Djúpsteikingarpartý

Djúpsteikingarpartý?

Ef þið borðið djúpsteiktan mat á annað borð. Þá get ég ekki annað en mælt með þessu.

Himneskt.

Ég mæli líka með að allir í partýinu séu átvögl og ekki matvandir. Opinn hugur og hugmyndaflug er svo punkturinn yfir i-ið. Við djúpsteiktum 13 rétti.  Já 13. Það tók c.a 4 klst.

Ég tók bara myndir á símann og þær eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en mig langar að segja ykkur frá nokkrum hlutum sem slóu í gegn.

Flest sem við gerðum var einfalt og fljótlegt. Annað var hvorki sérlega einfalt né sérlega fljótlegt. En ég þetta var allt þess virði. Hvers bita, hver kaloría…….

Það borgar sig oftast, nánast alltaf að setja það sem maður djúpsteikir í eitthvað deig áður en það fer í pottinn. Við vorum með sætt deig fyrir eftirrétti, bjórdeig og svo egg og panko rasp. Bjórdeigið var bara 50/50 bjór og hveiti, hrært saman. Sæta deigið var deigið sem við notuðum hér.

Fyrst langar mig að segja ykkur frá djúpsteiktum eggjum og beikoni. Ég get lofað því að þetta verður gert aftur. Jafnvel oft. Þetta leit svo hræðilega út á mynd að ég átti mjög erfitt með að ákveða hvort ég ætti að hafa hana, en ok, hér er hún:

20170211_192825

Trúið mér, þetta er geggjað.

Sjóðið egg
Vefið þau með beikoni
Veltið upp úr hveiti
Dýfið í bjórdeig
Djúpsteikið við 170°C þar til deigið er farið að gyllast
Borðið strax, chili mayones eða bara venjulegt mayones passar mjög vel með.

Þetta var réttur nr. 2. Á þessum tímapunkti vorum við að spá í að sleppa öllu öðru og borða bara egg, þau voru geðveikt. En það var svo margt spennandi framundan svo það varð úr að við myndum fá okkur fleiri egg ef það yrði pláss eftir allt hitt. Sem það var svo alls ekki.

Næsta sem mig langar að segja frá er djúpsteiktur lax. Þegar við ákváðum að vera með djúpsteiktan lax leitaði ég á netinu að innblástri. Það varð fljótt ljóst að þetta er afar óalgengt og ef ég sagði fólki frá þessari hugmynd fékk ég mjög oft neikvæð viðbrögð.

En fólk. Djúpsteiktur lax kom verulega á óvart. Hann var fullkominn. Við vorum með steikur sem við skárum í bita. Mér fannst það henta betur því sneiðarnar eru yfirleitt þykkari en flök.

Lax í bitum, kryddið eftir smekk. Við notuðum fiskikrydd frá Santa Maria
Veltið upp úr hveiti
Svo pískuðu eggi
Svo panko raspi
Endurtakið

Djúpsteikið við 170°C þar til raspurinn hefur tekið smá lit. Alls alls alls ekki lengi 2-4 mín eftir stærð bitana. Okkar voru litlir.

Þriðji rétturinn sem ég ætla að segja ykkur frá er djúpsteikt nautalund. Já ójá. Sko, það er akkúrat ekkert út á þessa lund að setja. En við vorum öll sammála um að djúpsteiking gerði minnst fyrir lundina af öllu því sem við borðuðum. Hún var fullkomin, en við myndum almennt ekkert hafa fyrir því að djúpsteikja nautalund, nema við værum að halda djúpsteikingarpartý. Þar sem ég geri ráð fyrir að einhverjum langi samt að prófa þá var þetta gert svona:

Skerið nautalund í bita, c.a 3*4 cm á breidd og lengd. S.s. ekki stóra bita.
Saltið og piprið.
Veltið úr hveiti
Bjórdeigi
Panko rasp
Djúpsteikið í c.a 4 mín
Hvílið í smástund
Bernais sósa!!!
20170211_201701
Við vorum með þýska nautalund úr Bónus. Ég hafði heyrt að hún væri góð og hún er það. Hræbilleg líka. Mæli 100% með henni. Við notuðum auðvitað ekki heila lund, þær eru c.a ,5 kg. Ég sagaði hana í sundur og lét hluta þiðna. Restin er svo bara í frysti þar til næst.
Rúsínan í pylsuendanum. Rjóminn af rjómanum. Punkturinn yfir i-ið. Það besta.

