Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Döðluterta með karamellusósu – Sigurbjargarútgáfa

P1140028

Ég hugsa að flestir kannist við döðlutertu með karamellusósu. Þær eru frekar öruggt bakkelsi, mjög einfaldar og nánast allir elska þær.

Mig langaði í döðlutertu með karamellusósu en mig langaði ekki í hefðbundna. Mig langaði í svoleiðis köku sem ég mætti borða í morgunmat. Því eins og þið vitið vil ég helst af öllu allar kökur séu æðislegar á bragðið og nógu hollar til að borða í morgunmat.

Og þar sem ég er að segja ykkur frá uppskriftinni þá er alveg ljóst að hún heppnaðist mjög vel. Eiginlega allt of vel því hún hvarf mjög fljótt. Ég myndi hiklaust baka þessa köku fyrir afmæli eða kaffiboð, það mun enginn vita að hún sé eitthvað hollari en aðrar döðlutertur.

P1140021

Kakan

1/2 bolli döðlur – tvískipt
1/4 bolli súkkulaði
1 dl hveiti
1 dl eplasósa
1 egg
1 /2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
Láta 1/4 bolla af döðlum liggja í smá vatni yfir nótt. Eða sjóðið þær í smástund í smá vatni og látið kólna. Hrærið þar til döðlurnar verða að mauki eða maukið í matvinnsluvél. Blandið restinni af hráefnum saman við og hrærið þar til allt er blandað, ekki hræra of mikið. Bakið í 20 mínútur við 200°C í 18-20 cm formi.

Karamellusósa

1/4 bolli ferskar döðlur, eða þurrkaðar sem hafa legið í vatni eða verið soðnar.
1 msk kasjúsmjör, eða möndlusmjör. Ég þori ekki að ábyrgjast hvernig annað hnetusmjör kæmi út.
Karamellubragðefni ef þið viljið, karamelludropar eða karamellustevía. Ég var með karamellu torani sýróp. Mér finnst betra að vera með eitthvað auka karamellubragð, en það er smekksatriði.

Maukið allt saman í blandara/matvinnsluvél þar til allt er slétt og fínt. Hellið yfir kökuna þegar hún er orðin köld. Nema þið ætlið að borða hana heita.

P1140025

Einstaklingskaka hnetusmjörsaðdáandans

P1130905

Ég var búin að vara við hnetumjölsuppskriftum. Ef þið eruð skrítnir jarðhnetuhatarar munu þið ekki hafa gaman af þessu hjá mér. Aðrir eðlilegir jarðhnetuelskendur munu líklega verða glaðir.

Hnetumjöl er snilld, það kemur hnetusmjörsbragð af bakkelsinu en það inniheldur færri hitaeiningar og er samt mjög gott. Minni fita og jafn gott bragð fer nefnilega ekki alltaf vel saman. Mínus hnetusmjör plús hveiti/duft hljómar ekki eins og eitthvað skemmtilegt. En það er það.

Ég kaupi hnetumjöl yfirleitt í Nettó, það fæst líka í Kosti og örugglega á fleiri stöðum. Þegar ég segi hnetumjöl á ég við jarðhnetumjöl (peanut flour) það er örugglega líka alltaf hægt að nota möndlumjöl í staðinn fyrir hnetumjöl en það er auðvitað ekki eins á bragðið. Athugið að kókoshnetuhveiti er allt öðruvísi en önnur hnetuhveiti/mjöl og virkar yfirleitt ekki eins í uppskriftum. Ég hef nokkuð oft heyrt, ,,já ég setti kókoshveiti í staðinn og þetta varð skrítið/vont/asnalegt”. Það er vegna þess það virkar ekki, ekki prófa það.

P1130902

En, að uppskriftinni. Þetta er ein af þessum einstaklingskökum sem ég elska að borða í morgunmat. Ég hef, aldrei slíku vant, prófað að baka hana bæði í ofni og örbylgjuofni. Ég mæli mun frekar með ofninum, hún verður miklu skemmtilegri áferðarlega séð. En ef þið  hafið ekki tíma eða nennið ekki að bíða eftir ofninum þá er kakan líka góð úr örbylgjuofni.

Einstaklingskaka hnetusmjörsaðdáandans
2 msk haframjöl
2 msk hnetumjöl
1/4 tsk lyftiduft
1 msk léttmayones (alltaf hellmanns ef ég nota mayó)
2 eggjahvítur (eða eitt egg)
1 msk sulta. Ég notaði sykurlausa hindberjasultu
1 msk kakó

Kremið:
1 msk hnetumjöl
1 tsk sýróp – ég notaði fibersýróp
1 msk mjólk
Bragðdropar eftir smekk, vanillu virkar alltaf, aðrar tegundir geta verið skemmtilegar

Blandið öllum hráefnum í kökuna vel saman, helst í lítilli matvinnsluvél svo hafrarnir maukist líka. Annars er í lagi að hræra bara. Bakið við 180°C í c.a 15-20 mínútur, eða í örbylgjuofni í c.a 2 mínútur. Blandið öllum hráefnunum í kremið vel saman og geymið þar til þið ætlið að borða kökuna. Hún er bæði góð heit og köld en persónulega finnst mér hún betri daginn eftir og úr kæli.

