Rommkúluís

p1140108Mamma ætti að fá fálkaorðuna fyrir að láta sér detta í hug að gera rommkúluís núna um jólin.

Svo góður er þessi ís. Ég hef ekki hætt að hugsa um hann síðan á jóladag og á bóndadaginn bjó ég hann til. Með piparmyntusúkkulaðisósu því bóndinn elskar hana. Ég vissi að hann væri líka hrifinn af rommkúluísnum, sem betur fer, mig vantaði sárlega tilefni til að gera hann.

Ég held þetta verði uppáhalds ísinn minn héðan í frá og það þurfi að gera hann við öll hátíðleg tilefni. Fyrst hugsaði ég að ég myndi bara vilja búa til rommkúluís héðan í frá, en sumt á maður bara að borða á hátíðum, svo það haldist hátíðlegt. Kannski ég haldi þessum ís þar. Kannski. Það þarf varla að taka fram að þessi ís er bara fyrir ykkur ef þið fílið rommkúlur. Sem ég geri augljóslega.

Rommkúluís
Grunnuppskrift að ís sjá hér. Ég notaði rjóma í þetta skiptið en ekki kaffirjóma. Og auðvitað ekki tyrkis pebber eða súkkulaði heldur bara:
Fullt af rommkúlum, heill stór pakki í eina uppskrift. Saxaðar, hver kúla í c.a 3-4 bita. Nú eða eftir smekk.

Hrærið rommkúlunum út í ísinn áður en hann fer í frysti eða er borinn fram. Fer eftir því hvort þið notið ísvél eða ekki. Alls ekki spara rommkúlurnar, alls alls ekki.

Piparmyntusósan var ofur einföld. Einfaldlega pipp með piparmyntu (heitir víst pralín með piparmyntu núna) og smá rjómi brætt saman.

p1140110

Við erum tveggja ára!

is

Við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli kjánabangsar, við eigum afmæli í dag! Vei!

Þetta var kannski full langt gengið, væmið og asnalegt. Okkur er alveg sama, það er gaman að eiga afmæli.

Og þegar maður á afmæli þá fær maður sér ís! Alla vega stundum. Ég fær mér reyndar mun oftar ís en þegar ég á afmæli, stundum í morgunmat jafnvel, sem ætti ekki að koma ykkur lesendum á óvart.

Við Heiða erum búnar að blogga um mat í tvö ár og erum ekkert orðnar leiðar á því. Okkur finnst skemmtilegast þegar við fáum athugasemdir við uppskriftirnar okkar, sjáum að þeim er deilt og aðrir njóta þess sem við erum að föndra.

Á síðasta afmælisdegi gáfum við ykkur frekar flókna en verulega skemmtilega og safaríka uppskrift af djúpsteiktu smákökudeigi. Afmælisuppskriftin í ár er talsvert einfaldari en ekkert síðri, vanilluís með tyrkis peber og súkkulaði.  Við kjánabangsar elskum ís, súkkulaði, tyrkis peber og afmæli. Það er búið að vera mikið að gerast hjá okkur upp á síðkastið og því hefur ekki gefist mikill tími til uppskriftaþróunar og þess vegna var þessi uppskrift svo fullkomin í afmælisblogg.

Grunnuppskriftin er frá mömmu minni. Ég var mjög hissa þegar ég uppgötvaði að engin ísuppskrift á blogginu byggir á þeirri uppskrift, sem ég hef þó notað umtalsvert. Þessi grunnuppskrift er alltaf notuð á jólunum heima á Selfossi og þar er ekki slegist um ísinn. Einfaldlega vegna þess að það er alltaf passað að gera óhóflegt magn svo við þurfum þess ekki, því við gætum tekið upp á einhverju slíku ef það liti út fyrir að einhver gæti ekki troðið sig út af ís (fengi s.s. bara skammt fyrir eðlilegt fólk).

Tykis pepperís með súkkulaðibitum 

7 eggjarauður
7 msk flórsykur
1/2 líter kaffirjómi
1- tsk vanilludropar
100 g tyrkis peber
70-100 g súkkulaði að smekk, mér finnst gott að nota hjúpsúkkulaði í ís, það verður aldrei mjög hart í frystinum og mér finnst það skemmtilegra.

