Djúpsteikingarpartý

Djúpsteikingarpartý?

Ef þið borðið djúpsteiktan mat á annað borð. Þá get ég ekki annað en mælt með þessu.

Himneskt.

Ég mæli líka með að allir í partýinu séu átvögl og ekki matvandir. Opinn hugur og hugmyndaflug er svo punkturinn yfir i-ið. Við djúpsteiktum 13 rétti.  Já 13. Það tók c.a 4 klst.

Ég tók bara myndir á símann og þær eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem slóu í gegn.

Flest sem við gerðum var einfalt og fljótlegt. Annað var hvorki sérlega einfalt né sérlega fljótlegt. En ég þetta var allt þess virði. Hvers bita, hver kaloría…….

Það borgar sig oftast, nánast alltaf að setja það sem maður djúpsteikir í eitthvað deig áður en það fer í pottinn. Við vorum með sætt deig fyrir eftirrétti, bjórdeig og svo egg og panko rasp. Bjórdeigið var bara 50/50 bjór og hveiti, hrært saman. Sæta deigið var deigið sem við notuðum hér.

Fyrst langar mig að segja ykkur frá djúpsteiktum eggjum og beikoni. Ég get lofað því að þetta verður gert aftur. Jafnvel oft. Þetta leit svo hræðilega út á mynd að ég átti mjög erfitt með að ákveða hvort ég ætti að hafa hana, en ok, hér er hún:

20170211_192825

Trúið mér, þetta er geggjað.

Sjóðið egg
Vefið þau með beikoni
Veltið upp úr hveiti
Dýfið í bjórdeig
Djúpsteikið við 170°C þar til deigið er farið að gyllast
Borðið strax, chili mayones eða bara venjulegt mayones passar mjög vel með.

Þetta var réttur nr. 2. Á þessum tímapunkti vorum við að spá í að sleppa öllu öðru og borða bara egg, þau voru geðveikt. En það var svo margt spennandi framundan svo það varð úr að við myndum fá okkur fleiri egg ef það yrði pláss eftir allt hitt. Sem það var svo alls ekki.

Næsta sem mig langar að segja frá er djúpsteiktur lax. Þegar við ákváðum að vera með djúpsteiktan lax leitaði ég á netinu að innblástri. Það varð fljótt ljóst að þetta er afar óalgengt og ef ég sagði fólki frá þessari hugmynd fékk ég mjög oft neikvæð viðbrögð.

En fólk. Djúpsteiktur lax kom verulega á óvart. Hann var fullkominn. Við vorum með steikur sem við skárum í bita. Mér fannst það henta betur því sneiðarnar eru yfirleitt þykkari en flök.

Lax í bitum, kryddið eftir smekk. Við notuðum fiskikrydd frá Santa Maria
Veltið upp úr hveiti
Svo pískuðu eggi
Svo panko raspi
Endurtakið

Djúpsteikið við 170°C þar til raspurinn hefur tekið smá lit. Alls alls alls ekki lengi 2-4 mín eftir stærð bitana. Okkar voru litlir.

Þriðji rétturinn sem ég ætla að segja ykkur frá er djúpsteikt nautalund. Já ójá. Sko, það er akkúrat ekkert út á þessa lund að setja. En við vorum öll sammála um að djúpsteiking gerði minnst fyrir lundina af öllu því sem við borðuðum. Hún var fullkomin, en við myndum almennt ekkert hafa fyrir því að djúpsteikja nautalund, nema við værum að halda djúpsteikingarpartý. Þar sem ég geri ráð fyrir að einhverjum langi samt að prófa þá var þetta gert svona:

Skerið nautalund í bita, c.a 3*4 cm á breidd og lengd. S.s. ekki stóra bita.
Saltið og piprið.
Veltið úr hveiti
Bjórdeigi
Panko rasp
Djúpsteikið í c.a 4 mín
Hvílið í smástund
Bernais sósa!!!
20170211_201701
Við vorum með þýska nautalund úr Bónus. Ég hafði heyrt að hún væri góð og hún er það. Hræbilleg líka. Mæli 100% með henni. Við notuðum auðvitað ekki heila lund, þær eru c.a ,5 kg. Ég sagaði hana í sundur og lét hluta þiðna. Restin er svo bara í frysti þar til næst.
Rúsínan í pylsuendanum. Rjóminn af rjómanum. Punkturinn yfir i-ið. Það besta.

Djúpsteiktur ís í smákökudeigi.

20170211_220900

Ég fékk þessa hugmyndi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tilefninu. Núna langar mig alltaf að eiga svona dásemd tilbúna í frysti og steikja einn og einn. Það er alveg hægt ef maður notar bara minni pott. Ég gæti alveg átt eftir að framkvæma það, þetta verður sko gert aftur. Þetta er svo mikið minn smekkur.

