Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Döðluterta með karamellusósu – Sigurbjargarútgáfa

P1140028

Ég hugsa að flestir kannist við döðlutertu með karamellusósu. Þær eru frekar öruggt bakkelsi, mjög einfaldar og nánast allir elska þær.

Mig langaði í döðlutertu með karamellusósu en mig langaði ekki í hefðbundna. Mig langaði í svoleiðis köku sem ég mætti borða í morgunmat. Því eins og þið vitið vil ég helst af öllu allar kökur séu æðislegar á bragðið og nógu hollar til að borða í morgunmat.

Og þar sem ég er að segja ykkur frá uppskriftinni þá er alveg ljóst að hún heppnaðist mjög vel. Eiginlega allt of vel því hún hvarf mjög fljótt. Ég myndi hiklaust baka þessa köku fyrir afmæli eða kaffiboð, það mun enginn vita að hún sé eitthvað hollari en aðrar döðlutertur.

P1140021

Kakan

1/2 bolli döðlur – tvískipt
1/4 bolli súkkulaði
1 dl hveiti
1 dl eplasósa
1 egg
1 /2 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar
Láta 1/4 bolla af döðlum liggja í smá vatni yfir nótt. Eða sjóðið þær í smástund í smá vatni og látið kólna. Hrærið þar til döðlurnar verða að mauki eða maukið í matvinnsluvél. Blandið restinni af hráefnum saman við og hrærið þar til allt er blandað, ekki hræra of mikið. Bakið í 20 mínútur við 200°C í 18-20 cm formi.

Karamellusósa

1/4 bolli ferskar döðlur, eða þurrkaðar sem hafa legið í vatni eða verið soðnar.
1 msk kasjúsmjör, eða möndlusmjör. Ég þori ekki að ábyrgjast hvernig annað hnetusmjör kæmi út.
Karamellubragðefni ef þið viljið, karamelludropar eða karamellustevía. Ég var með karamellu torani sýróp. Mér finnst betra að vera með eitthvað auka karamellubragð, en það er smekksatriði.

Maukið allt saman í blandara/matvinnsluvél þar til allt er slétt og fínt. Hellið yfir kökuna þegar hún er orðin köld. Nema þið ætlið að borða hana heita.

P1140025

Rabbabaraostakökubitar

P1140005Ný rabbabarauppskrift! Og þessi er sko ekki af verri endanum.

Sjáið þetta.

P1140003

Hversu girnilegt?

Við vorum á ferðalagi fyrir norðan í júní og fórum inn á yndislegt kaffihús á Ólafsfirði. Þar fengum við mjög góða köku, sem var ekki með rabbabara. Það var hins vegar til sölu rabbabaraostakaka. Hún var með kexbotni ef ég man rétt, svo ostakaka og rabbabarahlaup ofan á. Ef ég man rétt. Ég hugsaði að þetta væri nú sniðugt og örugglega gott og auðvitað að ég þyrfti að prófa rabbabaraostakökueitthvað.

Svo hér er mín útgáfa. Ekkert lík þeirri sem ég sá á kaffihúsinu. Ég bauð vinum í heimsókn upp á hana og fékk mikið hrós fyrir frá öllum og sérstaklega mikið frá sérstökum rabbabaraaðdáanda. Ég tel því alveg óhætt að mæla með henni. Mér finnst hún persónulega sjúklega góð.

Athugið að gera þessa daginn áður en þið ætlið að bera hana fram, eða a.m.k. nógu löngu áður til að hún geti verið orðin alveg köld. Það er alveg nauðsynlegt.

Kakan er gerð í þremur hlutum, en er samt fljótleg, ég held þetta hafi tekið samtals klukkutíma. Ég bakaði kökuna er ferköntuðu formi og skar svo í bita. Það má alveg baka hana í kringlóttu smelluformi og skera bara í sneiðar, skiptir engu máli en þetta hentaði í mínu boði.

Botn:
40 g brætt smjör
10-12 mcvites caramel kex (eða annað gott kex)
Malið kexið og smjörið saman og þrýstið í botninn á 20×20 cm formi.

