Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Afmæliskakan 2015! Í tveimur útgáfum

P1130629

Loksins kom ég er mér í að gera aðra atlögu að afmæliskökunni. Eins og ég sagði ykkur frá hér, þá var afmælsikakan alveg eins á bragðið  og ég hafði hugsað mér. Alveg fullkomin hreinlega. Bragðlega séð. En svo þung að það þarf fólk með svartabelti í eftirréttaáti (eins og mig reyndar) til að borða meira en örsneið af henni. Fyrsta myndin og þessi hér eru af þyngri útgáfunni.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Það er nú skemmtilegra að uppskriftir séu frekar aðgengilegar. Svo ég ákvað að gera aðra útgáfu og gefa ykkur báðar uppskriftirnar. Þær eru báðar alveg rosalega góðar. Munurinn á þeim er sá að önnur er með þungum og þéttum súkkulaðibotnum og miklu kremi. Hin er með djöflatertubotnum og minna kremi. Sú seinni er aðgengilegri. Ég prófaði þær á sama fólkinu og djöflatertuútgáfan fór betur í fólk. Það sofnaði enginn fimm mínútum eftir át og allir voru glaðir.

Það voru svo sem allir glaðir eftir að hafa borðað hina, en hún er þung, svo ég ítreki það nú. En það þarf alvöru eftirréttaætur til að njóta hennar í botn.

Snúum okkur að uppskriftunum. Kremin eru eins svo ég byrja á þeim. Ég notaði minna á djöflatertuútgáfuna, helming af hvorri uppskrift, en það má alveg nota jafn mikið krem á hvora sem er.

Hnetusmjörskrem:

200 g rjómaostur
250 g hnetusmjör
2 dl flórsykur
2 msk sýróp
1 tsk vanilludropar
Smá skvetta mjólk eða rjómi 1-2 msk

Þeytið saman rjómaosti og hnetusmjöri. Bætið öðrum hráefnum saman við og þeytið þar til blandan er slétt og fín. Geymið við herbergishita þar til kremið er notað. Það er allt í lagi að gera bara helminginn.

Súkkulaðikrem:

200 g dökkt súkkulaði
2-3 msk smjör
1 tsk baileys (má sleppa og setja þá meiri mjólk)
2 msk sýróp
2 msk mjólk

Bræðið allt saman og látið kólna aðeins fyrir notkun. Ég notaði bara helminginn á djöflatertuútgáfuna.
1 bolli hindber, rúmlega, kramin og hellt yfir sjóðandi vatni, ekki í þessari röð

Sparisúkkulaðikökubotnar:
200 g smjör
150 g sykur
3 egg
100 g 70% súkkulaði, brætt
50 g hveiti
100 g möndlumjöl
3 msk sýróp
1 tsk lyftiduft
50 g kakó

Þeytið saman sykur og smjör. Bætið við eggjum og sýrópi og þeytið áfram. Svo súkkulaði og þurrefnum. Bakið í þremur formum við 180°C í 15-20 mín. Látið kólna alveg.

Djöflatertubotnar, ég notaði þessa uppskrift með þeirri breytingu að ég notaði ab mjólk í staðinn fyrir mjólk. Ég bakaði deigið líka í þremur formum en ekki tveimur. Það var passlegt að baka þá í 15 mín við 180°C.

Á milli: 1 bolli maukuð hindber

Samsetning:

Setjið einn botn á disk. Smyrjið með hnetusmjörskremi. Leggið næsta botn yfir. Ef þið gerið heila súkkulaðkremsuppskrift smyrjið þennan botn með 1/3-1/2 af því kremi og dreifið svo hindberjunum yfir. Annars setjið þið bara berin hér. Leggið þriðja botninn yfir og smyrjið með hnetusmjörskremi. Ef þið gerið heila uppskrift af því kremi smyrjið þið kökuna líka alla að utan með kreminu. Annars bara efsta botninn. Hellið restinni af súkkulaðikreminu yfir og kælið. Kakan er betri daginn eftir hvort sem þið gerið sparibotnana eða djöflatertubotnana. Þá er hún búin að sjúga í sig kremið og er orðin verulega mjúk og safarík. Þetta er léttari útgáfan:

P1130759

P1130762

Agnarsmá hnetusmjörs,,ostakaka”

Kannski ekki agnarsmá, en hún er samt lítil. Bökuð í fína 10 cm forminu mínu sem ég er búin að nota svo mikið að það fer að verða ónýtt.

