Djúpsteikingarpartý

Djúpsteikingarpartý?

Ef þið borðið djúpsteiktan mat á annað borð. Þá get ég ekki annað en mælt með þessu.

Himneskt.

Ég mæli líka með að allir í partýinu séu átvögl og ekki matvandir. Opinn hugur og hugmyndaflug er svo punkturinn yfir i-ið. Við djúpsteiktum 13 rétti.  Já 13. Það tók c.a 4 klst.

Ég tók bara myndir á símann og þær eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem slóu í gegn.

Flest sem við gerðum var einfalt og fljótlegt. Annað var hvorki sérlega einfalt né sérlega fljótlegt. En ég þetta var allt þess virði. Hvers bita, hver kaloría…….

Það borgar sig oftast, nánast alltaf að setja það sem maður djúpsteikir í eitthvað deig áður en það fer í pottinn. Við vorum með sætt deig fyrir eftirrétti, bjórdeig og svo egg og panko rasp. Bjórdeigið var bara 50/50 bjór og hveiti, hrært saman. Sæta deigið var deigið sem við notuðum hér.

Fyrst langar mig að segja ykkur frá djúpsteiktum eggjum og beikoni. Ég get lofað því að þetta verður gert aftur. Jafnvel oft. Þetta leit svo hræðilega út á mynd að ég átti mjög erfitt með að ákveða hvort ég ætti að hafa hana, en ok, hér er hún:

20170211_192825

Trúið mér, þetta er geggjað.

Sjóðið egg
Vefið þau með beikoni
Veltið upp úr hveiti
Dýfið í bjórdeig
Djúpsteikið við 170°C þar til deigið er farið að gyllast
Borðið strax, chili mayones eða bara venjulegt mayones passar mjög vel með.

Þetta var réttur nr. 2. Á þessum tímapunkti vorum við að spá í að sleppa öllu öðru og borða bara egg, þau voru geðveikt. En það var svo margt spennandi framundan svo það varð úr að við myndum fá okkur fleiri egg ef það yrði pláss eftir allt hitt. Sem það var svo alls ekki.

Næsta sem mig langar að segja frá er djúpsteiktur lax. Þegar við ákváðum að vera með djúpsteiktan lax leitaði ég á netinu að innblástri. Það varð fljótt ljóst að þetta er afar óalgengt og ef ég sagði fólki frá þessari hugmynd fékk ég mjög oft neikvæð viðbrögð.

En fólk. Djúpsteiktur lax kom verulega á óvart. Hann var fullkominn. Við vorum með steikur sem við skárum í bita. Mér fannst það henta betur því sneiðarnar eru yfirleitt þykkari en flök.

Lax í bitum, kryddið eftir smekk. Við notuðum fiskikrydd frá Santa Maria
Veltið upp úr hveiti
Svo pískuðu eggi
Svo panko raspi
Endurtakið

Djúpsteikið við 170°C þar til raspurinn hefur tekið smá lit. Alls alls alls ekki lengi 2-4 mín eftir stærð bitana. Okkar voru litlir.

Þriðji rétturinn sem ég ætla að segja ykkur frá er djúpsteikt nautalund. Já ójá. Sko, það er akkúrat ekkert út á þessa lund að setja. En við vorum öll sammála um að djúpsteiking gerði minnst fyrir lundina af öllu því sem við borðuðum. Hún var fullkomin, en við myndum almennt ekkert hafa fyrir því að djúpsteikja nautalund, nema við værum að halda djúpsteikingarpartý. Þar sem ég geri ráð fyrir að einhverjum langi samt að prófa þá var þetta gert svona:

Skerið nautalund í bita, c.a 3*4 cm á breidd og lengd. S.s. ekki stóra bita.
Saltið og piprið.
Veltið úr hveiti
Bjórdeigi
Panko rasp
Djúpsteikið í c.a 4 mín
Hvílið í smástund
Bernais sósa!!!
20170211_201701
Við vorum með þýska nautalund úr Bónus. Ég hafði heyrt að hún væri góð og hún er það. Hræbilleg líka. Mæli 100% með henni. Við notuðum auðvitað ekki heila lund, þær eru c.a ,5 kg. Ég sagaði hana í sundur og lét hluta þiðna. Restin er svo bara í frysti þar til næst.
Rúsínan í pylsuendanum. Rjóminn af rjómanum. Punkturinn yfir i-ið. Það besta.