Snapchat-8882737928463261488

Rabbabaramauk
200 g rabbabari
100 g sykur

Skerið rabbabaran eða rífið í matvinnsluvél. Sjóðið þar til blandan er orðin að mauki. Ég gerði þetta í örbylgjuofni og það tók nokkrar mínútur. Látið kólna aðeins og hellið svo yfir botninn. Athugið að maukið er líklega frekar þunnt svo ef þið eruð með lausbotna form er nauðsynlegt að klæða það að innan svo það leki ekki.

Snapchat-3127961677601837662

Snapchat-3277977158334071163

Kakan

200 g rjómaostur
100 g skyr
50 g sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
1 msk hveiti
Karamellukurl (súkkulaðihúðaða frá Nóa) eða saxað súkkulaði eftir smekk

Þeytið allt vel saman og hellið yfir rabbabaramaukið. Bakið í 30 mínútur við 180°C. Takið úr ofninum og látið kólna aðeins. Dreifið karamellukurli yfir eða súkkulaði meðan kakan er enn a.m.k volg svo kurlið bráðni aðeins á kökunni. Ég vildi s.s. að það festist við, þess vegna mátti kakan ekki vera orðin köld.

Kælið kökuna alveg og geymið í ísskáp þar til hún er borin fram.

 

Bollakökur með karamellurjómaostakremi fylltar með sætu rabbabaramauki

P1130972

Hrikalega er þetta langt nafn. En þetta eru líka hrikalega góðar kökur. Ég næstum missti mig og át allar í einu. Mig langað að gleyma allri skynsemi og henda mér í sykurlaugina því þetta væri bara of gott. Við skulum halda okkur við þá sögu að það hafi ekki gerst.

Þrátt fyrir afar langt og óþjált nafn eru þetta ekkert sérlega flóknar kökur, svona miðað við að vera bæði fylltar og með kremi. Ég gerði allt of mikið krem og allt of mikið rabbabaramauk. Þegar þetta er skrifað er ég ekki búin að ákveða hvort ég geri annan skammt af kökum og noti afganginn á þær eða búi til nýja uppskrift handa ykkur. Bæði er mjög freistandi. Ég held ég þurfi að sofa á því.

En hér er uppskriftin, hún gerir c.a 12-15 kökur. Ég gerði bara hálfa uppskrift þegar ég bakaði kökurnar. Og nei ég á ekki allt of mikið krem því ég gerði gerði heila kremuppskrift. Þetta er bara stór kremuppskrift. Mjög glöggir lesendur átta sig á að þetta er sama kökuuppskrift og svipuð kremuppskrift og hér.

Kökurnar

1 ½ bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
110 g smjör við stofuhita
Kúfaður ½ bolli púðursykur
2 egg við stofuhita
1 tsk vanilludropar, eða karamelludropar
½ bolli og 2 msk súrmjólk (ab mjólk)

Hitið ofninn í 160°C. Hrærið saman hveiti og lyftidufti.  Hrærið saman smjör og sykur í annarri skál þar til blandan er ljós og smá loftkennd. Bæði egginu við einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið því næst vanilludropunum út í. Hrærið þurrefnunum saman við blautefnin í þremur hollum. Hellið súrmjólkinni saman við smátt og smátt á milli þess sem þið bætið þurrefnunum saman við. Passið að hræra ekki of mikið, bara blanda saman. Setjið í muffinsform. Ég nota sílikonform og finnst það lang best, þá festist ekkert við og kökurnar halda vel lagi. Fyllið formin að ¾ og bakið í um það bil 25 mín eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn út.

Látið kökurnar kólna.

Meðan kökurnar eru að bakast gerið þið rabbabaramauk og krem.

Rabbabaramauk

Rifinn eða vel saxaður rabbabari
Sykur

Saxið eða rífið rabbabarann, ég reif minn í matvinnsluvél. Setjið í pott ásamt sykri. Hafið jafn mikið af sykri og rabbabara, þ.e jafn mörg grömm. Ég gerði allt allt of mikið, c.a 300 g af hvoru. 100 g af hvoru eða jafnvel 50 er nærri lagi. En þetta er gott mauk, þið notið það bara í eitthvað annað ef þið gerið of mikið. Sjóðið þar til sykurinn er bráðnaður og blandan er aðeins farin að þykkna, það tekur ekki langan tíma, athugið að maukið á ekki að verða eins og sulta, þetta er miklu þynnra. Látið kólna.