P1130906

 

Svartbaunasúkkulaðismákökur

P1130747Sumar uppskriftir eru meira prófaðar en aðrar. Eins og þessi. Ég veit ekki af hverju mig langaði svo að gera smákökur úr svörtum baunum. Líklega af því bara. Ég hef oft og mörgum sinnum bakað kökur úr baunum en ekki smákökur, það reyndist líka meira vesen að ná þeim eins og ég vildi, þ.e smákökulegar en ekki kökulegar.

Ég vil helst alltaf eiga einhver sætindi í hollari kanntinum sem ég get fengi mér þegar ég er að deyja úr nammiþörf en ætla sko ekki að fá mér eitthvað rusl. Svona smákökur koma þá sterkar inn.

Þetta eru s.s. ekki jólasmákökur, alla vega ekki í minni bók. Þær eru samt mjög góðar og má alveg borða þær á jólunum ef maður vill. Það vill svo til að ég er tilbúin með aðra smákökuuppskrift sem er tilbúin til bloggs og hún er ekki heldur jóla í minni bók. Svo farið þið að fá jóla uppskriftir líka. Spennandi tímar framundan hér finnst ykkur ekki?

Svartbaunasúkkulaðismákökur

150 g svartar baunir
30 g hnetusmjör c.a 1 1/2 msk
1 dl malað haframjöl, malað eftir mælingu
2 msk mjólk
2 msk hnetumjöl/möndlumjöl
3 msk kotasæla
2 msk kakó
1/2 tsk matarsódi
1/2 dl via health sæta með stevíu
1 msk dökkt sukrin sýróp eða bara venjulegt sýróp
Nokkrir dropar súkkulaðistevía, eða annað bragð sem þið viljið
1 tsk vanilludropar
Smá salt
60 g súkkulaði, gróf saxað.

Maukið allt saman þar til blandan er kekkjalaus, það getur borgað sig að byrja á baununum og blautefnunum. Annars gæti matvinnsluvélin ykkar sagt upp. Það er dýrt og ég mæli ekki með því. Bætið súkkulaðinu út í að lokum. Bakið við 180°C í 12 mínútur. Þetta eru c.a 10-12 kökur. Mér finnst þær góðar heitar, kaldar, frosnar, einar og sér eða smurðar með rjómaosti og hnetusmjöri, sérstaklega gott að gera úr þeim samloku með rjómaosti og hnetusmjöri á milli. Ég hef sett þær út á skyr og ís og bara alls konar. Fjöldi tilrauna hefur líka leitt til fjölda tilefna til þess að borða þær.

Ljóska með bláberjum, hvítu súkkulaði og leynihráefni!

P1130726

Það er skemmtilegra þegar fólk les bloggið. Þess vegna ákvað ég að hafa ekki í fyrirsögninni hvert leynihráefnið væri svo það fældi fólk ekki frá. Fólk er nefnilega með matarfordóma, a.m.k sumir. Þannig að ekki hætta að lesa núna þegar ég segi ykkur að það er grænmeti í kökunni.

Já ég veit ég hef áður gefið ykkur grænmetiskökuuppskriftir og ég byrja þau blogg alltaf eins en sumir hafa ekki lesið þau öll. Þið verðið að afsaka myndina af þessari köku. Ég var of gráðug og náði ekki almennilegri mynd. Ég uppfæri færsluna þegar ég er búin að baka hana aftur.

P1130727

Ég ætlaði að nota kúrbít í þessa köku. Því mér fannst eins og ég ætti afgang af kúrbít sem þyrfti að klára og mér finnst kúrbítur góður í kökur. En svo kom ég heim og sá að ég var búin að borða kúrbítinn. Ég lendi ekki í svoleiðis í tengslum við súkkulaði, súkkulaðibirgðirnar eru alltaf á hreinu. Alltaf.

Þar sem ég var búin að ákveða að nota grænmeti í kökuna ákvað ég að halda mig við það og sótti blómkál í frystinn og þíddi það í örbylgjuofninum, þá var ekkert að vanbúnaði og þessi kaka varð til:

Ljóska með bláberjum og hvítu súkkulaði

1/4 bolli möndlu/kasjúsmjör
100 g frosið blómkál sem hefur þiðnað, eða sjóðið sama magn af fersku
1 egg
1/8 bolli hunang
1/8 bolli eplasósa
3/4  bolli haframjöl
2 msk chia fræ
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk matarsódi
1/2 bolli bláber
1/2 msk hveiti/maísmjöl
1/4 bolli hvítt súkkulaði, skorið eftir smekk

Setjið haframjöl og chia fræ í matvinnsluvél og malið þar til haframjölið er orðið næstum eins og hveiti. Bætið blautefnum og blómkáli saman við og maukið þar til deigið er kekkjalaust. Hrærið þurrefnum saman við. Veltið bláberjunum upp úr hveitinu og hrærið varlega saman við deigið ásamt súkkulaðinu. Ég hef ekki prófað að sleppa þessu með að velta berjunum upp úr hveiti. Internetið sagði mér að ef maður gerði þetta færu berin síður í klessu og dreifðu sér um kökuna. Hún er alla vega fín svona.

Bakið við 180°C í 20 mínútur í c.a 18*18 formi. Kakan er góð bæði heit og köld.