Djúpsteiktur ís í smákökudeigi.

20170211_220900

Ég fékk þessa hugmyndi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tilefninu. Núna langar mig alltaf að eiga svona dásemd tilbúna í frysti og steikja einn og einn. Það er alveg hægt ef maður notar bara minni pott. Ég gæti alveg átt eftir að framkvæma það, þetta verður sko gert aftur. Þetta er svo mikið minn smekkur.

Í raun er þetta einfalt, en tekur smá tíma í undirbúning. Fyrst þarf að búa til smákökudeig og kæla það vel, helst í sólarhring. Ég notaði þetta deig, það hentaði mjög vel, ég vissi það og tók enga sénsa, en ég held samt að flest stíft smákökudeig henti vel.

Svo þarf að búa til ísskúlur. Ég var með vanillu mjúkís, bjó til kúlur með ísskeið og lét þær standa á bakka í frysti, ísinn verður harðari þannig.

Ég lét ískúlurnar vera í frysti í sólarhring, það þarf ekki svo langan tíma, en a.m.k nokkra klukkutíma. Svo tók ég smákökudeigið úr ísskápnum, skipti í jafn marga hluta og ískúlur. Flatti hvern hluta út. Tók eina ískúlu í einu úr frysti, það er mikilvægt því þær bráðna um leið og þá fer allt í klessu. Setti kúluna á deigið og vafði því utan um. Reyndi að hafa hvergi göt. Velti kúlunum í höndunum eins og ég væri að búa til snjóbolta. Ekki lengi svo ekkert bráðni.

Setti allt í frysti aftur. Í smá tíma, klukkutími er líklega nóg. Dýfði í sæta djúpsteikingardeigið og frysti aftur.

Djúpsteikti við 170°C í c.a mínútu. Ég velti fyrir mér að setja aðra umferð af djúpsteikingardeigi, þá hefði ég getað haft þetta aðeins lengur í pottinum og smákökudeigið hefði bakast aðeins meira. Þess þurfti ekki, en það er pæling. Svona var deigið hálfbakað og ísinn enn ís, flæddi ekki út um allt. Geðsjúkt. Hrikalega gott. Hefði ekki getað verið betra nema með heitri súkkulaðisósu.

20170211_220910

Rommkúluís

p1140108Mamma ætti að fá fálkaorðuna fyrir að láta sér detta í hug að gera rommkúluís núna um jólin.

Svo góður er þessi ís. Ég hef ekki hætt að hugsa um hann síðan á jóladag og á bóndadaginn bjó ég hann til. Með piparmyntusúkkulaðisósu því bóndinn elskar hana. Ég vissi að hann væri líka hrifinn af rommkúluísnum, sem betur fer, mig vantaði sárlega tilefni til að gera hann.

Ég held þetta verði uppáhalds ísinn minn héðan í frá og það þurfi að gera hann við öll hátíðleg tilefni. Fyrst hugsaði ég að ég myndi bara vilja búa til rommkúluís héðan í frá, en sumt á maður bara að borða á hátíðum, svo það haldist hátíðlegt. Kannski ég haldi þessum ís þar. Kannski. Það þarf varla að taka fram að þessi ís er bara fyrir ykkur ef þið fílið rommkúlur. Sem ég geri augljóslega.

Rommkúluís
Grunnuppskrift að ís sjá hér. Ég notaði rjóma í þetta skiptið en ekki kaffirjóma. Og auðvitað ekki tyrkis pebber eða súkkulaði heldur bara:
Fullt af rommkúlum, heill stór pakki í eina uppskrift. Saxaðar, hver kúla í c.a 3-4 bita. Nú eða eftir smekk.

Hrærið rommkúlunum út í ísinn áður en hann fer í frysti eða er borinn fram. Fer eftir því hvort þið notið ísvél eða ekki. Alls ekki spara rommkúlurnar, alls alls ekki.

Piparmyntusósan var ofur einföld. Einfaldlega pipp með piparmyntu (heitir víst pralín með piparmyntu núna) og smá rjómi brætt saman.

p1140110

Súkkulaðibúðingur, spari eða ekki

P1130890

Bloggleysi síðustu vikna skrifast á að það er vægast sagt nóg að gera hjá okkur Heiðu. Það er svo sem nóg brasað í eldhúsinu en skriftir og myndatökur hafa farist meira og minna fyrir. Við erum þó hvergi nærri hættar.

