla ekki til botns ef settar út í, bætið súkkulaði og hnetum þá út í. Meðan þið eruð að bíða eftir að ísinn verði nógu þykkur búið þið til karamellusósuna. Ef þið eigið ekki ísvél geri þið þetta bara þegar ísinn er orðinn nógu þykkur, hann frýs ekki það hratt.

Setjið sykur og vatn í pott og hitið þar til sykurinn er orðinn að karamellu, rafgullinn og ilmandi. Bætið því næst smjöri og rjóma út í og hrærið vel. Sykurinn mun sjóða og freyða þegar þið bætið smjörinu og rjómanum við, ekki láta ykkur bregða heldur haldið áfram að hræra þar til hann hættir. Látið karamellusósuna kólna aðeins, ekki of mikið því það þarf að vera hægt að hella henna. Ef þið látið hana kólna of mikið þannig hún þykknar of mikið setjið þá bara smá rjóma út í og þynnið þar til hún er þægilega þykk.

P1090569

Hellið sósunni út í ísinn og hrærið lauslega saman eða veltið öllu heldur. Sósan á að mynda rendur í ísnum, ef það tekst ekki er ísinn ónýtur….. Alls ekki því enginn nema þið vitið að það áttu að koma rendur, bragðið er alveg jafn gott! Setjið ísinn aftur í frysti og borðið þegar hann er eins þykkur og þið viljið.

P1090572

Ég þarf varla að taka fram að heit súkkulaðisósa eða karamellusósa væri sjúklega góð með þessum.

P1090583

Malt og appelsínís

Það er kominn desember! Sem þýðir: Jólin eru að koma!!

Það þýðir líka að núna förum við að prófa jólauppskriftir fyrir alvöru.

Ég er jólabarn, ég veit ekki hvort ég hef alltaf verið það en það eru til margar myndir af mér frá því ég var lítil að skreyta jólatréð, borða smákökudeig og ýmislegt annað. Núna þegar jólin nálgast er ég að springa úr spenningi og hausinn er jafnframt að springa af alls kyns jólahugmyndum. Þessi hugmynd sem ég blogga um í dag var alveg frábær, þó ég segi sjálf frá! Haldið ykkur fast: Malt og appelsínís!

Nú veit ég að margir hugsa, oj það vil ég ekki prófa, það getur ekki verið gott. En treystið mér, þetta er sko góður ís og gæti verið mjög skemmtilegur eftirréttur um hátíðirnar.

Malt og appelsín er ómissandi hluti af jólunum, mér finnst eitthvað rangt við að drekka þessa blöndu nema við mjög hátíðleg tilefni. Ég held ég drekki þetta t.d. bara á jólunum og hugsanlega páskum. Ég var spurð í Vikunni hvernig væri eina rétta leiðin til að blanda malt og appelsín og fannst það mjög skemmtileg spurning því ég held að allir sem ég þekki séu með mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig eigi að blanda þetta. Í ísinn notaði ég þó bara keypta blöndu, sem ég kaupi nú venjulega ekki, en ég komst að því að þessi blanda er bara mjög lík því sem ég myndi blanda sjálfri mér. Meira appelsínbragð en maltbragð.

P1090219

Ég fékk s.s. þá flugu í höfuðið að gera malt og appelsínís og eyddi talsverðum tíma í að lesa mismunandi tegundir af ísuppskriftum til að finna út hvernig væri best og sniðugast að framkvæma þetta.

Niðurstaðan var betri en ég þorði að vona. Ég var sjálf með fordóma fyrir þessari tilraun 😉 Ég sá ekki fyrir mér að rjómi plús dísætt gos gæti verið svona góð blanda. En það kom mér mjög skemmtilega á óvart, ísinn er ekki bara ætur hann er rosalega góður! Ekki leiðinlegt það. Ég tek fram að ég át ísinn ekki ein og smökkurunum fannst hann líka mjög góður.

Malt og appelsín ís. C.a líter

250 ml rjómi

3 eggjarauður

300 ml malt og appelsínblanda, annað hvort blandað eftir smekk eða tilbúin keypt blanda

150 ml mjólk

60 ml púðursykur

Hrærið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Hellið í pott ásamt rjómanum og mjólkinni. Hitið þar til blandan þykknar aðeins, ,,hylur skeið”. Hellið maltinu og appelsíninu út í og kælið alveg. Á þessum tímapunkti leist mér ekkert á þetta, blandan var skrítin á bragðið og ég hélt ég væri að búa til ógeðisís. Ég bætti þess vegna við smá mjólk (ég ætlaði fyrst bara að hafa 50 ml). Bragðið lagaðist og ég ákvað að láta þar við sitja og setti blönduna í ísskáp til að kólna alveg. Svo setti ég hana í ísvél. Ísvél er ekki nauðsynleg. Lesið um mismunandi aðferðir við að frysta ís hér.

P1090222

Ísinn var æðislegur beint úr vélinni og ekki síðri þegar hann var búinn að stífna aðeins í frysti. Malt og appelsínbragðið kemur sterkt í gegn en er ekki yfirgnæfandi.

Ég prófaði að búa til smá heita súkkulaðisósu til að hafa með og það setti punktinn yfir i-ið. Sósan var ekki það vel heppnuð að þið fáið uppskrift af henni núna 😉 en ég mæli með heitri súkkulaðisósu með ísnum.

P1090227Ef ísinn er búinn að vera lengi í frysti verður hann frekar harður og þá er sniðugt að láta hann standa aðeins í ísskáp eða bara á borði áður en hann er borðaður til að mýkja hann.

P1090223