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan er létt og ljós. Um það bil svona:

P1130531

Brjótið brjóstsykurinn, ekki of smátt því þá blandast hann ísnum um of. Við viljum að þetta séu bitar í ísnum en ekki mulningur sem saltar alla blönduna. Mér finnst ekki gott að nota matvinnsluvél í svona, þá verður brjóstsykurinn allt of fínmulinn. Ég set hann í poka og ber hann með glerkrukku.

P1130539

Saxið súkkulaðið.

P1130540

Hrærið rjómanum saman við eggjablönduna og setjið í ísvél. Þegar ísinn er alveg að verða til bætið þið brjóstsykrinum og súkkulaðinu út í. Ef þið eigið ekki ísvél eru nokkrir hlutir í stöðunni, en ég mæli með að gera annað hvort:

  1. Nota venjulegan rjóma og stífþeyta hann. Það breytir ísnum, hann verður þyngri sem er ekkert verra, ég er bara fyrir léttari ís sjálf. Hrærið stífþeyttum rjóma saman við eggin og bætið svo súkkulaði og brjóstsykri saman við. Frystið. Gott er að hræra í ísnum endrum og eins og taka hann úr frysti nokkru áður en það á að borða hann svo hann mýkist.
  2. Nota kaffirjóma en hræra reglulega í ísnum þegar hann er að stífna. Ekki setja súkkulaðið og brjóstsykurinn út í fyrr en blandan er orðin nokkuð stíf.

Ísinn er geðveikur einn og sér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að heit súkkulaðisósa geri allan ís betri alltaf. Þannig að ég borðaði auðvitað svoleiðis með. Það náðist bara ekki á mynd því við vorum verulega gráðug í ísinn. Þess vegna er líka fótósjoppað kertið á fyrstu myndinni. Græðgin tók öll völd.

Gleðilegt kjánabangsaafmæli, takk fyrir lesturinn og haldið áfram að lesa og vera skemmtileg!

Bláberja- og baileysís

P1130243

Ég á enn fullt af berjum í frystinum. Svo vildi svo skemmtilega til að ég átti rjóma sem þurfti að klára. Ég sá að ég ,,neyddist” til að búa til ís. Alveg hræðilegt þegar maður lendir í svoleiðis. Þar sem verið er að reyna að grynnka á bláberjabirgðunum var ákveðið að gera bláberjaís.

Grunnuppskriftin af ísnum er frá mömmu og hefur verið notuð í óteljandi skipti. Klikkar aldrei nokkurntíma og er hægt að breyta og bæta endalaust. Það eina sem ég bætti við núna var baileys og bláber. Já jú kaffirjóminn er líka viðbót frá mér, ég man það núna 😉 Þetta er lítil uppskrift, það er um að gera að tvöfalda hana, ísvélin mín er bara svo lítil að ég þarf að miða uppskriftir við hana.

Bláberja- og baileysís
3 eggjarauður
3 msk flórsykur
200 ml rjómi
50 ml kaffirjómi
1 msk baileys (má sleppa, þá mæli ég með 1-2 tsk af vanilludropum í staðin)
1 -2 dl frosin bláber, eða fersk, ég átti bara frosin

Þeytið saman egg og flórsykur þar til blandan verður létt og ljós. Þeytið rjóma og blandið saman við eggjarauðublönduna ásamt kaffirjóma og baileys. Bætið bláberjunum út og setjið í ísvél. Eða í box og í frysti.

Það er fátt sem mér finnst ekki betra með súkkulaði. Það er gott að bæta súkkulaði út í uppskriftina eða bera fram með súkkulaðisósu eða ísingu.

 

Döðluís með súkkulaðibitum bara þrjú innihaldsefni!

Ég borðaði þennan ís í morgunmat. Já það var geðveikt gott. Það er æðislegt að borða ís í morgunmat. Mér er alveg sama þó það sé ekki heitt úti núna, ís í morgunmat hvenær sem er, já takk. Þið ráðið því hvenær þið borðið hann, ég gæti borðað þennan hvenær sem er. Prófið að gera súkkulaðiísingu eða súkkulaði- og hnetusmjörssósu, ómæ það myndi toppa þetta gjörsamlega.