Ég er búin að borða frekar mikið af alls konar búðingum og mauki upp á síðkastið. Mér finnst þeir góðir og henta í öll mál, líka í eftirrétt. Eins og þið vitið finnst mér eftirréttir skemmtilegastir í öll mál.

Þar sem það er búið að vera brjálað að gera hef ég ekki farið reglulega út í búð og þess vegna hef ég líka notað meira úr frystinum en stundum áður. Sem er bara jákvætt, ég á til að safna dóti í frystinn ef ég sé eitthvað spennandi. Svo gleymist annað eins og gerist og gengur. Ég sá baunir þar núna sem ég var búin að steingleyma og hugsaði um svartbaunaköku sem ég elska að baka. En svo langaði mig í hana strax og hún er best daginn eftir. Þannig ég ákvað að borða bara deigið, í formi búðings.

Svo breyttist auðvitað uppskriftin þannig að úr varð ný. Og hér er hún, þetta eru c.a 2-3 skammtar.

180 g svartar baunir eða aðrar dökkar baunir
4-5 ferskar döðlur c.a 50-60 g. Eða jafn mikið af þurrkuðum sem hafa legið í vatni þar til þær eru mjúkar
50 g eplasósa/eplamauk
2 msk mjólk
2 msk sýróp
2 msk kókosolía
1 msk hnetumjöl eða annað mjöl
2 msk kakó
1 tsk vanilludropar
50 ml súkkulaði sem ykkur langar í

Maukið allt nema súkkulaði mjög vel saman þar til blandan er slétt. Ég nota matvinnsluvél og mauka fyrst allt nema þurrefni og súkkulaði. Ef þið eigið öflugri vél eða blandara þurfið þið kannski ekki að hugsa um það. Þetta myndi ég segja að væri hversdagsútgáfa af búðingnum. Ef þið ætluðuð að borða hann spari eða eruð í stuði fyrir meira nammi mæli ég með að bæta við a.m.k 1 msk af olíu og sýrópi. Og svo auðvitað bæta við súkkulaði eftir smekk.

Borðist með rjóma, mjólk, skyri eða bara eitt og sér.

Við erum tveggja ára!

is

Við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli í dag, við eigum afmæli kjánabangsar, við eigum afmæli í dag! Vei!

Þetta var kannski full langt gengið, væmið og asnalegt. Okkur er alveg sama, það er gaman að eiga afmæli.

Og þegar maður á afmæli þá fær maður sér ís! Alla vega stundum. Ég fær mér reyndar mun oftar ís en þegar ég á afmæli, stundum í morgunmat jafnvel, sem ætti ekki að koma ykkur lesendum á óvart.

Við Heiða erum búnar að blogga um mat í tvö ár og erum ekkert orðnar leiðar á því. Okkur finnst skemmtilegast þegar við fáum athugasemdir við uppskriftirnar okkar, sjáum að þeim er deilt og aðrir njóta þess sem við erum að föndra.

Á síðasta afmælisdegi gáfum við ykkur frekar flókna en verulega skemmtilega og safaríka uppskrift af djúpsteiktu smákökudeigi. Afmælisuppskriftin í ár er talsvert einfaldari en ekkert síðri, vanilluís með tyrkis peber og súkkulaði.  Við kjánabangsar elskum ís, súkkulaði, tyrkis peber og afmæli. Það er búið að vera mikið að gerast hjá okkur upp á síðkastið og því hefur ekki gefist mikill tími til uppskriftaþróunar og þess vegna var þessi uppskrift svo fullkomin í afmælisblogg.

Grunnuppskriftin er frá mömmu minni. Ég var mjög hissa þegar ég uppgötvaði að engin ísuppskrift á blogginu byggir á þeirri uppskrift, sem ég hef þó notað umtalsvert. Þessi grunnuppskrift er alltaf notuð á jólunum heima á Selfossi og þar er ekki slegist um ísinn. Einfaldlega vegna þess að það er alltaf passað að gera óhóflegt magn svo við þurfum þess ekki, því við gætum tekið upp á einhverju slíku ef það liti út fyrir að einhver gæti ekki troðið sig út af ís (fengi s.s. bara skammt fyrir eðlilegt fólk).

Tykis pepperís með súkkulaðibitum 

7 eggjarauður
7 msk flórsykur
1/2 líter kaffirjómi
1- tsk vanilludropar
100 g tyrkis peber
70-100 g súkkulaði að smekk, mér finnst gott að nota hjúpsúkkulaði í ís, það verður aldrei mjög hart í frystinum og mér finnst það skemmtilegra.

Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan er létt og ljós. Um það bil svona:

P1130531

Brjótið brjóstsykurinn, ekki of smátt því þá blandast hann ísnum um of. Við viljum að þetta séu bitar í ísnum en ekki mulningur sem saltar alla blönduna. Mér finnst ekki gott að nota matvinnsluvél í svona, þá verður brjóstsykurinn allt of fínmulinn. Ég set hann í poka og ber hann með glerkrukku.

P1130539

Saxið súkkulaðið.

P1130540

Hrærið rjómanum saman við eggjablönduna og setjið í ísvél. Þegar ísinn er alveg að verða til bætið þið brjóstsykrinum og súkkulaðinu út í. Ef þið eigið ekki ísvél eru nokkrir hlutir í stöðunni, en ég mæli með að gera annað hvort:

  1. Nota venjulegan rjóma og stífþeyta hann. Það breytir ísnum, hann verður þyngri sem er ekkert verra, ég er bara fyrir léttari ís sjálf. Hrærið stífþeyttum rjóma saman við eggin og bætið svo súkkulaði og brjóstsykri saman við. Frystið. Gott er að hræra í ísnum endrum og eins og taka hann úr frysti nokkru áður en það á að borða hann svo hann mýkist.
  2. Nota kaffirjóma en hræra reglulega í ísnum þegar hann er að stífna. Ekki setja súkkulaðið og brjóstsykurinn út í fyrr en blandan er orðin nokkuð stíf.

Ísinn er geðveikur einn og sér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að heit súkkulaðisósa geri allan ís betri alltaf. Þannig að ég borðaði auðvitað svoleiðis með. Það náðist bara ekki á mynd því við vorum verulega gráðug í ísinn. Þess vegna er líka fótósjoppað kertið á fyrstu myndinni. Græðgin tók öll völd.

Gleðilegt kjánabangsaafmæli, takk fyrir lesturinn og haldið áfram að lesa og vera skemmtileg!

Grjónagrautur með rabbabara

P1130455

Hrísgrjón og rabbabari fara rosalega vel saman. Það er eins og grjónin dragi rosalega úr því hvað rabbabarinn er súr. Ég sauð rabbabaran ekki með sérlega mikilli sætu þannig hann var alveg vel súr einn og sér en passar svona ljómandi vel með grjónunum.

Ég notaði sömu grunnuppskrift af grjónagraut og venjulega.

P1130456

Svo trítlaði ég út í garð og náði í einn stilk af rabbabara. Þessi rabbabari sem vex í garðinum mínum í Reykjavík er hálf aumingjalegur og stærstu stilkarnir eru eins og þeir minnstu hjá mömmu (þarf s.s. að ná mér í hnaus þar einn daginn). Stilkurinn var því frekar lítill, ég gleymdi að vigta hann en ég ætla að giska á að hann hafi verið 100 g í mesta lagi. Svo skar ég hann í bita og setti í pott ásamt c.a 1 dl af vatni og 1-2 msk via health strásætu með stevíu. Það má líka nota sykur í sama magni eða sukrin og þá smá stevíudropa. Svo sauð ég þetta þar til rabbabarinn var orðinn að hálfgerðu mauki, eins og þið sjáið á myndunum var hann ekki orðinn að sultu. Þetta hefur tekið c.a 10 mínútur.

Svo beið þetta í ísskáp yfir nótt og var borðað í morgunmat. Ég geymi grautinn og rabbabaran í sitthvoru lagi því mig langaði að hafa þetta frekar snyrtilegt (þar til ég blandaði öllu saman), grauturinn hefði líklega orðið rauður ef ég hefði geymt þetta saman.

P1130459

Myndirnar eru fyrir og eftir skreytingu. Ég bætti við smá mjólk, kakónibbum, gervirjóma, kasjúhnetum og súkkulaðibita. Og já, ég sá apríkósukjarnasmjör í Hagkaup um daginn, ég reyndi ekki einu sinni að hemja mig og keypti það auðvitað. Það var smá skvetta af því þarna líka. Ekkert af skrautinu er nauðsynlegt en mér finnst rosalega gott að hafa smá ,,kröns” á grautnum mínum. Svo líklega er skrautið nauðsynlegt fyrir mig…..

Verði ykkur að góðu!