P1130299

Ég ætlaði að baka hnetusmjörsostaköku sem ég fann á ferð minni um bloggheima einn daginn en þegar til þess kom átti ég ekki allt. Þá verða til nýjar uppskriftir eins og þið vitið. Það sem ég átti ekki var eitt mikilvægasta efnið sem þarf ef maður ætlar að baka ostakökur, s.s. rjómaostur. Ég er búin að læra af baksturstilraunum mínum að kotasæla virkar ágætlega í ostakökur sem staðgengill rjómaosts. Ég hef ekki smakkað ,,alvöru” ostaköku og kostasælublandaðaköku hlið við hlið svo ég get ekki lýst muninum en ég lofa ykkur að kotasælukakan er líka rosalega góð og inniheldur miklu færri kaloríur en rjómaostakaka, svona ef þið eruð að spá í því á annað borð.

Í uppskriftinni er jarðhnetumjöl. Þetta er nýkomið á markað hér á landi eftir því sem ég best veit og eins og þið vitið þá elska ég matarnýjungar og þarf helst að prófa þær helst í gær. Eins og við var að búast þá elska ég þetta hnetumjöl, það kom eiginlega ekkert annað til greina þar sem ég elska nú hnetur.

Þið þurfið samt ekki að örvænta ef þið eigið ekki hnetumjöl, í þessari uppskrift hefur það fyrst og fremst það hlutverk að þykkja deigið. Þið getið því notað t.d möndlumjöl, kókoshveiti eða venjulegt hveiti í staðinn. Ég mæli ekki með að nota haframjöl eða kókosmjöl, það virkar líklega ekki.

Agnarsmá hnetusmjörs,,ostakaka”

40 g kotasæla
100 g skyr
1 msk jarðhnetumjöl
1 msk hnetusmjör
1 1/2 tsk maísmjöl (ég hef notað maizana sósujafnara þegar ég hef ekki átt maísmjöl, það hefur virkað, ef þið eigið hvorugt hugsa ég það virki að setja meira af jarðhnetumjöli eða því sem þið notið í staðinn)
1 msk hlynsýróp eða annað sýróp
1 eggjahvíta
2 msk sukrin gold eða púðursykur
Nokkrir dropar stevía eftir bragðsmekk, vanillu eða hrein er fín í þetta
1/4 bolli dökkt súkkulaði, saxað eftir smekk

P1130303

Blandið öllu nema súkkulaði saman í matvinnsluvél þar til blandan er alveg slétt og kekkjalaus. Hrærið súkkulaðinu saman við. Bakið í 10 cm formi í 20 mín við 180°C þar til kakan er orðin nokkuð stíf í miðjunn, alls ekki fljótandi. Ef þið eigið ekki 10 cm form er eflaust hægt að baka kökuna í muffinsformum en ég get sagt til um bökunartíman þá. Nú eða tvöfalda uppskriftina og baka í stærra formi!

Ég bjó ekki til botn fyrir þessa köku, mér finnst þeir ekkert alltaf nauðsynlegir en það er pottþétt mjög gott að búa til hefðbundinn ostakökukexbotn og baka kökuna í honum.

Hnetusmjörs og súkkulaðistykki – morgunútgáfa

P1120403

Kveikjan að  þessari uppskrift eru hnetusmjörs- og súkkulaðistykkin hennar Heiðu. Mig langaði að gera hollari útgáfu af þeim sem ég gæti borðað í morgunmat. Ég prófaði 4-5 eða jafnvel 6 mismunandi útgáfur af uppskriftinni áður en ég endaði á þessari. Ég borðaði s.s. um það bil sömu kökuna í morgunmat í heila viku, svo datt mér í hug enn ein útgáfa og gerði hana einu sinni enn. Mér fannst hnetusmjörsbragðið ekki nógu áberandi þó kakan væri góð þannig að nýjasta útgáfan er með talsvert meira hnetusmjöri en sú upphaflega. Ég gef ykkur bæði hlutföllin og allar útgáfur af því sem mér finnst best. Þetta var svona éghættiekkifyrrenégerorðinánægð tilfelli því það fór svo í taugarnar á mér að kakan væri ekki eins og ég vildi! Núna er ég s.s. ánægð. Nóg hnetusmjörsbragð og áferðin mjög góð. Nú held ég að þessi kaka sé komin í smá frí. Ekki langt samt því hún er æði.

Ef þið notið banana í uppskriftina kemur auðvitað bananabragð af kökunni. Já ég kalla þetta köku en ekki stykki því ég skar þetta í bita eins og köku.