Djúpsteiktur ís í smákökudeigi.

20170211_220900

Ég fékk þessa hugmyndi fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tilefninu. Núna langar mig alltaf að eiga svona dásemd tilbúna í frysti og steikja einn og einn. Það er alveg hægt ef maður notar bara minni pott. Ég gæti alveg átt eftir að framkvæma það, þetta verður sko gert aftur. Þetta er svo mikið minn smekkur.

Í raun er þetta einfalt, en tekur smá tíma í undirbúning. Fyrst þarf að búa til smákökudeig og kæla það vel, helst í sólarhring. Ég notaði þetta deig, það hentaði mjög vel, ég vissi það og tók enga sénsa, en ég held samt að flest stíft smákökudeig henti vel.

Svo þarf að búa til ísskúlur. Ég var með vanillu mjúkís, bjó til kúlur með ísskeið og lét þær standa á bakka í frysti, ísinn verður harðari þannig.

Ég lét ískúlurnar vera í frysti í sólarhring, það þarf ekki svo langan tíma, en a.m.k nokkra klukkutíma. Svo tók ég smákökudeigið úr ísskápnum, skipti í jafn marga hluta og ískúlur. Flatti hvern hluta út. Tók eina ískúlu í einu úr frysti, það er mikilvægt því þær bráðna um leið og þá fer allt í klessu. Setti kúluna á deigið og vafði því utan um. Reyndi að hafa hvergi göt. Velti kúlunum í höndunum eins og ég væri að búa til snjóbolta. Ekki lengi svo ekkert bráðni.

Setti allt í frysti aftur. Í smá tíma, klukkutími er líklega nóg. Dýfði í sæta djúpsteikingardeigið og frysti aftur.

Djúpsteikti við 170°C í c.a mínútu. Ég velti fyrir mér að setja aðra umferð af djúpsteikingardeigi, þá hefði ég getað haft þetta aðeins lengur í pottinum og smákökudeigið hefði bakast aðeins meira. Þess þurfti ekki, en það er pæling. Svona var deigið hálfbakað og ísinn enn ís, flæddi ekki út um allt. Geðsjúkt. Hrikalega gott. Hefði ekki getað verið betra nema með heitri súkkulaðisósu.

20170211_220910

Hábítur í skál

P1130529

Einhversstaðar sá ég orðið hábítur sem íslenskun á brunch. Hádegismatur og árbítr = hábítur. Ágætis orð. Þetta er svona hábítur og allt saman í einni skál.

Og nú geng ég líklega endanlega fram af einhverjum með undarlegri matarsamsetningu. Ég bendi ykkur á að þetta er mjög girnilegt á myndinni.

Þetta er það sem getur gerst þegar mig langar í allt og get ekki ákveðið hvernig á að velja hvað verður í matinn. Þess vegna borðaði ég hrærð egg með nektarínu, smá skyri og súkkulaði í hádegismat/hábít um daginn.

Og vitið þið hvað? Þetta var  mjög gott og það kom mér á óvart að mér fannst þetta bara ekkert skrítið. Svo skemmir auðvitað ekki að þetta er mjög hollt (súkkulaði er auðvitað hollt í réttu magni).

Einn hábítur með öllu í skál:

1 egg
1 eggjahvíta, eða annað egg
Smá skvetta mjólk
1 nektarína
Smá skyr
Gervirjómi, súkkulaði, hnetur og annað skraut eftir smekk

Skerið nektarínuna og setjið í skál. Hrærið eggin og eldið, mér finnst best þau séu ekki mikið elduð. Hellið yfir ávöxtin og skreytið að smekk með skyri, rjóma ofl.

P1130528

Eggjakaka með rækjum, ananas og maís

P1130041

Ég hef áður rætt um ást mína á eggjakökum. Ef ekki þá segi ég bara aftur að ég er mjög hrifin af þeim. Aðallega ofnbökuðum samt. Ég veit ekki af hverju mér hefur aldrei dottið í hug að setja rækjur í eggjaköku, eins og ég er hrifin af rækjum.

Mér áskotnaðist bókin Úlfar eldar fyrir nokkru og í henni eru nokkrar eggjakökuuppskriftir, þar á meðal ein með rækjum, þaðan kom s.s. hugmyndin. Það eina sem þessi uppskrift á hins vegar sameiginlegt með þeirri er að innihalda bæði egg og rækjur. Uppskriftin er passleg fyrir tvo með meðlæti. Við vorum með steiktar nípur og salat.