Í raun er þetta einfalt, en tekur smá tíma í undirbúning. Fyrst þarf að búa til smákökudeig og kæla það vel, helst í sólarhring. Ég notaði þetta deig, það hentaði mjög vel, ég vissi það og tók enga sénsa, en ég held samt að flest stíft smákökudeig henti vel.

Svo þarf að búa til ísskúlur. Ég var með vanillu mjúkís, bjó til kúlur með ísskeið og lét þær standa á bakka í frysti, ísinn verður harðari þannig.

Ég lét ískúlurnar vera í frysti í sólarhring, það þarf ekki svo langan tíma, en a.m.k nokkra klukkutíma. Svo tók ég smákökudeigið úr ísskápnum, skipti í jafn marga hluta og ískúlur. Flatti hvern hluta út. Tók eina ískúlu í einu úr frysti, það er mikilvægt því þær bráðna um leið og þá fer allt í klessu. Setti kúluna á deigið og vafði því utan um. Reyndi að hafa hvergi göt. Velti kúlunum í höndunum eins og ég væri að búa til snjóbolta. Ekki lengi svo ekkert bráðni.

Setti allt í frysti aftur. Í smá tíma, klukkutími er líklega nóg. Dýfði í sæta djúpsteikingardeigið og frysti aftur.

Djúpsteikti við 170°C í c.a mínútu. Ég velti fyrir mér að setja aðra umferð af djúpsteikingardeigi, þá hefði ég getað haft þetta aðeins lengur í pottinum og smákökudeigið hefði bakast aðeins meira. Þess þurfti ekki, en það er pæling. Svona var deigið hálfbakað og ísinn enn ís, flæddi ekki út um allt. Geðsjúkt. Hrikalega gott. Hefði ekki getað verið betra nema með heitri súkkulaðisósu.

20170211_220910

Sesamlax

P1140002Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þessa uppskrift. Ef þið hafið lesið bloggið einhverntíman vitið þið að ég elska lax. Ekki jafn mikið og ég elska súkkulaði en mikið samt. Lax er svo þægilegt hráefni að það þarf að leggja sig fram við að klúðra honum, nú eða ofelda hann, það er líka góð leið til að eyðileggja mat. En ef þið passið það þá er lax skotheldur.

Ég kaupi ferskan lax yfirleitt í Bónus eða Krónunni, það hefur reynst mér vel. Ég hef aldrei fengið vondan lax frá þessum stöðum og hann er ódýrari en annarsstaðar. Ég hins vegar kaupi ekki frosinn lax því ég hef lent í einhverju ógeðslegu slorbragði af svoleiðis og tek alls ekki áhættuna.

Sesamolía er hugsanlega framandi hráefni í augum einhverra en hún fæst orðið alls staðar, ég er t.d. nokkuð viss um að mín er úr Bónus, frá Sollu. Hún er mjög bragðmikil svo passið að nota ekki mikið ef þið eruð ekki viss um hvernig ykkur líkar hún.

Sesamlax fyrir c.a 2

400-500 g laxaflak
2-3 tsk sesamolía
Salt og pipar
Lime í bátum

Meðlæti eftir smekk. Ostafylltir sveppir og steinseljurótar,,franskar” pössuðu mjög vel. Við gætum alveg borðað ostafyllta sveppi sem sér máltíð, nammi.

Hellið olíunni yfir laxinn, saltið og piprið. Bakið laxinn við 180°C í c.a 20 mín. Kreistið lime yfir og borðið.

Fiskur með asískum kryddum

Foreldrar mínir voru í Víetnam og Kambódíu fyrir nokkrum vikum síðan. Þau gáfu mér krydd þegar þau komu heim. Ég kann verulega að meta svoleiðis, það er alltaf hægt að nota krydd og mér finnst sérstaklega skemmtilegt að eignast ný krydd. Ég safna líka mismunandi tegundum af sinnepi og bbq sósum, en það er önnur saga.

P1130887

Mamma og pabbi gáfu mér galangal, lemmongrass duft, saffran og svartan pipar. Lemmongrassduft hafði ég aldrei heyrt um hvað þá prófað. Ég hef ekki hugmynd um hvort það fæst hér á landi en það er allt í lagi, það má nota ferskt sítrónugras í staðinn eða rífa sítrónu/lime börk og kreista smá safa út í réttinn. Það kemur ekki eins út en er í sömu átt og auðvitað gott.