P1120434

Hnetusmjörs og súkkulaðistykki – morgunútgáfa fyrir 2-4
1 1/2 dl mjólk
50 g stappaður banani/ 50 g eplamús
80/120 g hnetusmjör
50 g erythrol með stevíu eða sukrin +. Það má líka nota venjulegan sykur en þá minnkar hollustan.
10 dropar stevía eftir bragðsmekk, ég notaði hreina
1 tsk vanilludropar
1/4 bolli heilhveiti
1/4 bolli haframjöl
1/2 tsk matarsódi
30 g súkkulaði, ég notaði sykurlaust í flestum tilraunatilfellum
Jarðhnetur eftir smekk c.a 1-2 msk (má sleppa en er rosa gott svo ég mæli með því að nota þær)

Bakið í 15-20 mín við 180°C Kakan mun líklega líta út fyrir að vera ekki alveg bökuð en það á að vera þannig. Best er að láta hana kólna og standa svo í ísskáp yfir nótt. Eða að minnsta kosti láta hana kólna alveg áður en hún er borðuð, það er þó ekki nauðsynlegt því hún er líka góð heit eða volg en þetta er samt pínu skrítin kaka að því leyti að hún er betri köld daginn eftir. Ef þið notið 120 g af hnetusmjöri verður kakan miklu þyngri í maga og þá myndi ég segja að hún væri fyrir 3-4 annars er hún passleg fyrir 2. Ég borðaði helminginn af þyngri útgáfunni í morgunmat um daginn og fann verulegan mun á því hvað ég var miklu saddari en af hinum útgáfunum. Það var s.s. aðeins of mikið fyrir mig, en hún var bara svo góð, ég hefði örugglega getað borðað hana alla ein en sem betur fer gerði ég það ekki því ég þurfti að vinna um daginn og fleira og mátti ekki vera að því að liggja á meltunni! Athugið líka að ég er kökugrís fyrir suma er ein sneið af þyngri útgáfunni líklega alveg nóg 😉

P1120397

Sigurbjargarsæla – Klessukaka með smjörsteiktum eplum og hnetusmjörsjógúrtkremi

P1120250

Stundum reyni ég að finna einhver skemmtileg nöfn á uppskriftir í staðinn fyrir að hafa þau of augljós og venjuleg. Ég er ekkert voðalega mikið skáld, þið fyrirgefið það.

Þetta er önnur afmælisuppskrift, kaka öllu leyti að mínum smekk og mér finnst hún æðisleg. Þess vegna heitir hún Sigurbjargarsæla, en ekki hvað.

Ég hef ákveðið að nota orðið klessukaka en ekki kladdkaka. Klessukaka er að mér skilst íslenska orðið yfir þessar kökur og mér finnst það mjög lýsandi. Þetta er bara klessa, það getur verið vandasamt að koma þessum kökum yfir á disk án þess að allt fari alvarlega í klessu. En það sleppur nú alltaf ef þið notið smelluform. Ég mæli ekki með að reyna að taka klessuköku úr forminu ef hún er ekki bökuð í smelluformi.

Hugmyndin að þessari köku kom út frá sólarsælunni. Þar notaði ég grískt jógúrt og lítinn sykur í þessa æðislegu köku. Mér finnst rjómaostakrem rosalega góð en mig langaði í eitthvað aðeins léttara. Gríska jógúrtið er mjög hentugt í svoleiðis og hnetusmjörið stífar það nóg til að kremið verður nógu þykkt. Þetta gengur a.m.k með gríska jógúrtið frá MS. Mig minnir að eitthvað annað íslenskt grískt jógúrt sem ég keypti hafi verið þynnra. Þið spáið a.m.k í að það þarf að vera nógu þykkt til að leka ekki út um allt.

Þetta er annars allt mjög einfalt. Ég notaði klessukökuna mína sem grunn, nema bætti við 1/8 bolla af kakó í viðbót. Svo eru smjörsteikt epli og kremið sem tekur enga stunda að hræra. Baksturinn og undirbúningurinn tekur s.s. enga stund en það þarf að bíða eftir að kakan og eplin kólni, best er því að byrja daginn áður.

Sigurbjargarsæla

1 uppskrift klessukaka plús 1/8 bolli kakó
1-2 meðalstór epli að ykkar smekk. Mér finnst jonagold alltaf best í bakstri.
25 g smjör
2 msk sykur
Látið klessukökuna kólna alveg.

Skerið eplin í báta. Bræðið smjör og sykur saman á pönnu. Steikið eplin þar til þau verða gyllt og mjúk. Kælið alveg. Þegar eplin eru orðin köld og kakan líka skuluð þið hræra í eplunum svo allt smjör og allur sykur sitji nú örugglega fastur við þau. Raðið eplunum svo fallega á kökuna, Það er ekki skilyrði að það sé fallega gert, enda fer krem yfir!

P1120249

Hnetusmjörsjógúrtkrem

1/2 dós grísk jógúrt (ég miða við stærðina frá MS)
Tæplega dl fínt hnetusmjör (ég nota eiginlega alltaf gróft en hér mæli ég með fínu því þetta er krem og það er skemmtilegra)
1/4 bolli flórsykur.

Þeytið allt saman og kælið kremið svo aðeins svo það stífni. Smyrjið yfir kökuna og hún er tilbúin.

Kakan er æðisleg ein og sér eða með rjóma. Hún geymist mjög vel í kæli.

P1120292