Þegar kökurnar eru orðnar kaldar og maukið líka skerið þið holur í kökurnar. Þ.e skerið toppinn af þeim og reynið að gera djúpa holu í leiðinni án þess að skera í gegnum botninn. Setjið rabbabaramauk í holuna og setjið lokið aftur yfir. Það komst líklega matskeið í hverja holu hjá mér.

Karamellurjómaostakrem

¼ bolli sykur
2 msk vatn
¼ bolli rjómi
1 tsk vanilludropar
220 g rjómaostur við stofuhita
100 g smjör við stofuhita
1 ½ bolli flórsykur (eða minna, smakka til)
Hvítt súkkulaði til skreytingar

Hellið sykri og vatni í pott og hitið við meðalhita. Látið sjóða án þess að hræra í blöndunni þar til blandan verður fallega brún. Rafbrún ef það segir ykkur eitthvað. Takið pottinn af hitanum og hrærið rjómanum og vanilludropunum varlega saman við þar til blandan er orðin mjúk og fín. Ef allt fer í kekki þá hitið þið blönduna upp aftur þar til sykurinn bráðnar og allt verður mjúkt og fínt. Látið karamelluna kólna í c.a 20 mínútur um það bil þar til hún er rétt svo volg en enn fljótandi. Meðan karamellan kólnar hrærið þið rjómaostinn og smjörið þar til það er orðið mjúkt og bætið þá við flórsykrinum. Hrærið þar til þetta hefur blandast vel saman. Mér finnst ekki gott að hafa krem of sæt þannig ég set eins lítinn flórsykur og ég kemst upp með. Mælikvarðinn á það er að kremið þarf að ná ákveðnum stífleika til þess að hægt sé að sprauta því á kökurnar. Bætið karamellunni út í kremið og þeytið saman þar til kremið er orðið létt og loftkennt. Passið að karamellan má alls ekki vera of heit þegar henni er blandað við smjörið og sykurinn því þá verður kremið of lint. Ef það gerist setjið kremið þá inn í ísskáp þar til það er orðið nógu stíft.

Skreytið með hvítu súkkulaði. Ég notaði pólska hvíta súkkulaðið sem fæsti í Nettó, sjá hér, því mér finnst það geggjað.

P1130971

P1130977

Mayonesskúffukaka

WP_20160429_004

Einhver ykkar hafa örugglega heyrt um svoleiðis. Ég sá mayones fyrst í súkkulaðikökuuppskriftum á einhverjum amerískum matarbloggsíðum. Svo hef ég séð það í LKL uppskriftum. Mér fannst þetta verulega undarleg hugmynd fyrst. En svo fór ég að hugsa, mayones er bara fita og svo egg og bragðefni, af hverju ætti það ekki alveg eins að passa í kökur eins og allt annað skrítið sem ég nota, það er alla vega ekki skrítnara en blómkál eða kúrbítur.

Með það í huga prófaði ég einu sinni að setja mayones í súkkulaðikrem, það hins vegar virkaði ekki, bara svona til að vara ykkur við…….

Þessi kaka er líka eggjalaus, svo hún er mjög þétt. Það var vegna þess að ég átti ekki egg þegar það greip mig mikil löngun til að prófa að gera svona köku. Ég var með ákveðna mynd af uppskrift í huganum og hún innihélt egg. Ég nennti ekki út í búð svo ég varð bara að breyta hugmyndinni. En ég mun prófa þetta síðar, með eggjum því mig langar að vita hvernig það kemur út.

Mayonesskúffukaka

1 1/2 bolli sykur
1/2 bolli sýróp
3/4 bolli mayones
2 bollar súrmjólk
1 tsk skyndikaffiduft
2 tsk vanilludropar
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
2 bollar hveiti

Blandið öllu vel saman og bakið í 20*30 formi við 180°C í c.a 30-40 mínútur. Látið kökuna kólna og smyrjið á hana kremi. Ég gerði þetta krem:

Krem:
100 g súkkulaði
50 g smjör
2 msk sýróp
1 tsk vanilludropar
2 dl flórsykur

Bræðið saman smjör, súkkulaði og sýróp. Bætið vanilludropum út í. Látið kólna aðeins og þeytið flórsykrinum saman við.

Kakan er best daginn eftir.