Skyr og hnetusmjörssmákökur

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að elda stóra skammta og eiga afganga. Ég gleymi yfirleitt að afgangarnir séu til og svo finnst mér ekki skemmtilegt að borða það sama oft. Núna er hins vegar yfirdrifið nóg að gera hjá mér í lífinu og ég hef ekki orku í að hugsa jafn mikið um mat og hingað til. Maðurinn minn hefur tekið tímabil þar sem hann eldar nesti fyrir heila viku í einu. Það hentar honum vel, ég hef ekki verið á þeim vagni en nú er ég að prófa.

Síðasta vikan var sú fyrsta. Þetta er maus og tók tíma en sparaði svo tíma og orku alla hina dagana eins og gefur auga leið. Ég undirbjó bæði morgun- og hádegismat fyrir mig. Ég vissi það þýddi ekkert að hafa þetta allt eins því þá yrði ég strax leið. Maturinn minn verður að vera mjög fjölbreyttur.

Til þess að þetta yrði samt ekki of mikið vesen gerði ég einn grunn að hádegismat og tvo að morgunmat. Við keyptum lambalæri á afslætti og það dugði í nesti fyrir okkur bæði í 4 daga. Hjá mér í mismunandi salatútgáfum. Þetta gekk vel og ég ætla að gera það sama fyrir næstu viku. Nema alls ekki lambakjöt, ég var næstum orðin leið á því. Núna verður hægeldaður grísabógur í tveimur útgáfum í hádegismat og svo m.a þessar smákökur í morgunmat með skyri eða ab mjólk eftir því sem mig langar. Ég bjó mér líka til nutella skyrköku, sem ég skrifaði svo ekki niður.

En hér eru s.s. skyr og hnetusmjörssmákökurnar. Mér finnst gott að borða þær einar og sér, mylja út í graut eða búðing, skyr eða ab mjólk. Þær eru bara almennt góðar og hentugar í morgunmat eða snarl.

20170108_165811

Skyr og hnetusmjörssmákökur

1 dl hnetumjöl (getið notað möndlumjöl í staðinn)
1 dl óhrært skyr
1/2 tsk matarsódi
1 dl sukrin gold
karamellustevía og vanilludropar
25 g smjör brætt
2 msk hnetusmjör
20 g súkkulaði

Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarplötu með skeið. Bakið við 180°C í 10-12 mínútur. Látið kólna og geymið í ísskáp því kökurnar eru mjúkar.

 

Leave a comment