1/2 laukur, skorinn
c.a 100 g hvítkál skorið frekar fínt í strimla
4 gulrætur skornar í strimla
nokkrir kubbar frosið spínat. Eða nokkrar lúkur ferskt.
1 dós kókosmjólk, ég notaði létta
1 tsk galangal duft ( ég er nokkuð viss um að það er hægt að fá þetta hér, giska á sérverslanir með asískar vörur)
1 msk lemmongrassduft
1 tsk rautt karrímauk
1 msk hosin sósa
1 tsk ostrusósa
1 tsk sýróp eða sykur
c.a 500 g hvítur fiskur
Sítrónusafi
Mýkið grænmetið á pönnu eða í pott í smá kókosolíu, eða annarri olíu. Mig langaði í kókosbragðið svo ég notaði kókosolíu. Bætið við kókosmjólk, kryddum og sósum og sjóðið aðeins niður. Skerið fiskinn í bita og sjóðið áfram í smá stund, 2-3 mínútur. Berið fram með grjónum, salati, kínóa eða einhverju öðru sem ykkur langar í og kreistið sítrónusafa yfir diskinn.

P1130885

Lax með súrsuðum sítrónum

Ísskápstiltekt. Eða eitthvað í þá áttina. Ég þoli ekki þegar ég kaupi eitthvað út af ákveðinni uppskrift og það skemmist svo því ég þarf ekki að nota það allt. Eitthvað sem flestir kannast við. Frekar leita ég að leið til að nota hráefnið.

Um daginn gerði ég kjúklingarétt sem í voru súrsaðar sítrónur (held það sé rétta íslenskan yfir perserved lemons, þó mér finnist verulega skrítið að tala um súrsaða sítrusávexti). Þær eru stundum í norður afrískum uppskriftum og ég hef líka séð þær í ítölskum. Skemmtilegt hráefni. Það var alveg ein sítróna í uppskriftinni sem ég gerði, en mun fleiri í krukkunni. Þetta geymist nú sæmilega sem betur fer. Ég skar eina út í steikt grænmeti um daginn, ég man ekki nánari útlistun á því. En betur má ef duga skal, þ.e til að klára krukkuna.

P1130874

Lax og sítrónur fara vel saman, það var lax í matinn og ég náði að nota tvær sítrónur, þrjár hefðu meira að segja líklega verið í lagi. Ef þið sitjið uppi með afgang af svona sítrónum, þá get ég mælt með þessari nýtingu. Þess má geta að áður en ég fann svona sítrónur hef ég samt gert uppskriftir með þeim, ég notaði bara sítrónur í staðinn og minna en uppskriftin sagði til um. Það var gott, örugglega öðruvísi en það átti að vera en gott samt, virkaði alla vega í þeirri uppskrift sem ég var að gera þá. Ég efast því um þið eyðileggið matinn þó þið notið ekki súrsaðar sítrónur, það verður bara allt öðruvísi.

Lax með súrsuðum sítrónum

500 g lax
2 súrsaðar, skornar frekar smátt
1 tsk dill
1 msk þurrkuð steinselja
1 msk hunang
Sólblómafræ eftir smekk
Smá salt

Blandið saman kryddum og sítrónum og smyrjið yfir laxinn. Dreifið fræjunum yfir. Bakið við 160°C á undir og yfir hita í 15-20 mínútur. Lengur ef flakið er þykkt.

Meðlætið að þessu sinni voru steiktar strengjabaunir, laukur, döðlur og fíkjur. Kryddað með smá papriku, soyasósu og chilikryddi. Mango chutney var svo punkturinn yfir i-ið.

P1130875

Sterkur lax sem gleymdist að mynda

Ekki mest spennandi færslutitillinn. En fiskurinn var svo góður að ég ætla bara að setja uppskriftina hér. Þið afsakið myndaleysið. Það sem gerðist var að ég kom heim þreytt og rugluð, hugsaði í smástund hvað ég ætlaði að gera, skrifaði það niður og framkvæmdi. Át svo fiskinn og mundi svo að það ætti að mynda hann fyrir bloggið. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það gerist. Yfirleitt geri ég þá bara uppskriftina aftur, en ég er búin að borða lax þrisvar í þessari viku svo það verður líklega einhver smá bið þar til það verður lax aftur í matinn þó ég hafi notið hvers bita.

Lax með chili og engifer

1 stórt flak lax
1 dl ab mjólk
1 msk mayones (hellmann´s light)
1 tsk sambal olek
1 cm ferskt engifer, c.a
1 msk mango- eða engifer chutney
Maukið allt saman í matvinnsluvél og smyrjið á laxinn. Bakið við 160°C í 20-25 mínútur eftir þykkt fisksins.

Við bárum fiskinn fram með rófu,,frönskum”, þ.e rófum sem voru skornar eins og franskar kartöflur og steiktar í olíu. Ég get alveg mælt með því.