Þetta er skammtur fyrir 1-2 það fer eftir því hversu mikinn ís þið borðið í einu. Ég færi létt með að slátra öllum skammtinum í einu. Skynsemin segir hins vegar að skammturinn sé fyrir tvo. Svo má auðvitað margfalda uppskriftina eins og manni sýnist.

Döðluís með súkkulaðibitum

125 g döðlur
1 bolli Rjómi/mjólk ég notaði 1/2 bolla léttmjólk og 1/2 bolla kaffirjóma, það hentar mínum bragðsmekk vel
25 g súkkulaði, ég keypti eitthvað æðislegt sykurlaust súkkulaði hjá Gló um daginn. Þannig að minn skammtur var án viðbætts sykurs.

P1120135

Maukið saman helminginn af vökvanum og allar döðlurnar þar til blandan verður nokkuð slétt. Það eiga s.s. ekki að vera döðlubitar. Bætið restinni af vökvanum saman við og blandið aðeins áfram. Saxið súkkulaðið eftir ykkar stærðarsmekk og látið út í. Frystið. Ég nota ísvél (ég ítreka að það þurfa allir sem borða ís að eiga ísvél). Ef þið eigið ekki ísvél er betra að taka ísinn nokkrum sinnum úr frysti og hræra í honum þar til hann er mátulega frosinn. Svo er gott að láta hann þiðna örlítið áður en hann er borðaður, að því gefnu að hann sé ekki borðaður beint úr vélinni (sem er best).

P1120141

Krækiberjarjómaís og súkkulaðiísing

P1120029

Af því að krækiberjabitarnir heppnuðust svona rosalega vel langaði mig að gera fleiri krækiberjatilraunir. Ég hef gert bláberjaís og það er rosalega gott, ég hugsa að enginn efist um það. Þessi krækiberjaís er líka æðislegur. Mér finnst fræin í krækiberjunum koma mjög skemmtilega út, maður bryður þau aðeins þannig þetta er pínu eins og að hafa hnetur í ísnum. Þetta er ekki stór uppskrift, tæplega líter en hún er mátuleg í mína ísvél:

Krækiberjarjómaís

2 1/2 bolli krækiber
1/2 bolli sykur
Smá salt
1 bolli rjómi
1 bolli mjólk
1 tsk vanilludropar

Sjóðið krækiber og sykur saman í potti þar til berin eru farin að springa talsvert. Setjið í matvinnsluvél og maukið alveg eða maukið með töfrasprota. Látið kólna aðeins. Hrærið mjólkinni, rjómanum, saltinu og vanillunni saman við og látið kólna alveg ef þið ætlið að nota ísvél. Frystið í ísvél samkvæmt leiðbeiningum með ykkar vél eða setjið í box í frysti og hrærið reglulega þar til ísinn hefur náð stífleika að ykkar smekk.

P1120025

P1120028

Borðið einan og sér eða með sósu/skel. Þessi ís er æðislegur einn og sér. Ég er hins vegar sú týpa sem finnst allt betra með sósu, alltaf. Þannig ef það er sósa í boði mun ég fá mér sósu. Nema hugsanlega keypta jarðarberjaíssósu,  ég skil ekki svoleiðis sósur, eiginlega bara sykurbragð uss. En góð súkkulaðisósa, þá erum við sko að tala saman! Þetta var frumraun mín í súkkulaðiísingargerð. Á ensku eru svona íssingar kallaðar skel eða shell. Kjörís kallar þetta hins vegar ísingu hjá sér og mér finnst það flott. Þannig ég ætla að gera það líka.

Súkkulaðiísing

160 g súkkulaði að ykkar smekk, ég var með blöndu af venjulegu konsum og 70%
40 ml kókosolía

Bræðið olíuna og súkkulaðið saman og látið kólna aðeins. Hellið yfir ykkar ís og ísingin á að stífna eftir smá stund. Eins og dýfa í ísbúð!