Eggjakaka með rækjum, ananas og maís 

150 g rækjur
1 laukur, saxaður
1 dl frosinn maís
1 dl ananas – ég notaði frosinn
4-5 niðurskornir sólþurrkaðir tómatar
3 egg og 3 eggjahvítur eða 1-2 egg í viðbót
c.a 100 g rifinn ostur
Oregano og basilika eða annað krydd eftir smekk

Steikið laukinn upp úr smá olíu. Hrærið saman eggjum, eggjahvítum og ost og bætið svo ost út í. Bætið restinni af hráefnunum á pönnuna og hrærið. Hellið eggjunum yfir, hrærið og setjið svo í eldfast mót. Ég nota sílíkonbökunarform. Bakið við 180°C í 30 mínútur eða þar til kakan er þurr að ofan.

P1130037

Heitur réttur í muffinsformum

Munið þið eftir heita réttinum? Ég baka hann oft líka í muffinsformum. Þá hentar hann einstaklega vel í bröns. Reyndar líka í kvöldmat eða hvenær sem er en hann er mjög fallegur á borði í muffinsformum.

Ég nota alltaf silikonmuffinsform í þetta og hef ekki prófað að nota öðruvísi. Það festist ekkert við sílíkonformin sem gerir þetta afar einfalt.

Notið nákvæmlega sömu aðferð og við heita réttinn. Nema í staðinn fyrir að setja blönduna í stór form notið þið muffinsform. Ég nota ausu til að hella blöndunni í formin. Bakið við 180°C í 20-30 mínútur eða þar til kökurnar virðast vera stífar og þurrar.

Sósur í alls konar útgáfum eru rosa góðar með þessum rétt. Þessi bröns var með sósufólki og ég held við höfum haft 4 tegundir af sósum á borðinu! Bbq, sinnepssósu, sinnep og meira að segja hlöllasósu.

Njótið!

P1120570

Bökuð egg

2014-09-20 14.25.25

Þegar maður vill smá lúxus um helgar en nennir hreinlega ekki neinu þá er þessu uppskrift algjör snilld. Fullkomið með ristuðu brauði og jafnvel beikoni sem bröns. Það er líka hvorki neitt mál að stækka eða minnka uppskriftina, svo lengi sem að þú átt eldfast ílát sem að eggin passa í þá ertu í góðum málum. Ég notaði sjálf ramekin og finnst það mjög heppilegt fyrir eggin þar sem að stærðin passaði vel. Ég set rifinn ost í botninn á ramekininu en auðvitað má sleppa honum eða setja eitthvað allt annað í staðinn eins og td. eldaða kartöflubita, grænmeti eða stökkt beikon. Rjóminn er líka algjörlega valfrjáls og að sleppa honum ætti alls ekki að koma niður á eggjunum.

2014-09-20 13.57.58

Bökuð egg
fyrir 2

4 egg
rifinn ostur
1 msk rjómi
Smjör
Salt
Nýmalaður pipar

Byrjaðu á að smyrja ramekin (eða það eldfasta ílát sem að þú ert að nota) vel að innan með smjöri. Settu rifinn ost í botninn á forminu, eftir smekk. Ég setti nóg til að lauslega hyljabotninn á forminu. Brjóttu eggin og settu þau í formið, yfir ostinn. Ég brýt þau yfirleitt fyrst í glas til að vera alveg viss um að það fari engin skurn með. Settu hálfa msk af rjóma yfir eggin, saltaðu svo og pipraðu eftir smekk. Eggin eru bökuð við 160°C í 12 mínútur. Ég bakaði mín í vatnsbaði þe. ég setti ramekinin í eldfast mót sem að ég hálf fyllti með sjóðandi vatni áður en ég stakk þeim inn í ofn. Það er alveg hægt að sleppa vatnsbaðinu, ég hef sjálf oft sleppt því, en það hjálpar við að dreifa hitanum jafnar um eggin. Ég mundi fylgjast vel með eggjunum síðustu mínúturnar svo að þau ofbakist ekki. Tímaviðmiðið hér fer auðvitað eftir mínum ofni og miðast að því að fólk vilji lin egg. Þetta er alveg æðislegt á laugardagsmorgni með ristuðu brauði. Verði ykkur að góðu!

2014-09-20 14.24.18